Þessi færsla er meira en 9 ára gömul.

Mannréttindi í Reykjavík

Nú hefur borgarmeirihlutinn dregið til baka ákvörðun um að borgin sniðgangi ísraelskar vörur í mótmælaskyni við ofbeldi gegn Palestíumönnum. Málið er auðvitað stórkostlega vandræðalegt á allan hátt. Þrennskonar rök hafa verið tilfærð sem ástæða sinnaskipta:

1. Að tillagan hafi aldrei átt að skaprauna Gyðingum svona en ekki hafi gefist rými til að útfæra hana betur.

2. Að það að halda tillögunni til streitu sé ekki lengur meirihlutavilji og að sundruð stjórn geti illa orðið að gagni, t.d. þeim málstað sem tillagan átti að styðja.

3. Að tillagan hafi byggt á mögulegri misnotkun valds.

Um fyrstu ástæðuna er fátt að segja. Hún er fyrirlitleg. Það að beita yfirgangsseggi og morðhunda þrýstingi til að láta af margvíslegum og útpældum ofbeldisverkum gegn saklausu fólki er eitthvað sem tekur þá aðeins við að maður missi ekki sekúndu svefn yfir því að móðga eða hrella þá sem þrýstingnum er beitt á. Þeir sem draga málið til baka á þessum forsendum eru loddarar. Þeir hafa leikið óþolandi lýðskrumsleiki þar sem leikpeðin eru raunverulegt fólk sem líður raunverulegar þjáningar. 

Önnur ástæðan er hálf ömurleg líka. Það er stundum sagt að það sé öryggi í fjölda. Eflaust er það rétt. Sameinaðir geta jafnvel veikir einstaklingar steypt af stóli sterkustu harðstjórum. Það er raunar tilgangur aðgerða sem þessara til að byrja með: Að hjálpa kúgaðri þjóð í suðri með því að standa með henni. Það eru stórkostlegir órar að þessi málalok hafi hjálpað málstað Palestínumanna. Þvert á móti hafa kúgarar þeirra aðeins fengið enn eina staðfestinguna á eigin styrk. Það er nefnilega engin hjálp í fjöldanum ef fjöldinn fylgir þeim huglausu.

Þá er það þriðja ástæðan. Að pólitískir fulltrúar hafi hér gengið of langt. Þeir hafi beitt valdi sínu með hætti sem ekki samrýmist þeim mörkum sem þeim eru sett. Það er skoðun margra að borgarfulltrúar í borginni séu krónískir áhugamenn um þesskonar valdníðslu. Við munum t.d. að skólastjórum í Reykjavík var skipað að gera sólmyrkvagleraugu skólabarna upptæk. Vegna mannréttinda. Það eru margir trúmenn innan borgarinnar sem telja að valdníðsla sé daglegt brauð í borginni í nafni mannréttinda.

Reykjavíkurborg á í bölvuðu basli með mannréttindin. Með atburðum síðustu daga hefur sannast að mannréttindamál eru borginni ekki prinsippmál, heldur praktískt. Mannréttindi víkja fyrir meiri hagsmunum. Meiri hagsmunir eru t.d. peningar. Og róttæku prinsippflokkarnir, Vg og Píratar, virðast ætla að fylgja Besta flokknum í þá vegferð að láta samvistirnar við Samfylkingu draga úr þeim allan damp. 

Það eru stórkostleg mistök. Það fer ekki hugsjónafólki að leika pólitík þannig að hinu augljóslega rétta sé fórnað vegna peninga. Þeir eiga ekki roð í suma aðra flokka í því. 

Það er miklu auðveldara og trúverðuglegra fyrir þá að selja sig fyrir peninga sem hafa peninga að hugsjónum til að byrja með.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu