Kyssið glaða, ríka, svarta rassinn minn!
Árið 1977 fór allt á annan endann í Bandaríkjunum eftir að sýsla á sunnanverðum Flórídaskaga bætti því í mannréttindareglur sínar að bannað væri að neita fólki um húsnæði, vinnu eða þjónustu á grundvelli kynhneigðar. Fram að því hafði verið fyllilega ásættanlegt að segja hommum og lesbíum upp leigu eða vinnu.
Fyrrverandi dægurlagasöngkona frá Oklahóma reis upp á afturfæturna og tók til varna gegn lagabreytingunni. Söngkonan, Anita Bryant, hafði hafið feril sinn sem táningsfegurðardís. Fyrsti smellurinn hennar var: „Það er synd að daðra.“* Nú, þegar hún var farin að nálgast fertugt hafði syndabankinn vaxið mjög að burðum og baráttan eftir því. Hún stökk því fram á sjónarsviðið undir slagorðinu Save Our Children. Röksemdafærsla hennar hnitaðist um það að aukin aðgangur samkynhneigðra að atvinnu og húsnæði yrði á endanum til þess að börn enduðu í klónum á níðingum.
Anita Bryant vann slaginn. Löggjöfin var dregin til baka og aftur varð löglegt að meina samkynhneigðum um húsnæði, vinnu og þjónustu. Í stað þess að fagna sigrinum og traðka á óvininum mætti hún í viðtöl, full af náungakærleik, og bauð fram kristilegt kærleiksknús til „kynvillinganna“. Hún sagðist vilja „...leita hjálpar og breytinga fyrir samkynhneigða sem með sjúklegum og sorglegum hætti afbökuðu hýrleikshugtakið til að breiða dulu yfir eigin vansæld.“
Ári seinna tók söngkonan sverð sitt og lensu og hélt þvert yfir landið til að halda áfram hinni góðu baráttu í Kaliforníu. Þar var í gangi slagur fyrir því að skólar væru varðir gegn samkynhneigð. Anita slóst til liðs við íhaldsmanninn John Briggs sem lagt hafði fram til almennrar atkvæðagreiðslu þá tillögu að samkynhneigðir og áróðursmenn samkynhneigðra yrðu metnir óæskilegir sem kennarar. Börn ættu að njóta friðhelgi gegn slíkum áróðri.
Þegar slagurinn stóð sem hæst héldu andstæðingar tillögunnar baráttufund í Hollywood-Skálinni. Fundurinn var afar vel sóttur og margir af vinsælustu skemmikröftum þess tíma komu þar fram. Aðstandendum viðburðarins var mjög í mun að allt væri slétt og fellt. Samkoman fór því öll fram undir rós. Á kynningarefni var talað um baráttufund fyrir mannréttindum. Kynhneigð var hvergi nefnd. Hver skemmtikrafturinn á fætur öðrum gætti þess einnig að læðast eins og köttur kringum heitan graut. Allt var voðalega virðulegt og fágað.
Samkoman breytti þó um svip þegar Richard Pryor steig á svip. Í fyrstu sagði hann ekki neitt. Gekk aðeins fram og til baka eins og ljón í vígahug og horfði illilega á áhorfendurna. Allt í einu byrjaði hann að tala: „Ég tottaði einu sinni tippi.“
Það var eins og helgislepjan rynni af samkomunni. Skemmtikrafturinn uppskar mikil húrrahróp.
Það átti eftir að breytast.
Þegar Pryor steig loks á svið sauð á honum. Hann hafði setið og fylgst með því sem fram hafði farið. Honum hafði ofboðið skinhelgin. Sérstaklega fór í skapið á honum og að bæði áhorfendur og starfsmenn sýndu þeim fáu svertingjum sem þarna voru hreina og tæra fyrirlitningu. Áður en hönd varð á fest var hann farinn að húðskamma gestina. Hann kallaði þá Hollywood-fagga sem væru þarna undir yfirskini mannréttinda en raunin væri sú að þá langaði bara til að geta sogið tippin hver á öðrum án þess að þurfa að eiga það á hættu að vera böstaðir. Þegar svarta fólkið hefði gert uppreisn hefðu hommarnir hvergi verið sjáanlegir. Þeir hefðu notið þess að hringsnúast um eigin rassgöt. Hann lauk ræðunni á því að þeir mættu kyssa sinn glaða, ríka, svarta rass.
Allan seinni hluta skammarræðunnar hafði áhorfendaskarinn púað og baulað. Hann hélt áfram að baula eftir að starfsmaður kom á svið og sagði að skipuleggjendur viðburðarins hefðu ekki vitað af þessu fyrirfram og að þeir skömmuðust sín óskaplega. Raunar var Pryor baulaður alla leið inn í sögubækurnar því uppákoman í Skálinni hefur oftast verið höfð til marks um það að þar hafi hann tapað glórunni.
Þó brugðust ekki allir eins við.
Að mati sumra hitti Pryor á snöggan blett. Heimur samkynhneigðra í Kaliforníu á þessum tíma var æði einsleitur. Þetta var heimur hvítu hommanna. Litið var niður á lesbíur og konur almennt, svertingja og þá sem ekki uppfylltu fegurðarstaðla hommaheimsins. Vinsælasti skemmtistaðurinn hleypti konum og svertingjum sjaldnast inn og þeir sem voru yfir kjörþyngd eða þóttu ekki nógu myndarlegir voru líka óvelkomnir. Víða tíðkaðist meira að segja sú regla að til að fá aðgang á klúbba var algengt að menn þyrftu að lyfa bolnum og sýna tónaðan líkamann.
Nokkrir sögðu að þótt Pryor hefði vissulega verið stuðandi væri full ástæða til að draga lærdóm af rantinu. Þeir voru þó miklu fleiri sem fordæmdu herlegheitin og sáu ekkert annað en viðbjóðslegan, særandi, hómófóbískan sorakjaft. Greinar voru skrifaðar í blöð þar sem Pryor var tættur í öreindir og honum lofað að tryggt yrði að hann fengi ekki vinnu við að skemmta framar.
Þetta var ekki í fyrst skipti sem Richard Pryor lenti í svona vandræðum. Hann hafði ungur slegið í gegn sem óheflaður en bráðfyndinn vélbyssukjaftur. Hann undibjó sig sjaldnast en óð úr einni sögu í aðra af ótrúlegri færni. Hann notaði óspart orð eins og „niggari“ og komst upp með það. Raunar hafði hann landað stóra samningnum mjög snemma og meðan hann var enn ungur fékk hann að skemmta tvisvar á kvöldi í einu af stóru spilavítunum í Las Vegas. Til þess þurfti þó að ritskoða grínið og taka burt dónalegu orðin. Eitt kvöldið fékk hann nóg og jós yfir áhorfendur þvílíkri blótsyrðasúpu að hann var rekinn samstundis.
Hvorugur atburðurinn átti eftir að hafa varanleg slæm áhrif á feril hans. Raunar reis stjarna hans hæst eftir atburðinn í Skálinni. Hann sligaðist þó hægt og rólega undan gríðarlegri fíkniefnaneyslu og á tíunda áratugnum var hann illa haldinn af MS-sjúkdómnum. Hann fékk hjartaáfall og dó árið 2005, 65 ára gamall. Hann er almennt álitinn einn fremsti skemmtikraftur og uppistandari Bandaríkjanna.
Þeir sem kannast við Richard Pryor skilja varla hvers vegna í ósköpunum hann var fenginn til að tala á samkomu sem veigraði sér við að nota hugtakið hommi eða samkynhneigður. Richard Pryor var óheflaður. Það var aðdráttaraflið. Raunar var grínið hans stundum dauðans alvara. Áhorfendur hlógu sig máttlausa þegar hann lýsti því hvernig amma hans barði hann sundur og saman sem barn. Honum stökk ekki bros á meðan hann sagði frá þessu. Enda var hann að lýsa sumum sárustu stundum ævi sinnar. Hann var alinn upp á hóruhúsi, yfirgefinn af móður sinni og skilinn eftir í umsjá ömmunnar sem var maddama hússins. Húmorinn hans einkenndist af sársauka og hatri. Hatri út í samfélagið – hatri út í sjálfan sig. Og fólkið bara hló – eða baulaði.
Áður en lengra er haldið langar mig að draga saman örfá atriði. Dægurlagasöngvari finnur Krist og verður upp frá því viss um að sýnileiki samkynhneigðra í samfélaginu sé ógn fyrir sakleysi barna. Slagurinn færist inn í skólana þar sem tekist er á um áhrif þess á börn að kennarar séu með „rangar“ hugmyndir um samkynhneigð. Allt springur endanlega í loft þegar samkynhneigðum er algjörlega misboðið hvernig talað er um þá.
Þið fyrirgefið þótt ég ítreki þá skoðun mína, sem ég hef áður lýst, að besta veganesti Íslendinga til framtíðar sé að skoða betur fortíð þjóðanna í kringum okkar. Allt sem við gerum og hugsum hefur áður verið gert og hugsað. Okkur er engin minnkun í því að læra af reynslu annarra.
Og talandi um það sem áður er búið að hugsa.
Það væri okkur öllum gott að lesa það sem John Stuart Mill skrifaði til varnar málfrelsinu á sínum tíma. Hér er örstutt samantekt:
Ritskoðun á augljóslega ekki við þegar sönn skoðun er bönnuð. Það er ekki eins augljóst en ritskoðun er líka skaðleg þótt henni sé beitt á það sem virðist vera bull. Ef viðhorfum og skoðunum má ekki andæfa og standa gegn fölna viðhorfin og skoðanirnar og missa styrk, óháð því hvort þær eru sannar. Þegar sönn skoðun mætir mótstreymi endurnýjar hún sig og fær kraft og styrk. Þegar um er að ræða skoðun sem er á gráu svæði og er hvorki fullkomlega sönn né ósönn þá eru árekstrar bráðnauðsynlegir til að greina hismið frá kjarnanum. Yfirleitt er sannleikskorn í fleiri en einni skoðun. Átök greina sannleikann frá restinni. Séu átök um skoðanir bönnuð, eða latt til þeirra, getur sannleikskornið haldið lyginni á lífi. Almenningsálitið má aldrei verða æðsti dómari um leyfilegar skoðanir. Jafnvel þótt einn maður hafi skoðun sem er öndverð skoðunum allra annarra er réttur þeirra til að þagga niður í honum engu meiri en réttur hans til að þagga niður í þeim.
Almennt er tekið heilmikið mark á Mill. Um leið er það sem hann sagði gjarnan sveigt til svo það passi við ríkjandi hugmyndafræði. Mill sagði til dæmis að hversu siðferðilega ámælisverð sem skoðun væri ætti hún rétt á að heyrast. Þetta er hluti af stærra hugmyndakerfi þar sem frelsi er lykilatriði. Mill vill aðeins skerða frelsi eins ef það veldur öðrum raunverulegum skaða.
Það er enda algjörlega augljóst að menn eiga ekki að vera frjálsir að því að meiða aðra.
Þess vegna fullyrða bæði bandaríska söngstjarnan og sú íslenska að það að hommar fái að leigja afdrep og ganga um í rasslausum buxum skaði á endanum börn. Þess vegna fullyrða bandaríski íhaldsmaðurinn og íslenski fræðslustjórinn fyrrverandi að samvistir nemenda og kennara með röng viðhorf skaði nemendurna. Á endanum hafa öll svona mál haft tilhneigingu til að enda í einni langdreginni blaðurorgíu um það að einhver verði nú að hugsa um blessuð börnin!
Það sem Mill áttaði sig á og við mættum fleiri hugsa um er að það er algjörlega tilviljanakennt hvað það er sem hópur fólks tekur sig saman um að upplifa sem skaðlegt eða óleyfilegt hugarfar. Það eru engar innbyggðar varnir í manneskjunni sem koma í veg fyrir það að maður láti sannfærast af rugli. Það eru aukinheldur engar innbyggðar hræsnisvarnir. Kristið fólk sér ekki sjálfkrafa þegar það kúgar aðra með kærleik. Og hommarnir í Skálinni gerðu sér fæstir grein fyrir því að þeir voru rasískar karlrembur með fitufordóma.
Á endanum snýst málfrelsi og umræða um heiðarleika og viljann til að læra eitthvað af öðrum. Verst af öllu er að bannfæra rangar skoðanir. Eðlilegast er að ganga út frá því að flestar skoðanir innihaldi einhvert örlítið sannleikskorn. Ef maður er viljugur til að leita að þessu sannleikskorni þá er það versta sem getur gerst að maður áttar sig á því að skoðunin var leir í gegn – en það besta sem getur gerst er að maður rekst á eitthvað sem getur gert manns eigin skoðanir örlítið betri. Og jafnvel þótt það gerist sjaldan eða maður sé umkringdur skoðunum sem eru ekkert annað en tóm steypa – þá skuldar maður skoðunum manns sjálfs að styrkja þær. Ekki með því að einangra þær heldur með því að láta á þær reyna.
Bann til varnar skoðunum er á endanum banvænt því sem vernda á.
*Samkvæmt sumum heimildum söng Anita Bryant ekki í laginu Sinful to Flirt.
Mynd með færslu: Barcex
Athugasemdir