Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Kennarar yfirgefa skólana

Það eru ekki margir áratugir síðan stúdentspróf virkaði sem stallur milli menntastéttar og annars launafólks. Heimurinn hefur þó breyst mjög hratt. Næstu 2-3 áratugi mun fleira fólk ljúka háskólanámi í heiminum en alla mannkynssöguna fram að því. Allur þorri fólks mun stunda nám mörgum árum lengur en foreldrarnir – ætli það sér að standa jafnfætis öðrum. Þessi breyting er ekki séríslensk, hún á sér stað á heimsvísu. Það er samt líklegt að áhrifa hennar á íslenskt samfélag muni gæti með nokkuð öðrum hætti en víðast annarsstaðar. 

Kynslóðin sem innrammaði stúdentsmyndir og hafði á áberandi stað í betri stofunni er að öllum líkindum gengin. Stúdentsmyndir fara á samfélagsmiðla og fljóta þar í stafræna straumnum það andartak sem þeim ber. Vægi prófgráða fellur hratt og til verður ný stétt atvinnulauss hámenntaðs fólks. Bárátta unga fólksins til að koma undir sig fótunum verður í auknum mæli alþjóðleg og raunar bendir margt til þess að eldri kynslóðir hins íslenska samfélags hafi gengið svo langt í sjálfhygli að brátt verði Ísland allt að Garðabæ: Samfélag elítunnar sem gengið hefur svo langt í að halda öðrum úti að það er orðið ósjálfbært. Okkar hæfasta fólk mun næstu ár og áratugi streyma til útlanda og hafa lítinn hvata til að koma aftur. Fólk er enda að mestu hætt að eignast börn um tvítugt og því standa fleiri kostir opnir lengur en hjá kynslóð foreldranna.

Ein aukaverkun þeirra tíma þegar tiltölulega stutt nám myndaði aðgreiningu fólks í menntað og minna menntað var að framboð á tímabundnum kennurum var reglulega mikið. Það var normið hjá stórum hópum fólks að gerast leiðbeinendur í grunnskólum í nokkur misseri áður en endanlegur starfsvettvangur var valinn. Það er ekki langt síðan stór hluti þingmanna hafði einhverja kennslureynslu með þessum hætti. Þá gengu prestar víða inn í kennslu og jafnvel annað langskólagengið fólk úr nærumhverfi skólanna. Það þótti á einhvern hátt til marks um kennslufærni að hafa sjálfur verið lengur í skóla en aðrir.

Í haust verða liðin 20 ár síðan ég hóf störf við kennslu sem leiðbeinandi. Ég hafði aldrei hugsað mér sérstaklega að gera kennslu að ævistarfi. Mig langaði til að prófa. Ég sótti um í fjölmörgum skólum og fékk á endanum jákvæð svör frá tveimur skólum fyrir vestan. Ég man að ég sótti um við skóla á Suðurnesjum og fékk þaðan svarið að það væri liðin tíð að skólar þar þyrftu að ráða leiðbeinendur. 

Samkvæmt fréttum hefur það nú breyst aftur. Hvergi fjölgar leiðbeinendum meira en á Suðurnesjum. 

Ég hef alltaf verið dálítið skotinn í því að leiðbeinendur séu ráðnir í skóla. Ég er ekki sammála fjölmörgum kollegum mínum sem reisa vilja rammgerða múra um starfið. Kannski er það vegna þess að ég kom þannig sjálfur inn í starfið og veit að ég hefði líklega aldrei farið hina leiðina, þ.e. menntað mig fyrst til starfsins og svo athugað hvort mér hefði líkað það. 

Ég er samt ekkert yfirmáta hrifinn af hinni sögulegu leið. Allir þessir prestar og verðandi þingmenn held ég að hafi ekki haft neina stórkostlega yfirburði á fjöldamargt annað fólk sem lokka hefði mátt inn í skólana fyrst menn voru að því á annað borð. Ég held að börnin hefðu ekki haft minna gott af því ef þau hefðu líka fengið að njóta handleiðslu listamanna, húsmæðra og sjómanna með einhverjum hætti. Enn er til dæmis mikil saga ósögð frá tilraunum hins mikla mannréttindafrömuðs Péturs Þorsteinssonar á Kópaskeri sem sótti það markvisst að gefa börnunum í skólanum tækifæri til að starfa með listamönnum að skapandi starfi.

Ég hef lengi haft þá skoðun að með aukinni menntun sé gráupplagt að breyta kennaranáminu á þann veg að eftir þriggja ára grunnnám taki við launað starfsnám. Kennaranemar séu þá sendir út af örkinni (jafnvel notuð franska aðferðin sem felst í því að gegn dálítið betri kjörum samþykki nemarnir að vera sendir í skóla í landshlutum þar sem hörgull er á kennurum) og (það held ég sé mikilvægt) tækifærið sé nýtt til að opna leið fyrir starfandi kennara til að taka oftar hlé frá störfum til að koma inn í háskólann til að efla menntun sína og styrkja hið akademíska starf.

Raunin er því miður sú að Ísland er á leið í þveröfuga átt. Fyrir nokkrum árum var ákveðið að stórefla kennaranám og lengja það úr þremur árum í fimm. Á sama tíma átti að stórbæta launin. Námið var lengt. Launin bötnuðu ekki neitt. Laun kennara hafa tæplega náð að halda sama sessi og þau höfðu og til að hindra að þau drægjust enn lengra aftur voru kennarar neyddir til að selja frá sér talsverð réttindi og auka starfsálag mjög á elstu kennarana. 

Enn er það svo að kennari nær ekki meðallaunum á Íslandi. Þar vantar raunar töluvert upp á. 

Í öðrum löndum eru kennarar undantekningalítið með töluvert hærri laun en hinn almenni launamaður. 

Á Íslandi þykir það óþarfi. Samband kennara og yfirboðara þeirra er ofbeldissamband. Það hefur verið svoleiðis lengi. 

Það sést kannski best á því að kennarar eru enn einu sinni farnir að reisa upp kryppuna og átakaundiralda farin að myndast – og stjórnendur sveitarfélaga trúa því einlæglega að næsta verkefni í kjaramálum kennara sé að stórauka hagræðingu. 

 

Nú hefur það gerst enn að kennarastétt blæðir. Ungt fólk fer ekki lengur í kennslu – nema sem leiðbeinendur þá sem allsendis óvíst er að skili kennurum til framtíðar. Meðalaldur kennara hækkar upp úr öllu valdi og er kominn upp undir fimmtugt. Karlar yfirgefa stéttina í hópum og eru nú komnir nokkuð undir 20% og stefna einbeittir á að verða enn færri. 

Stjórnvöld líta ennfremur svo á að þetta sé allt hið eðlilegasta mál. Það er í alvöru litið á það sem hagfræðilögmál á íslandi að mannekla í kennslu sé jákvætt merki um stígandi í atvinnulífinu. Kennarar hljóti alltaf að leita í betur borguð störf í uppgangi en skili sér aftur í kreppu. Þess vegna þurfi ekki að hafa miklar áhyggjur. Ef skólunum gangi illa sé það til marks um að samfélaginu gangi vel.

Þetta er auðvitað bilað hugarfar.

Auðvitað verða svona hagfræðilögmál til þegar starfsstétt eins og kennarar er fest í launum töluvert undir meðallaunum. Það er nógu erfitt að lifa af meðallaunum á Íslandi, hvað þá að menn hafi bolmagn til þess að draga fram lífið á enn lægri launum. 

Það er hinsvegar ekki heilbrigðismerki fyrir samfélag að það láti skólastofnanir sínar mæta afgangi og treysti á kreppur til að viðhalda mannauði. Þetta er raunar dæmigerð íslensk skammsýni. Við höfum nefnilega heilmikið um það að segja hvort ástandið sé gott eða vont, hvort kreppur séu djúpar og tíðar eða ekki. Það þarf að byggja upp stöðugt og gott atvinnulíf – og það verður ekki gert án góðra skóla.

Ef Íslendingar mennta ekki börnin sín og sjálfa sig af sæmilegu viti verða þeir sífellt eins og forfeðurnir, leiksoppar utanaðkomandi áhrifa. Kreppur koma og fara í fullkomnu stjórnleysi.

Fyrir nokkrum árum var lögboðið að ákveðið hlutfall kennara á leikskólum skyldi hafa kennaramenntun. Þau lög hafa verið brotin af fullkomnu kappi síðan. Það vantar nærri 2000 menntaða leikskólakennara upp á til að lögunum sé framfylgt. Nú fækkar grunnskólakennurum líka. Vegna skorts á ungum kennurum hafa sveitarfélögin knúið fram hærri nýtingu á elstu kennurunum. Það endist bara í örfá ár. Þeir munu hætta fyrir aldurs sakir eða bogna undan álagi. Þá stöndum við frammi fyrir ósjálfbæru grunnskólakerfi líka. 

Það sem þá gerist er átakanlega fyrirsjáanlegt. Við komum hér upp dulbúnu ruslmenntakerfi. 

Árangur skóla verður skilgreindur út frá örfáum mælanlegum stærðum, aðallega tengdum lestri og reikningi, og öll áherslan lögð á að sinna þeim þáttum sem mæla skal. Sæmilega þjálfaður lírukassapi gæti hlýtt skipunum með þeim hætti sem þarf til að spila með í leiknum. 

Ákveðin öfl munu dæla út fréttum um að skólakerfið standi í blóma. Læsi hafi sjaldan eða aldrei verið betra og allt sé á uppleið.

Eftir áratug eða svo af þessu kemur í ljós að kerfið allt stendur á brauðfótum. Allt tal um framfarir er tómt blekkingahjal og skólakerfið stendur eftir stórlaskað. Og þá verður engin fljótleg leið til að bæta fyrir skaðann því kerfið verður holt að innan. Menntakerfi byggja á mannauði fyrst og fremst. Tilraunir til að komast hjá því að rækta upp mannauð geta glapið um hríð en valda á endanum mun meiri skaða.

Nákvæmlega þessi þróun skólamála hefur átt sér stað hér og þar í vestrænum heimi síðustu tvo áratugi. Nú eru menn sumsstaðar að reyna að snúa af þeirri braut sem Íslendingar, undir forystu menntayfirvalda sem engan skilning hafa á tilgangi eða vægi menntunar, eru ekki aðeins viljandi að reyna að feta – heldur eru með andvaraleysi og hringlandahætti smátt og smátt að neyða menntakerfið inn á.

Það er nefnilega svo að bráðum höfum við ekkert val. Þegar ekki verður hægt að manna menntakerfið lengur vegna þess að fólk hefur einfaldlega ekki áhuga á störfum innan þess þá koma örvæntingafullar og vondar ákvaðranir af sjálfum sér – og þá er það orðið of seint.

Þess vegna er það sorglegt þegar fyrrum bæjarstjóri Reykjanesbæjar telur það upp í varnargrein að meðal afreka hans sé að byggja upp fremsta menntakerfi á landinu skuli núverandi stjórnandi þessa sama menntakerfis tala um það sem eðlilegan hlut að þar fækki menntuðum kennurum eðlilega þegar svona mikið sé að gera í flugstöðinni. 

Menntakerfi landsins þarf að vera í forgangi. Kennarar mega ekki vera efnahagslegir þrælar. Samfélög sem sætta sig við fátækt kennara eru samfélög sem eru að dæma sjálf sig til fátæktar í framtíðinni.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni