Þessi færsla er meira en 9 ára gömul.

Fimm ástæður þess að Júróvisjón er í andaslitrunum

Fimm ástæður þess að Júróvisjón er í andaslitrunum

Evrópska söngvakeppnin hefur líklega aldrei verið betri – en hún hefur heldur aldrei verið jafn augljóslega við dauðans dyr.

1. Keppnin er of löng.

Keppnin í ár byrjaði vel. Fyrstu lögin voru nokkuð góð. Þegar um þriðjungur var liðinn af henni komu nokkur mjög sterk lög í röð (Noregur, Svíþjóð, Kýpur, Ástralía, Belgía, Austurríki) en eftir það fjölgaði lögum sem hvorki voru grípandi né sérstæð. Seinni helming keppninnar voru kannski þrjú hrífandi lög (Lettland, Rússland, Ítalía). Sú tíð er einfaldlega brátt á enda að fólk nenni að hlusta sleitulaust á tónlist í tvo klukkutíma þar sem tvö lög af hverjum þremur eru alls ekki góð. Raunar erum við komin að mörkum þess að hægt sé að treysta á athygli fólks í þessar þrjár mínútur sem það tekur að flytja eitt lag. Ef lagið er ekki þeim mun magnaðra er fólk mætt á samfélagsmiðlana í stað þess að hlusta á lagið.

2. Járntjaldið er staðreynd.

Fyrir utan þau ríki sem sjálfkrafa áttu þátttökurétt í úrslitum komust þrjú ríki úr Vestur-Evrópu gegnum símkosningu í úrslit (Noregur, Svíþjóð, Belgía). Ef Tékkland eða Slóvakía hefðu verið í úrlitum hefði verið hægt að draga óbrotna línu frá Eistlandi niður til Grikklands gegnum ríki sem kepptu í úrslitum. Allur austurjaðar álfunnar komst í úrslit. Í keppni sem þegar inniheldur alltof mörg lög kemur að þeim tímapunkti að skúffaðar, vestrænar þjóðir hætta að nenna að hlusta á hálftíma af framlögum frá Kákásusfjöllum, Albaníu eða gömlum austantjaldsríkjum. Að auki er klíkuskapur í atkvæðagjöfum yfirleitt augljós. Þegar ofan á það bætist gremja með ástand mannréttinda hjá sumum þátttökuþjóðunum er ljóst að söngvakeppni í núverandi mynd er hæpin.

3. Kosningafyrirkomulagið er ósjálfbært

Virk þátttaka áhorfenda skiptir öllu máli varðandi áhuga á keppninni. Það er enginn möguleiki að hægt verði að hólfa atkvæði niður eftir þjóðerni eftir örfá ár. Tækni sem tryggja á að allir Belgar kjósi með belgískum leiðum og Hollendingar með hollenskum verður ekki til staðar í samskiptamiðlum framtíðar. Ef Íslendingar geta horft á Netflix á Íslandi þrátt fyrir að mega það ekki er ekki minnsta smuga á að hindra þá í að kjósa íslenska lagið eftir örfá misseri vilji þeir það.  Þegar þessir múrar falla hverfur um leið stór hluti af keppninni. Það er megineinkenni keppninnar að atkvæðabolmagn smáþjóðar er hið sama og stórþjóðar.

4. Dómnefndir eru spilltar

Almenningur í Evrópu var ekkert yfir sig hrifinn af sigurlaginu í ár. Svíar lentu í þriðja sæti í símkosningu, á eftir bæði Rússum og Ítölum (sem unnu stórsigur). Hér getur skipt máli að Rússar og Ítalir voru heppnir með staðsetningu í útsendingunni. Fólk var farið að missa einbeitinguna og farið að leiðast þegar lögin duttu inn og hresstu fólk við. Og svo hófst kosningin strax í kjölfarið. Það voru dómnefndirnar sem tryggðu Svíum sigur. Það gerðu þær með því að setja Ítali í sjötta sæti og Svía í það fyrsta. Meðal dómnefndanna fékk Ítalía helmingi færri atkvæði en meðal almennings. Mestu munaði þó um að hópur dómnefndarmanna og jafnvel heilar dómnefndir kusu algjörlega þvert gegn vilja almennings og settu vinsælasta lagið meðal áhorfenda í neðstu sætin. Þannig var albanska þjóðin hrifnust af ítalska laginu í símkosningu en dómnefndin ákvað að setja lagið í 25. sæti. Átján dómnefndarfulltrúar hér og þar um álfuna settu lagið í sæti 24, 25 og 26 – sex í hvert sæti. Dómnefndirnar eru spilltar og úr tengslum við hinn almenna kjósenda. Spillingin er mismikil. Vægasta afbrigði hennar felst í því að kjósa með þeim hætti að það komi heimalandi dómnefndarinnar vel.

5. Menn vita að þetta er að verða búið

Boðið um að leyfa Ástralíu að vera með snerist auðvitað ekkert um Ástralíu. Það snerist miklu meira um Kína. Alveg eins og þegar asískar auglýsingar fóru að birtast á evrópskum knattspyrnuvöllum þá ber keppnin í ár þess öll merki að menn vita að sérstaða hinnar evrópsku söngvakeppni er senn á þrotum. Þess vegna eru menn að leita leiða við að endurnýja hana. Einn vandi er sá að stóru ríkin sem fjármagna batteríið eru ekki að græða mikið á fyrirkomulaginu. Keppnin verður seint vinsæl í Bretlandi meðan þeir eiga enga möguleika á að vinna. Stóru ríkin eru ítrekað niðurlægð. Og án þeirra verður keppnin ekki þróuð á neitt alþjóðlegt meistarastig. Meistardeildin í fótbolta er það sem hún er vegna velgengni liða frá Englandi, Þýskalandi, Frakklandi, Spáni og Ítalíu. Söngvakeppnin er orðin að einhverskonar Evrópukeppni sem þar sem þessi stóru ríki þurfa ítrekað að lúta í gras fyrir fátækum austurevrópuríkjum. Það er voða ólympískt og fallegt og allt það – en það verður ekki Albanía eða Georgía sem flytur keppnina upp á næsta stig. Það verður ekki gert án áhuga stóru ríkjanna. Sem er í sögulegu lágmarki á sama tíma og þörfin fyrir endurnýjun er mest. 

 

Mynd með færslu: Mike Knell

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni