Þessi færsla er meira en 9 ára gömul.

Þjóð á nippi byltingar

Þjóð á nippi byltingar

Geirvörtubyltingin snerist í kjarna sínum ekki um það hvort brjóst væru kynfæri. Hún snerist um skömm, sektarkennd og samtakamátt. Eftirskjálftar hafa síðan gengið yfir. Aðallega á samskiptamiðlum. Sexdagsleikinn og konur tala eru dæmi um það. Og það var einstaklega fallegt þegar fólk skipti út andlitsmyndum á Facebook fyrir samstöðutákn með fórnarlömbum kynferðisofbeldis. Mótmæli eða gagnrýni á uppátækin hafa verið veikluleg. Einn geðveikur maður sýndi á sér punginn á Austurvelli. Ein tepruleg lögga kvartaði á Facebook. Og einhver asni hjá íslenskum öryrkjasamtökum gerði heiðarlega tilraun til að sannfæra fólk um að fávitaskapur væri viðurkennd örorka (sjá mynd með færslu). Í sjálfu sér eru þetta engar alvöru mótbárur. Þunginn er allur sömu megin.

Nú stendur þjóðin á nippinu. Fleiri byltingar vofa yfir. Þá er ég ekki að meina að fólk fari að berja í potta og pönnur og heimta ríkisstjórnina frá. Sumir munu jú gera það. Það mun þó líklega koðna niður. Það eru aðrar bylting sem eru nærtækari og margfalt varasamari fyrir þá sem þeim verður beint gegn. Það kraumar undir yfirborðinu. 

Alvöru byltingar eru aggresífar en um leið uppbyggilegar. Þær beinast gegn augljósu ranglæti. Og þegar þær komast á skrið er erfitt að stöðva þær. Viðbjóðslegu peðin sem býttuðu brjóstamyndum af íslenskum stelpum misserum saman eru orðin svo hornreka í netheimum að þeir eru sjálfir farnir að skammast sín fyrir sig – þrátt fyrir að vilja það alls ekki. Valdið er allt öðru megin. Þeim megin sem sjálfsvirðingin var allan tímann – það þurfti bara að stuðning.

Næsta bylting getur sprottið upp hvenær sem er. Hún getur sprottið upp úr málefnum hjúkrunarfræðinga. En líklegra er að hún verði af enn hversdagslegra tilefni.  Ég myndi til dæmis fara óskaplega varlega við það að velta kauphækkunum út í verðlagið væri ég í rekstri um þessar mundir. 

Því hefur lengi verið veifað yfir hausamótunum á Íslendingum að þeim séu allar bjargir bannaðar við að leiðrétta kjör sín. Ef þeir heimti of mikið muni fyrirtækin einfaldlega hækka verðin og éta allt upp.

Málið er að eðli byltinganna sem orðið hafa upp á síðkastið er að fjöldinn veit að hann hefur vald. Það þarf ekki nema eitt fyrirtæki sem heldur að það geti varið hagnaðarkröfu sína með því að skrúfa upp verðin til að allt springi í loft upp. Fyrst misbýður réttlætiskenndinni. Svo verður til málstaður, slagorð eða merki og skyndilega ákveða tugþúsundir í einu vetfangi að sniðganga þann sem varð fyrir valinu. Það má nefnilega vel vera að hægt sé að taka verkfallsrétt af fólki með lagavaldi – en ekkert vald í veröldinni getur neytt fólk til að versla við einn frekar en annan.

Verði þjóðinni misboðið getur fjandinn orðið laus. Hér getur skyndilega og óvænt orðið til harðsnúnasta neytendavernd í vestrænum heimi. Og það þrátt fyrir að við séum alræmdir neytendaslóðar. Við vorum þjóðin sem pukraðist með brjóstamyndir og þaggaði mörg mein í hel. Bylting verður ekki alminleg nema innistæða sé fyrir henni. Slóðaskapur okkar í neytendamálum er tifandi tímasprengja. 

Nú þegar ljóst er að almenningur á erfitt með að gæta kjara sinna með hefðbundinni baráttu er það bara tímaspursmál að hann átti sig á því að í raun og veru liggur hann á öllu því valdi sem hann kýs. Og þegar valdið vaknar mega hinir gráðugu gæta sín.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni