Þessi færsla er meira en 9 ára gömul.

Gráu svæðin

Ég hef tilhneigingu til að leita að gráu svæðunum þegar ég sé hvíta eða svarta fána. Stundum of mikla tilhneigingu. Hópnauðgunarmálið hefur reynst mér erfitt að þessu leyti. Ég hef séð á því ótal gráa fleti. Stundum hefur mér verið hugsað til leikritsins Vorið vaknar eftir Wedekind þar sem móðirin berst gegn því að dóttir hennar verði fullorðin með því að upphefja hugmyndina um kynlíf, endurskilgreina það. Svo er dótturinni nauðgað án þess að hafa hugmynd um hvað er að gerast.

Mér hefur líka verið hugsað til Reykjavíkurdætra sem segjast vera femíniskar og valdeflandi og syngja:

Ég er pæja og í því að rappa
Er ég sú færasta
Skipti’ um gæja eins og túrtappa
ég á 7 kærasta

og

Tófan er mætt á túttunum
Er ein af dúkkunum
Ísköld og svalandi
Með blæti fyrir lauslæti
Mæti á svæðið, farin eftir korter
því ég er alltof feit fyrir etta shit
Motherfokker
XXX - kalla þá pjakka
Teymi þá á eftir mér í bandi eins og rakka..
Sál mín er svört
Svört og sykurlaus-
Ég kaus- að vera óttalaus
Kostar eitthvað fimm-kúlur borga ég fimmtán
Vilji ég eitthvað næ ég að fá´ða
Því ég er mella og ég motherfokkin má´ða

Ég á líka dálítið erfitt með að málið skuli ævinlega og í sífellu tengt Breiðholtinu. Skil ekki hvaða tilgangi það þjónar. Þótt mig gruni eitt og annað.

Eitt truflar mig þó langmest af öllu.

Það var þegar ég renndi yfir tímalínuna mína á Feisbúkk áðan og sá að Sveinn Andri Sveinsson hafði keypt sér aðgang að henni. Maður sem ég hef nákvæmlega engan áhuga á að tengjast. Þarna var hann kominn – búinn að borga fyrir það að ég (og aðrir) sæjum umvöndun sem hann hafði skrifað til okkar. 

Það var bara aðeins of mikið grátt.

Það angrar mig að Sveinn Andri geti keypt sig inn í líf mitt eins og hann virðist geta keypt sig inn í líf barnungra kvenna, svalað á þeim löngunum sínum og skilið allt eftir í rústum. 

Það angrar mig að Sveinn Andri skuli þrátt fyrir allt eiga fjölmarga vini og viðhlæjendur. Njóta virðingar og valds. Þrátt fyrir að hann skorti greinilega siðferðislega hryggjarsúlu til að átta sig á því að maður ríður ekki börnum. Sama hvað.

Það angrar mig að óargadýr eins og Sveinn Andri skuli nota mál eins og þessi til að vekja athygli á sér eins og til að undirstrika að það séu engin lög til á landinu sem verndi börn fyrir mönnum eins og honum. 

Og það sem angrar mig mest:

Líklega er það rétt hjá honum.
 

Athugasemdir

Athugasemdir eru ekki leyfðar við þessa grein.

Nýtt efni