Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Landóvættir

„Hmm...hvar er ég þarna?“ spurði fimm ára sonur minn og benti á ljósmyndina á skjánum. Myndin var af litla, albanska drengnum sem síðastliðna nótt var rekinn úr landi. Hann snýr baki í ljósmyndarann og stendur við opnar útidyr. Með báðum höndum heldur hann um tuskudýr sem vinur hans af leikskólanum gaf honum.

Þegar sonur minn spurði brast strengur innra með mér. Hann sá það sama og ég hafði séð. Þessi mynd var ekki af ókunnugum dreng. Þetta var barnið mitt sem stóð þarna úlpuklætt rétt fyrir jól um hánótt og beið þess að vera rekið burt.

Ég er reiður og hryggur. Atburðir liðinnar nætur misbjóða mér tilfinningalega, vitsmunalega og siðferðislega. 

Það er nefnilega ekki svo að hér takist á heitar tilfinningar og kaldrifjuð skynsemi. Það er ekkert yfirvegað eða gott við afstöðu Útlendingastofnunar. Ólöfu Nordal var ekki nauðugur sá kostur að þykjast hvorki sjá né heyra. 

Ákvörðunin er bæði á skjön við tilfinningar og skynsemi.

Við þurfum að hætta að láta sem stjórnmála- og embættismenn hafi til að bera meira vit en þeir hafa. Þeir eru oft voðalega hug-, hugsjóna- og vitlausir. Og þegar stjórnmál margra þjóða flækjast saman í einn vef má nokkurnveginn reikna með því sem vísu að skynsemin verði undir. Annars sætu ekki hundruðir blóka þessa dagana í París að reyna af veikum mætti að slökkva hitakóf Jarðar með munnvatnsfroðunni úr nærsýnum pólitíkusum. 

Við Íslendingar erum einna vitlausastir allra. Okkar maður sletti ekki minni froðu en aðrir í París – en kom svo aftur heim til að vaka yfir draumum „umhverfisráðherrans“ síns um stórfellda olíuvinnslu.

Fyrir tveim áratugum lagðist heimskari hluti þjóðarinnar í fósturstellingu og bjó sig undir óumflýjanlega innrás fólks af hinu Evrópska efnahagssvæði. Skyndilega máttu útlendingar búa á Íslandi og Íslendingar í útlöndum. Það hlyti að enda með ósköpum.

Í dag má hálfur milljarður manna flytja til Íslands. Samt fækkar okkur. 

Það er argasta þvæla að það að taka við nokkrum langveikum börnum frá þjóð sem er ekki einu sinni tíu sinnum stærri en sú íslenska muni setja hér allt á annan endann.

Ótti okkar við heiminn vex í öfugu hlutfalli við smæð okkar sjálfra.

Hvar annarsstaðar myndi lögmaður óvættarinnar vera gerður að talsmanni hinna brottreknu? Og hvar annarsstaðar myndi slíkur talsmaður mæta í fjölmiðla til að tala gegn fólkinu sem hann á að tala fyrir?

Bara á Íslandi.

Og hvar annarsstaðar myndi mynd af litlum dreng brjóta hundrað þúsund hjörtu að morgni og að kvöldi mætir ráðherrann loks í fjölmiðla og segist vorkenna – sjálfri sér?

Bara á Íslandi.

Og hvar annarsstaðar myndi fólk halda því fram í alvöru að heilsu barnsins sé borgið því heilbrigðiskerfið í Albaníu sé gott – þegar vitað er að hvergi í hinum siðmenntaða heimi er meiri ójöfnuður í aðgangi að heilbrigðisþjónustu og hvergi þurfi fólk að greiða meira úr eigin vasa til að njóta slíkrar þjónustu? 

Hvernig á fólkið að geta borgað fyrir heilbrigðisþjónustu heima í Albaníu þegar það var á endanum hótun um reikninga frá íslenskum sjúkrahúsum sem hrakti það úr landi?

Svona gerist auðveldlega í landi þar sem umhverfisráðherrann vil dæla upp olíu. Og þar sem sjálfhverfur og huglaus innanríkisráðherra tekur við af gerspilltum.

Allnokkrir Íslendingar buðust til að vera með borgaralega óhlýðni í nótt. Foreldrar drengsins vildu það ekki. Vildu ekki skelfa börnin sín meira en orðið var.

Betra fólk var hrakið burt af verra fólki.

Albönsku fjölskyldurnar voru ríkari en þeir sem þær sóttu ásjár hjá af öllu nema peningum. 

En við hverju er að búast af þjóð sem pressar golþorska á aðra hlið peninganna og bölvaðar landóvættirnar á hina?

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni