Hver á upplýsingarnar um barnið þitt?
Til að hægt sé að markaðsvæða menntakerfi þarf að búa til einfalt mælikerfi um árangur. Ein leið er sú að taka upp ávísanir og leyfa foreldrum að velja skóla fyrir börnin. Þá eru „bestu“ skólarnir um leið þeir eftirsóttustu. Önnur leið er að búa til samræmda gæðamæla (yfirleitt samræmd próf). Mælarnir segja þá til um gæðin. Í stefnumörkun fyrir menntun eru allar leiðir af þessu tæi hættulegar. Páll Skúlason heitinn orðaði eina hættuna afar vel:
„Eitt er að hugsa um þekkingu, annað að hugsa um peninga. Þegar hugsað er um peninga skiptir mestu að tæknilegir mælikvarðar hafi forgang vegna þess að menn vita fyrirfram hver árangurinn á að vera og vandinn er einfaldlega sá að finna hagkvæmustu og áhrifamestu leiðirnar að þessu tiltekna markmiði.“
Þekking er stór þáttur menntunar. Fleiri þættir koma þó til. Nefna mætti færni og viðhorf. Af öllum hinum fjölbreytta tilgangi menntunar eru þekking þó líklega sá auðmældasti. Páll heldur áfram:
„Þegar hugsað er um þekkingu er ekki sjálfsagt að tæknilegir mælikvarðar hafi forgang vegna þess að þekkingin verður ekki mæld á sambærilega mælikvarða og peningar eða fjármunir hvaða nafni sem þeir nefnast: Þekking og skilningur eru í eðli sínu ómælanleg gildi líkt og ástin, sannleikurinn og réttlætið.“
Menntun verður aldrei mæld auðveldlega. Þannig standa Svíar nú frammi fyrir því að ávísanakerfið hefur brugðist. Í þeim tilgangi að lokka til sín nemendur hafa skólar einfaldlega lagt áherslu á yfirborðskennda hrifningarþætti. Eins hafa tveir Bandaríkjaforsetar glímt við að láta samræmd próf virka sem raunverulega mælikvarða á nám. Fyrst George W. Bush sem hleypti af stað Enginn skilinn eftir (e. No Child Left behind), átaki sem hindra átti að menntakerfið kæmist upp með að slugsa. Síðan tók Barack Obama við með Kapphlaupinu á tindinn (e. Race to the Top). Báðar aðferðir hafa valdið margvíslegum félagslegum og menntakerfislegum vandamálum og árangur, mældur með hefðbundnum aðferðum, er enginn í alþjóðlegum samanburði.
Stuðningsmenn tíðra mælinga sjá líka mörg tækifæri í mælingunum sjálfum. Mælingar framleiða upplýsingar og upplýsingar má selja. Þótt markaðsvæðing íslenska skólakerfisins sé komin frekar skammt á veg (mislangt þó eftir skólastigum) þá verður hið sama ekki sagt um upplýsingarnar sem skólakerfið framleiðir.
Á Íslandi er starfandi fyrirtækið Vísar – rannsóknir ehf. Einn af aðstandendum þess er Almar M. Halldórsson. Almar þessi starfar fyrir ríkið við rannsóknir á skólakerfinu en rekur sjálfur sitt eigið fyrirtæki þar sem hann kemur upplýsingum í verð. Um sjötíu skólar á Íslandi leggja Almari og félögum til viðbótarupplýsingar um nemendur með reglulegum könnunum. Þar eru nemendur látnir svara spurningum um viðhorf, heilsufar, líðan og fleira. Upphaflega stóð til að greina þær upplýsingar í þaula en Persónuvernd stöðvaði fyrirtækið af. Þó eru ýmsar upplýsingarnar samkeyrðar fyrir hópa.
Fyrirtæki Almars safnar upplýsingum um nemendur, námsárangur þeirra og fjárhagsumsvif skólanna á einn stað. Þessar upplýsingar eru síðan seldar.
Þær eru ekki aðeins seldar skólunum heldur virðist sem svo að fólk úti í bæ geti keypt skýrslur. Ef ég sel brúðusýningar um tilfinningatrúðinn Tóta inn í skóla get ég farið til Almars og keypt upplýsingar um það hvort börnum líði betur í skólum sem ég hef heimsótt en öðrum skólum. Það get ég svo notað til markaðssetningar.
Almar starfar eins og áður sagði einnig hjá opinberri stofnun. Sem nú á að taka stakkaskiptum. Sameina á þá stofnun sem framleiðir námsefni og þá sem metur nám. Persónuvernd hefur gert alvarlegar athugasemdir um meðferð og söfnun upplýsinga sem stefnt er á hjá stofnuninni. Þykir mönnum þar á bæ að að stefnt sé að nákvæmari upplýsingasöfnun en lög leyfa.
Það er samt í störfum sínum fyrir sitt prívat fyrirtæki sem Almar selur upplýsingar. Meðal annars upplýsingar sem stofnunin sem hann vinnur fyrir safnar. Eigendur upplýsinganna hafa fæstir hugmynd um hve víðtæk notkun þeirra er og ég hygg að fæstir foreldrar viti hvernig í pottinn er búið.
Nú hefur nýlokið störfum starfhópur sem hafði m.a. það hlutverk að velta fyrir sér mögulegum leiðum við að stórauka söfnun upplýsinga um börn. Hópurinn var skipaður af ráðherra og innan hans voru, eins og eðlilegt er, skiptar skoðanir. Skyndilega var téðum Almari bætt í hópinn. Starfið var þá hálfnað. Kannski vegna þess að innan hópsins var ekki nægur samhljómur um hinar stórauknu mælingar.
Nema hvað, þar með var ekki nóg með það að maðurinn sem selur upplýsingar stofnunar starfi við stofnunina sjálfa, heldur var hann eftir krókaleiðum orðinn þátttakandi við að móta opinbera stefnu sem segir stofnuninni sem hann starfar fyrir fyrir verkum.
Það er varla hægt að sitja við fleiri hliðar borðsins.
Upplýsingar um börn eru orðnar mjög veruleg auðlind. Eins og staðan er í dag er afar óljóst hver á þessa auðlind. Það er meira segja svo að fæstir hafa hugmynd um hvernig hún er nýtt.
Hver á upplýsingarnar um barnið þitt?
Athugasemdir