Þessi færsla er meira en 9 ára gömul.

Glæpalaust samfélag er ófrjálst samfélag

Ímyndum okkur samfélag þar sem ekki eru til neinar myllur. Þar eru hvorki vindmyllur né vatnsmyllur. Myllusteinar eru ekki einu sinni til í órum sofandi fólks. Samt sem áður lifir fólkið á brauði. 

Í stað þess að merja hveitið á milli myllusteina nota íbúarnir þá óskilvirku aðferð að berja fræin með kylfum á hörðu yfirborði. Kylfurnar eru öllum almenningi aðgengilegar og geymdar við þorpstorgið þar sem hver og einn getur sótt sér kylfur eins og hann þarf.

Sá böggull fylgir þó skammrifi að af og til eru kylfurnar misnotaðar. Einstaka menn nota kylfurnar til að berja aðra þorpsbúa þegar illa liggur á þeim. Börn og óvitar eiga það líka til að taka kylfur og nota til að lemja á smádýrum eða kremja blóm í beðum.

Sett er á þorpsþing. Stungið er upp á því að geymslufyrirkomulagi kylfanna sé breytt. Í stað þess að þær liggi á lágum bekk þar sem hver og einn getur náð í þær er stungið upp á að þær séu settar í skápa með frumstæðri barnalæsingu. 

Upphefst nú mikið rifrildi. Af ýmsum prinsippástæðum vilja sumir að kylfurnar séu aðgengilegar. Þeim er mjög illa við að þorpsráðið sé að loka þær inni í skápum, minnugar óeirða sem áttu sér stað á 17. öld þar sem kylfurnar urðu einkennistákn þorpsbúa sem þurftu að nota þær til að losna undan valdi einræðisherra. Síðan þá hefur rétturinn til að nota kylfu verið allt að því heilagur.

Einn þorpsbúa stendur upp og segir að allt tal um að aðgengi að kylfum eigi að vera óheft sé vandræðalegt. Mönnum og málleysingjum stafi raunveruleg hætta af drukknum mönnum og ódælum ungmennum sem ráfi um og berji á lifandi og dauðum hlutum. Það sé eðlilegasti hlutur í heimi að reyna að hindra að slíkt gerist. Að setja kylfurnar í skápa með einföldum lásum verði til þess að einbeittari vilja þurfi til að brjóta af sér. Hirðuleysi samfélagsins um þessi mál sé enda oft túlkað sem almenn velþóknun yfir því að kylfurnar séu notaðar með þessum hætti. 

Þá stendur upp fulltrúi Kylfuflokksins í þorpsráði. Hann bendir á að flokkur sinn standi vörð um hið heilaga frelsi fólks til að ganga með kylfu ef það svo kýs. Annað sé uppskrift að samfélagi kúgunar. 

Þorpsbúinn maldar eitthvað í móinn og reynir að segja að það sé nú líka kúgun að mega búast við því að eigur manns séu eyðilagðar eða maður sjálfur barinn af kylfuóðu fólki.

Kylfingurinn bandar frá sér og segir að þrátt fyrir allt sé algjörlega augljóst af hverju kylfur megi ekki loka inni. Rökin eru þessi: Ef við ætlum að stöðva drukkinn mann eða barn í að misnota kylfu verðum við að læsa kylfurnar þannig inni að ekki sé hægt að brjótast inn í skápinn. Barnalæsingar séu engan veginn nóg. Þær séu meira að segja hlægilega litlar hindranir fyrir þá sem vilja komast í gegnum þær. Síðan útskýrir hann fyrir fólki hvernig hægt er að opna barnalás á skáp eins og þeim sem stungið hafði verið upp á.

– – –

Nokkurnveginn svona er inntakið í „deilu“ Egils Helgasonar og Helga Hrafns um tilraunir til að hindra aðgengi almennings að vefsvæðum sem deila stolnu efni. Ég hef séð marga halda því fram að svar Helga sýni fram á hve veikar mótbárur Egils eru. 

Sjálfum finnst mér umræðan rétt vera að hefjast. Raunar tel ég að rökstuðningur Egils, eins og hann stendur nú, sé sterkari en Helga. Helgi er í raun ekki að svara Agli. Hann virðist vera að svara fulltrúa STEF sem kom fram með þá arfavitlausu spurningu hvort allir væru ekki sammála því að útrýma þyrfti öllum glæpum. Svarið við því er að sjálfsögðu nei. Glæpalaust samfélag er ófrjálst samfélag.

Það er himinn og haf á milli þess að vilja að koma upp glæpalausu alræðissamfélagi og þess að vilja færa stíflueyðinn upp á efri hillu eða setja upp skilti um að bannað sé að ganga á grasinu. Málflutningur Egils á miklu meira skylt við seinni tegundina af aðgerðum. Það að láta sem við búum í samfélagi þar sem frelsi er svo fortakslaust og almennt að minnstu aðgerðir af þessu tæi kalli á áframhaldandi röð aðgerða sem endi með algjörri kúgun minnir raunar mest á kexruglaða Bandaríkjamenn sem vilja ekki hefta aðgengi af byssum því það þurfti einu sinni að nota þær til að berjast við enska kónginn.

Eftir sem áður er umræðan alls ekki búin og Helgi Hrafn hefði getað svarað raunverulegum athugasemdum Egils með mjög sterkum rökum. Málið er mjög margþætt. Það að deyjandi fjölmiðlafyrirtæki hafi ákveðið að tryggja líf sitt með því að sölsa undir sig nettengingamarkaðinn sýnir að þetta er umræða sem þarf að taka, og það fyrr en seinna. Og taka alminlega.

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni