Þessi færsla er meira en 9 ára gömul.

Hvað merkir A?

Í vor útskrifast grunnskólanemendur með bókstafaeinkunnir í stað talna. Þrátt fyrir að skólakerfið hafi haft nokkur misseri til að undirbúa breytinguna er afar óljóst með hvaða hætti hún verður framkvæmd. Fyrir utan ýmis praktísk atriði er alls ekki ljóst fyrir hvað tilteknir bókstafir standa. Það er erfitt að segja fyrir hvað A stendur.

Sumpart er þetta alls ekki nýr vandi heldur ný birtingarmynd vanda sem lengi hefur verið viðloðandi námsmat. Kennarar gera mismunandi kröfur. Nemandi sem gerir allt sem kennari leggur fyrir hann með óaðfinnanlegum hætti verðskuldar í flestum tilfellum háa einkunn. Þar með er ekki sagt að sú einkunn sé sambærileg við sömu einkunn hjá öðrum kennara; hvað þá að á bak við báðar einkunnir sé sama þekking eða færni.

En sumpart hefur vandi námsmats breyst töluvert með tilkomu nýrrar námskrár og nýrra markmiða sem verið er að hrinda í framkvæmd í menntakerfinu.

Skoðum þetta nánar:

Fyrir hvað stendur A?

Annarsvegar táknar A stöðu þína miðað við aðra nemendur. Hinsvegar táknar A að þú hafir skilgreinda þekkingu og leikni.

Sem ætti auðvitað að leggjast saman og verða að: A táknar að með hliðsjón af tiltekinni leikni og þekkingu ertu framúrskarandi.

Í námskrá (sem hefur reglugerðarígildi) er sérstaklega tekið fram að þennan kvarða megi „laga að þörfum skólans og aðstæðum hverju sinni.“ 

Það flækir dálítið málið að gerður er greinarmunur á hæfniviðmiðum sem tengjast sérstaklega tilteknum greinum og lykilhæfni sem er almenn námsfærni sem meta á sérstaklega. 

Hæfniviðmið og lykilhæfni skarast með margvíslegum hætti og á stundum er nokkuð tilviljanakennt hvaða hæfni það er sem fleytir nemanda milli A og B. Þannig er tildæmis í náttúrufræði bæði gerð krafa um að nemendur séu læsir á vísindalegar upplýsingar og að þeir séu færir um mat á siðferðilegum álitamálum. Í fyrra tilfellinu telst skýr greining á viðfangsefninu til hæfni sem verðskuldar B en í því seinna telst greinargóð skýring vera hæfni sem verðskuldar A.

Við fyrstu sýn kann þetta að virka glundroðakennt en þá verður að hafa í huga að í gegnum námskrána liggur rauður þráður. Svo við höldum okkur við náttúrufræðina þá eru þar skilgreind ákveðin viðfangsefni sem hnitast að mestu um þrjár grundvallarspurningar: Hvað, hvernig og hvers vegna? Að auki er ætlast til að nemandinn geti tekið afstöðu. Síðan á að meta greiningarhæfni, skilning og gagnrýna hugsun.

Hver skóli á að gera sér sína eigin námskrá þar sem hann skilgreinir nokkuð nákvæmlega með hvaða hætti hann útfærir frelsi sitt til að túlka aðalnámskrá.

Sú hugmyndafræði sem birtist í námskránni fer fram á að skólastarf sé fjölbreytt. Hugmyndin er sú að í hverjum skóla eða sveitarfélagi sé ígrundað og sjálfbært námssamfélag sem leitast við að ná mikilvægum grundvallarmarkmiðum með sínum eigin hætti. Slík fjölbreytni getur orðið öflugur hvati að skólaþróun ef skólar læra hverjir af öðrum.

Það má halda því fram að núgildandi námskrá beri öll merki þess að íslenskt skólakerfi sé á tímamótum og hafi hrint af stað ferli sem leiða á skólann til móts við nýtt og að mörgu leyti óþekkt hlutverk.

En þetta er aðeins önnur hlið mála.

Á sama tíma og skólar vinna eftir námskrá sem beinlínis hvetur til staðbundinnar aðlögunar og fjölbreytni er það viðhorf í fullu fjöri í skólakerfinu að námsmat án stöðlunar sé ekkert námsmat. Ef A eigi að merkja eitthvað tiltekið þurfi A eins að vera sem næst A einhvers annars. Það sé ekki nóg að fá gögn frá skóla sem skilgreini nánar fyrir hvað A stendur í hvoru tilfelli fyrir sig.

Tveir aðilar ganga helst fram fyrir skjöldu sem varðmenn stöðlunarviðhorfsins. Það eru annarsvegar útsendarar menntamálaráðherra í Menntamálastofnun Íslands og hinsvegar örfáir framhaldsskólar sem stundum eru kallaðir einu nafni rjómabúin.

Tengsl skólastiga eru áskorun útaffyrir sig. Í fyrsta sinn má segja að námskrár í landinu séu samfelldar fyrir öll fjögur skólastigin upp að einhverju marki. Þess vegna, og vegna löngunar til að skerða framhaldsnám um eitt ár, vilja menn að einkunninn A merki einnig að nemandi geti farið hraðar gegnum framhaldsskóla. Sá sem lýkur stærðfræðinámi í grunnskóla með A geti þannig sleppt a.m.k. einum áfanga í framhaldsskólastærðfræðinni og stokkið inn í meira krefjandi nám.

Þetta veldur margvíslegum vanda því samræmi milli efnis og efnistaka er ekki nema miðlungi mikið milli grunn- og framhaldsskóla. Vandinn verður enn stærri þegar beinlínis er hvatt til fjölbreytni í nálgunum. Þá er hinn „æskilegi“ snertipunktur skólastiganna ímyndaður, þ.e. báðum skólastigum er ætlað að þróa sig í þá átt að þeir mætist á óljóst skilgreindum stað. Samt eru nemendur að fara á milli skólastiganna núna. Það veldur vanda.

Sérstökum vanda veldur það fyrir rjómabúin. Það eru skólar sem aðeins vilja fá allra bestu nemendur hvers árgangs. Mælikvarði þeirra á styrk nemenda er hversu auðvelt nemendur eiga með að læra með þeim kennsluaðferðum sem þeir sjálfir ástunda. Þessir skólar vilja að námsmat sé einfalt, auðskilið og miði við þá sjálfa. Nýja kerfið gerir það alls ekki. Þess vegna hótuðu einhverjir þeirra að taka upp sitt eigið námsmat til hliðar við hitt. Það olli mikilli spennu innan menntakerfisins. Það má ímynda sér að slíkt gæti fyrr eða seinna leitt til þess að menntakerfið klofni eftir endilöngu. Til að friðþægja skólunum lýsti Menntamálastofnun því yfir á dögunum að hún myndi sjálf útbúa próf fyrir rjómabúin. Þess verður væntanlega skammt að bíða að áhrif þess komi fram. Einhverjir skólar munu eflaust miða starf sitt frekar við þau próf en hinar óljósu kröfur aðalnámskrár. Og menntastefnan sem mörkuð hefur verið í landinu mun gliðna á saumunum.

Hafi myndin sem nú er búið að mála upp orðið flóknari og illeysanlegri eftir því sem á leið eru málin við það að verða enn flóknari. Menntamálastofnun Íslands hefur nefnilega ákveðið í samráði við ráðuneytið að kvarðinn sem stuðst er við verði ekki A, B, C, D heldur A, B+, B, C+, C og D. Þessi breyting er sögð viðbragð við gagnrýni en gegnir í raun því hlutverki að samræma kvarðann við hæfniviðmið OECD eins og þau birtast í Pisa-prófunum. Þar sem þetta er sami kvarði og notaður verður í íslenskum samræmdum prófum liggur beinast við að markmiðið sé að A tákni nokkurnveginn sömu stöðu nemanda við útskrift úr grunnskóla, á samræmdum prófum og á Pisa. Raunar hefur Menntamálastofnun sagt hreint út að næstu misseru verði leitað að misræmi í notkun bókstafa milli þessara þátta. Nýju rjómabúsprófin geta flýtt fyrir í þeirri vinnu.

Þá er komin upp nýr spennuvaldur. Miðað við Pisa 2012 ættu innan við 100 nemendur á landinu öllu að fá A. Það er minna en einn í hverjum skóla. Það mun ekki gerast. Það getur vel verið að þannig þurfi það að vera til að mælikvarðinn endurspegli stöðu íslenskra nemenda miðað við meðalstöðu nemenda innan OECD en þá verður að hafa í huga að innan OECD eru skólakerfi með allt önnur markmið er það íslenska. Innan Menntamálastofnunar eru reyndar starfandi áhrifamiklir aðilar sem telja að íslenska menntakerfið ætti að hafa önnur markmið en það hefur. Þeir telja meira að segja sumir að það ætti að setja sér sömu markmið og þau ríki hafa sem mælast skilvirkust samkvæmt OECD en það breytir ekki því að Menntamálastofnun hefur það hlutverk að starfa eftir þeirri stefnu sem hér gildir. Það ber skólum líka að gera. Tenging matskvarðans við OECD (sem er yfirlýst markmið og ekkert leyndarmál) byggir á pólitískum vilja aðila sem eru í ákveðnum atriðum ósammála menntastefnu landsins.

Hvað táknar þá A?

A táknar að nemandi hafi náð þeirri hæfni sem skólinn hefur sett í öndvegi með því að nýta sér frelsi sitt til túlkunar á aðalnámskrá. A táknar um leið að nemandinn er kominn áleiðis í námsefni framhaldsskóla, hvort sem það efni er í samræmi við markmið aðalnámskrár eða ekki. A á líka að tákna hvar nemandinn stendur miðað við bekkjarfélaga, aðra nemendur í sveitarfélaginu og landinu – og síðast en ekki síst – miðað við nemendur í heiminum öllum.

A táknar semsagt ekkert eitt.

Það gerir B, C og D ekki heldur (með eða án plúsa).

Vegna þess hve óskýrt þetta er stendur yfir túlkunarslagur þar sem mismunandi viðhorf til þess hvað A ætti að tákna takast á. Þann slag mun Menntamálastofnun Íslands vinna. Hún hefur valdið og velþóknun valdhafanna. Valdhafa sem segja það ekki upphátt en eru í grundvallaratriðum á móti menntastefnunni eins og hún er í lögum.

Þannig að svarið við spurningunni er einfalt: Það er erfitt að segja hvað A táknar en það er auðvelt að segja hvað A kemur til með að tákna. Það mun tákna að hvar nemandinn stendur hlutfallslega miðað við meðaltalsáherslur Sjanghæ, Suður-Kóreu og Singapúr í menntamálum.

A táknar skófluna sem notuð verður til að moka yfir sjálfstæða, íslenska menntastefnu.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu