Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Hin baneitraða snjallsímafíkn

Egill Helgason segir í bloggi sínu að læknir hafi í kvöldfréttunum vitnað í Albert Einstein sem óttast hafi þann tíma „þegar tæknin færi fram úr mannlegum samskiptum“. Við þetta saumar Egill ansi dramatískt stef:

Ein af ráðgátum nútímans er hvernig við látum tæknina taka af okkur völdin, fylgjum henni í blindni án þess að vita nokkuð um hvert hún er að leiða okkur. Í þessu er fólgin ákveðin nauðung – að við hljótum að þróa tæknina út á endamörk og helst út yfir þau, bara af því við getum það. En það er allsendis óvíst að mannkynið kunni fótum sínum forráð í þessu efni. Tækni hefur gert líf okkar betra og auðveldara, en hún kann líka að verða þess valdandi að mannkynið eða stórir hlutar þess fari sér að voða og jörðin verði lítt byggileg.“

Nú veit ég ekki hve hræsnislaust er hægt að eiga þessa umræðu eingöngu í stafrænum heimi. Við skulum samt reyna. 

Byrjum á smáatriði. 

Þessi tilvitnun í Albert Einstein er auðvitað lygi. Hann sagði aldrei neitt þessu líkt. Það er raunar furðulega auðvelt að sannreyna það ef maður er sæmilega ratvís í stafrænum heimi.

Hér er hinsvegar raunveruleg tilviljun sem ég gróf upp eftir að hafa lesið blogg Egils um efnið (þetta er úr frægu (jafnvel alræmdu) ritverki):

Af fyrrgreindum ástæðum má ljóst vera að tæknin er öflugra samfélagsafl en frelsishvöt okkar. Þessi fullyrðing krefst nauðsynlega nánari skýringa. Svo virðist sem næstu áratugi muni iðn-tækni-kerfið verða undir gríðarlegu álagi vegna efnahags- og umhverfisvandamála – og ekki síst vegna vandamála sem spretta af mannlegu atferli (firringu, uppreisn, andúð og margvíslegum félags- og sálrænum vandamálum).

Þetta er ekki Einstein. Þetta er efnisgrein 134 í manifestói Ted Kaczynski, Unabombersins, mannsins sem bókstaflega reyndi að sprengja bandarískt nútímasamfélag aftur um nokkrar aldir. Þetta er leiðarstefið í hugmyndum hans um heiminn í heljargreipum „tækniframfara“.

Bandaríski hryðjuverkamaðurinn er líka sérstakur aðdáandi gagnrýni Platóns á lýðræðið og samdi meðal annars smásöguna Flónafleyið (Ship of fools) þar sem nútímasamfélagi er líkt við skip sem stefnt er í voða vegna þess að áhöfnin er ekkert annað en hópur kjána. Nokkuð sem er áhugavert í ljósi þess að hinn upplogni Einstein ku hafa sagt að tæknin væri að gera okkur öll að kjánum.

Heimurinn er auðvitað alltaf að farast í aðra röndina. Þegar fólk tók sig til og flutti úr sveit á möl stóð eftir vonsvikinn hópur sem barasta gat ekki skilið hvernig hægt væri að segja sig svona úr kompaníi við hinn raunverulega tilgang lífsins, að labba í þögninni milli þúfna á stígvélum. Þegar unglingamenning fór að myndast gat eldra fólk ekki annað ímyndað sér en að það myndi hafa varanleg heilaskemmandi áhrif að hanga yfir agalausri graðhestamússík á vínilplötum tímunum saman í illa loftræstum herbergjum. Sjoppur voru síðan auðvitað gróðrastíur siðspillingar, almennrar niðurlægingar og fráhvarfs frá góðum lifnaðarháttum. Kvikmyndir voru forheimskandi tímaþjófar sem espuðu upp allskyns ónáttúru í ungu fólki. Það gerðu margar bækur líka. Sérstaklega þær með nútímastafsetningunni.

Hver kynslóð fyrir sig fótar sig í eigin tíma. Það gera langflestir að minnsta kosti. Það er herfilega óeðlilegt að dæma tímann út frá vansælustu og veikustu dæmunum. Flestir lifðu sæmilega af Elvis Presley, Bítlana, sjoppur, kaffihús og kvikmyndir á spólum. Það sem meira er: Heimurinn varð á jafnvel pínulítið betri. Og mannlegri. Fjölbreytileiki og breyskni eru mennskustu kostir sem hægt er að hugsa sér. Heimspekileg núvitund víðlesinna manna eða upphrópuð aðdáun bónda á norðlensku landslagi (í bundnu máli að sjálfsögðu) er, satt að segja, hvorki sérstaklega dæmigerð fyrir mennskuna né endilega til eftirbreytni.

Sjoppum, sveitaböllum og sjónvarpi fylgdu áskoranir. Samskiptamiðlum fylgja líka áskoranir. Öllum breytingum lífsins fylgja áskoranir. Samfélagsbreytingar einkennast sjaldnast af þeirri hófstillingu og háttvísi sem hinir forframaðri í hópi borgaranna kysu helst.

Tækninni verður ekki úthýst úr lífi Íslendinga á 21. öld. Það gengur ekki að næsta kynslóð verði aðeins nestuð af 20. aldar klisjum og kunni ekki einu sinni að gúgla sannleiksgildi þeirra.

Það þarf samt ævinlega að muna að tilgangur uppvaxtar og tilveru okkar er farsæld.

Þegar farsæld er ekki í forgrunni, t.d. í skólastarfi eða atvinnulífi, má reikna með að lífið verði mörgum brokkgengt.

Heimurinn verður ekkert sprengdur aftur um aldir. Hvorki með sprengjum né bloggpistlum. Fólk mun laga sig að þeim veruleika sem upp er kominn. Hinn stafræni veruleiki er einfaldlega samofinn öllu lífi hér til framtíðar. Því fylgja auðvitað tækifæri – og áskoranir. 

Leikskólabörn fara í umferðarskóla. Ekki til að lokka þau út á götur þar sem hægt er að keyra yfir þau heldur einfaldlega vegna þess að göturnar eru komnar til að vera – og við viljum að börnin kunni að nota þær.

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni