Þessi færsla er meira en 9 ára gömul.

Fyrirtæki sem borga illa eiga að stíga þetta skref...

Fyrirtæki sem borga illa eiga að stíga þetta skref...

Fyrir kennara hafa síðustu vikur og mánuðir verið kunnuglegt stef. Þar til nýlega hafði engin starfsstétt á Íslandi farið í verkfall á þessari öld nema kennarar. Að vísu var þessi rúmi áratugur af friði keyptur að mestu með ofsafenginni lánabólu og hruni í kjölfarið – en friður var það samt. Nú er friðurinn úti.

En af hverju var ekki friður við kennara? Þeir, einir stétta, héldu viðteknum hætti. Viðtekinn háttur þeirra þýðir að einhverjir hópar kennara fara í verkfall á fimm ára fresti eða svo. 

Lykillinn er traust

Í september 2012 hélt ég erindi fyrir Samfylkinguna í Reykjavík. Þar benti ég að að samband kennara við sveitarfélögin væri ónýtt – og það væri báðum að kenna. Ef menn ætluðu að komast út úr endalausum vítahring átaka og vantrausts yrðu sveitarstjórnmálamenn að brjóta odd af oflæti sínu og vinna í þessu sambandi. 

Það fór auðvitað ekki þannig. Síðan þá halda sveitarfélögin áfram að láta miðstýra sér innan úr Sambandinu. Þar vinna sérfræðingar í samningamálum sem hafa afar þrönga sýn á það í hverju árangur felst. Eftir síðustu átök er nú stundarfriður en ég get fullyrt með fullkominni vissu að óánægjufræin í skólasverðinum hafa aldrei verið frjórri en þau sem spretta munu næstu fjögur, fimm árin – þar til verkföll byrja á ný. Svona hefur þetta verið í áratugi – og svona verður þetta áfram. 

Þess vegna eru það við kennarar sem sjáum nú hvernig kunnugleikinn breiðir úr sér um þjóðfélagið. Atvinnurekendur bjóða ís og hækka við sig sporslur – launþegarnir marínera í réttlátri reiði. Svo springur allt í loft upp. Eftir blóðbaðið reyna menn að líta á sig sem sigurvegara. Svo rúlla örfá ár – og þá eru menn í sömu stöðu aftur.

Kjör kennara voru vond, urðu verri

Allan þann tíma sem kennarar hafa reynt að bæta kjör sín með reglulegum átökum hafa kjörin haldið áfram að versna. Hinar meintu launahækkanir sem þeir fengu nýlega eru t.d. fyrst og fremst fjármagnaðar með því að fækka fólki og fela þeim sem eftir eru meiri vinnu. 

Ungt fólk dagsins í dag er alið upp við veruleika sem er ólíkur því hvernig Ísland fúnkerar yfirleitt. Það er ekki algengt að það líði einn og hálfur áratugur án verkfalla. Hrunið náði töluvert út fyrir það sem eðlilegt getur talist í efnahagssveiflum og hin gegndarlausa lántaka var líka undarleg. Eðlileg efnahagslögmál hafa að mestu legið í frysti.

Íslensk efnahagslögmál eru óreiða

Því miður eru „eðlileg“ efnahagslögmál á Íslandi fólgin í átökum, ótta og verðbólgu. Kjarabætur hverfa í dýrtíð. Verð hækka af minnsta tilefni en lækka næstum aldrei. Almenningur er fastur í neti sem hann tekur jafnvel þátt í að hnýta um sig sjálfan. Hver kynslóð hefur lært einhver efnahagsleg húsráð sem byggja á einhverri reynslu, sem því miður er ekki hægt að yfirfæra á neinar almennar reglur – því allt kastast til og frá.

Þeir sem eitthvað hafa fylgst með vita sem er að jafnvel þótt krafan um 300 þúsund króna lágmarkslaun náist þá er næstum öruggt að hin íslensku efnahagslögmál munu leiða til þess á undrafljótum tíma að þeir sem eru í skítnum nú verða komnir í hann aftur. Þannig er það bara. Þannig hefur það verið.

Réttlætiskrafa

En krafan um 300 þúsund króna lágmarkslaun er í aðra röndina réttlætiskrafa. Krafa um samfélagslegt réttlæti. Leiðréttingu þeim til handa sem hafa minnst. Henni er ekki síst beint gegn þeim sem hafa fimm til tíu sinnum hætti laun en það og greiða síðan ofan á það arð sem nægja myndi til að snarhækka laun verkafólksins. 

Krafan um bætt laun er krafa sem beint er gegn fyrirtækjum sem eru hreinlega og augljóslega rekin á samfélagslega óábyrgan og siðferðilega vafasaman hátt. 

Þótt ég óttist að baráttan muni ekki skila varanlegum ávinningi bind ég auðvitað vonir við það – eins og svo margir aðrir. Ég skil alveg að það sé tímabært að bíta í skjaldarrendur og leyfa vanþóknuninni að sjást. 

En ég vil líka trúa því að núna sé tækifærið fyrir ábyrg fyrirtæki sem ekki vilja láta spyrða sig við siðferðilega vafasöm apparöt sem fara illa með fólk til að taka afstöðu. Slík fyrirtæki ættu að taka af skarið og gangast undir skilmála eins og þá sem felast í breska átakinu Living Wage.

Gullið tækifæri fyrir ábyrg fyrirtæki

Fyrirtæki sem fá Living Wage vottun eru fyrirtæki sem samþykkja að laun miðist við það hversu mikið kostar að lifa. Fyrirtækin greiða allnokkuð umfram lágmarkslaun því þau skuldbinda sig til að láta lægstu laun miðast við neysluviðmið. Þessir útreikningar eru ekki á valdi fyrirtækjanna sjálfra. Hlutlaus aðili reiknar út lágmarkslaunin og uppfærir árlega. Ef fyrirtækið vill vottunina þá verður það að gjöra svo vel og fylgja breytingunum eftir.

Nú vill svo til að neysluviðmið eru þekkt á Íslandi. Við vitum hvað það kostar að lifa. Það væri ekkert því til fyrirstöðu að fyrirtæki tækju þá afstöðu að annað væri óboðlegt en að starfsfólk þeirra gæti lifað af laununum.

Mig langar svo að trúa því að fyrirtæki sem tækju slíka afstöðu og fengju slíka vottun yrðu eftirsóttari vinnuveitendur. Ágóði fyrirtækjanna er margvíslegur. Yfirgnæfandi meirihluti þeirra atvinnurekenda sem taka þátt í verkefninu segja að fólk sem ráðið er á þessum kjörum skili betri vinnu og mæti betur.

Vinna á að vera leið frá fátækt

Forsendur Living Wage eru þær að það sé óboðlegt að fólk sem vinnur þurfi samt að glíma við fátækt. Flestir hafa ekkert annað að bjóða en vinnuframlag sitt. Það er óverjandi staða að hirða allt sem fólk hefur að bjóða – en láta það ekki fá það sem það þarfnast á móti.

Eins og þetta er framkvæmt í Bretlandi er reynt að láta lágmarkslaun endurspegla raunverulegan kostnað við að draga fram lífið. Það þýðir að launin geta verið misjöfn eftir svæðum. Á svæðum þar sem húnsæðisverð er uppsprengt þurfa laun að vera hærri. Á svæðum þar sem matur er dýr þarf það að endurspeglast í launum. Fyrirtæki innan breska verkefnisins þarf að reiða af hendi 17% hærri lágmarkslaun í London en sem nemur meðallaunum fyrir Bretland. Bætist það ofan á það að munur á breskum lágmarkslaunum og þeim lágmarkslaunum sem fyrirtæki innan átaksins þurfa að greiða eru 35%. (Sem myndi jafngilda því að á Íslandi myndu laun upp á 222 þús hækka upp í tæp 300 þ).

Frumkvæðið er fyrirtækjanna

Það sem er gott við svona nálgun er að fyrirtækjunum er frjálst að taka þátt og að í þessu felst siðferðileg afstaða og sanngirni. Fyrirtæki sem stígur slíkt skref er komið í þá aðstöðu að bæta samband sitt við starfsfólkið. Ef stjórnir og starfsfólk fyrirtækja ná saman í trausti er hægt að rjúfa vítahringinn sem einkennt hefur íslenskt efnahagslíf.

Baráttan fyrir 300 þúsund króna lágmarkslaunum er barátta fyrir sanngirni. Sanngirni verður seint til í slagsmálum. Það er ekkert sanngjarnt við að einn hafi annan undir í átökum. Sanngirni merkir að maður lætur eitthvað af hendi af fúsum og frjálsum vilja – af því það er réttlátt.

Og það er réttlátt að fólk geti lifað af laununum sínum.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni