Frakkland, Noregur og ...
Í myndbandi sem tekið var út um glugga á heimili í Parísarborg í gærkvöldi má sjá manneskju hanga út um glugga á þriðju hæð. Aðrir standa á syllunni við næsta glugga. Fólk liggur dáið og slasað á götunni fyrir neðan. Inni í byggingunni er verið að skjóta fólk. Eftir ótrúlega langan tíma birtist kona í glugganum og reynir að draga manneskjuna aftur inn.
Þegar við sjáum svona myndband fáum við tilfinningu fyrir hinni fullkomnu örvæntingu sem grípur manneskju sem reynir allt til að bjarga lífi sínu.
Þegar Breivik réðst á ungmennin í Útey sáum við það sama. Börn og unglingar grúfðu sig bak við steina – eða stungu sér til sunds í kaldan sjóinn.
Á vettvang þustu bátar til að ná þeim upp úr sjónum.
Mannshjörtun eru enda nákvæmlega eins í Frakklandi og Noregi – og Sýrlandi.
Breivik er allsstaðar. Manneskjan á syllunni er allsstaðar – hjálparar eru allsstaðar.
Við megum hafa það í huga þegar við hugsum um Sýrlendingana sem ódæðismennirnir hafa nú elt til Evrópu. Og sérstaklega þegar við hugsum um þá Sýrlendinga sem enn hanga í syllum eða flýja út á hafið.
Athugasemdir