Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Kjósendurnir hans Davíðs

„Umbrotatímar krefjast mikilhæfra manna“. Þannig hefst hið stórbrotna ritverk um Góða dátann Svejk. Þannig hófst líka kosningabarátta Davíðs Oddssonar til embættis forseta Íslands. Það var við hæfi. Ekki bara vegna þess að Davíð hefur áður tileinkað sér stjórnspeki úr ranni hins búlduleita, tékkneska fótgönguliða („Agi verður að vera í herbúðunum.“) heldur einmitt vegna þess að sú hryggðarmynd tilgangsleysis og lönguvitleysu sem máluð er í sögunni af afrekum Svejks í stríðinu á sér óþægilega skýra hliðstæðu í stjórnmálum landsins okkar.

Davíð Oddsson var tvítugur árið 1968. Hann tilheyrir þeirri kynslóð sem hrifsaði stjórnartaumana af feðrum sínum. Kynslóðinni sem heimtaði að hinir ungu myndu erfða jörðina – og heldur henni nú í heljargreipum sínum fram í andlátið. Davíð Oddsson verður sjötugur árið 2018 – þegar kjörtímabil næsta forseta er hálfnað. 

Síðustu misseri hefur verið talað um Ólaf Ragnar sem einhverskonar pólitískt ofurmenni. Manninn sem aldrei stígur feilspor og ævinlega nær að haga seglum sínum eftir pólitískum vindi. Það er þó runnið upp fyrir flestum að forsetinn gerði einmitt stórkostlega skyssu þegar hann bauð sig fram enn á ný fyrir stuttu. Því verður þó ekki neitað að aðdragandinn var lymskulegur með eindæmum. Hann nýtti sér veikleika hjá forsætisráðherra til að sprengja sér leið. Spilið var við það að ganga upp. Ef ekki væri fyrir tvennt.

Í fyrsta lagi er Ólafur Ragnar sekur um nákvæmlega það sama og Sigmundur Davíð. Hann er giftur inn í aflandseyjar. Í öðru lagi er Ólafur Ragnar búinn að hrista af sér fylgi allra nema hinna hræddu og óupplýstu. Og þar liggur stóri vandinn. Þá kjósendur telur Davíð sig eiga. Hvað sem öðru líður getur Davíð hrifsað til sín sprekin sem mynda hásæti Ólafs Ragnars. Það að horfa á forsetann detta af stalli er af sögulegum ástæðum eiginlega næg ástæða fyrir Davíð að fara fram.

Ólafur Ragnar drap stjórnmálamanninn Davíð. Hann laskaði Sigmund Davíð. Davíð ætlar sér að drepa Ólaf Ragnar. Fyrir sig – og nafna sinn. Davíð er tilbúinn að tapa kosningunum svo þannig megi fara. Hann mun einfaldlega tauta eitthvað um að nú hafi unga kynslóðin tekið við og það gleðji hans gamla róttæka hjarta og snúa sér að því að rækta tilfinningalífið á Akureyri á hinum glæsilegustu eftirlaunum sem um getur í sögu Íslands. 

Davíð er þó ekki bara að fara gegn Ólafi. Hann er líka að stíga fram gegn umbrotatímunum. Honum finnst Alþingi veikt – og enn veikari er framtíðarsýnin um Alþingi í höndum róttæklinga. Davíð langar til að halda á gunnfána íhaldsmanna í skyndisókninni gegn upplausninni sem vofir yfir næsta hausti. Og hvað með það þótt hann tapi? Gunnar Thorodssen tapaði 1968. Ef eitthvað er felst meiri sæmd í því að bjóða sig fram og tapa forsetakosningum en að vinna þær í ranni íhaldssamra Sjálfstæðismanna. 

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni