Hommaljóð og annar viðbjóður
Einu sinni var Allen Ginsberg sóttur til saka fyrir að skrifa of berorð ljóð um kynlíf homma.
Einu sinni fór leynilögga í bókabúð til að kaupa hommaljóð Ginsbergs. Hann fór út með bókina – og sölumanninn í handjárnum.
Dómstólar sögðu: Látið þá lausa, þetta má!
Seinna fór Ginsberg til Bretlands. Hann bauðst til að lesa ljóðin sín hvar sem er fyrir hvern sem er án greiðslu. Þetta var á blómatíma Bítlanna. Gott ef Twist and Shout kom ekki út þetta sama ár.
Twist and Shout er reyndar mjög Ginsberglegur titill.
Ljóðalestur Ginsberg olli byltingu í Bretlandi. „Ég elska þig stormur...“ sagði eitt skáldið. „Merkasti dagur breskrar ljóðlistar...“ sagði annað.
Ginsberg varð stofnun. Hann er lesinn í háskólum um heim allan. Eitt merkasta skáld Bandaríkjanna.
Svo kom Reagan. Og Thatcher.
Ginsberg vingaðist við Joe Strummer.
Ginsberg um Reagan: Þeir sem veifa mest nafni krists eru djöfullegastir allra.
Strummer um Thatcher: Hún á heima á pönkplötualbúmi með hakakross á andlitinu..
Reagan: Ef ekki er hægt að banna hommaljóð og annan viðbjóð alfarið er að minnsta kosti hægt að banna að slíkt sé spilað í útvarpi – nema á nóttunni.
Thatcher: Frá og með núna er bannað að gefa það í skyn í skólum að samkynhneigð sé í lagi.
Ginsberg dó. Strummer dó. Reagan dó. Thatcher dó.
Ginsberg er enn kenndur í öllum háskólum. Amerísk stofnun. Og sem slík að mestu steinrunnin.
Í dag er víða bannað að gefa annað í skyn en að samkynhneigð sé í lagi.
David Olia, verðlaunaður kennari, kennir bandarískan bókmenntaáfanga fyrir lengra komna. Sautján og átján ára nemendur, sem sumir fá háskólaeiningar fyrir kúrsinn, læra meðal annars ljóð.
Einn nemandinn biður kennarann að skoða ljóð með bekknum. Hommaljóð eftir Ginsberg. Kennarinn fer yfir ljóðið með bekknum. Sumir roðna. Öðrum finnst það krípí eða skrítið.
Morguninn eftir er kennarinn settur í leyfi. Þremur sólarhringum seinna er honum tilkynnt að hann verði rekinn. Þremur vikum seinna fellst hann á að segja upp.
– Þú brást trausti okkar.
– Þú smánaðir skólann.
– Þú brást foreldrum.
– Þú ógnaðir andlegri heilsu nemenda.
– Þú lokaðir fram á gang og slökktir ljósin meðan þú spilaðir þetta myndband:
Ljóðið er fullt af girnd. Fullt af vessum. Fullt af kynlífi. Fullt af hlutgervingu.
Svona má ekki!
En hér eru engir dómstólar.
Enginn segir: Þetta má víst!
Kennarinn verður að hlýða skólayfirvöldum.
Skoðun skólaráðsins er skoðun kennaranna er skoðun nemendanna.
Hálfu ári seinna fer eldri hluti nemendanna yfir í nýjan skóla. Þar er þetta á pensúminu.
Lærdómurinn er þessi: Það er betra að uppræta hommaljóð og annan viðbjóð með því að nota skólana en næturútvarpið.
Athugasemdir