Evrópuhroki og Ísrael
Mér er álíka illa við Ísrael eins og næsta manni. Ísrael er sjúkt tré. Þar með er þó auðvitað ekki sagt að allir limir þess séu sjúkir.
Síðasta sólarhringinn eða svo hef ég séð marga ausa skömmum í átt að Ísraelum vegna þátttöku þeirra í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva. Á sumum má skilja að tímabært sé að við Evrópubúar hættum að púkka upp á Ísraelana. Það virðist vera einhver viðtekin skoðun að Ísrael sé með í keppninni vegna þess að við vorkennum þeim svo mikið að eiga bara hatursmenn að nágrönnum. Við séum einhverskonar ímyndaður vinur eineltisfórnarlambsins Ísraels. Nú vilja sum sé margir slíta þeirri ímyndarvináttu.
Gott og vel. Sleppum öllum pælingum um það hvort Söngvakeppnin eigi að vera lokaður klúbbur fyrir vini okkar og hvaða áhrif svoleiðis viðhorf hefði á þátttöku Rússa, nú eða þátttöku okkar fyrir nokkrum árum (þegar við vorum ekki beinlínis að sprengja neina vinsældarskala á meginlandinu). Skoðum bara augnablik þessa pælingu um að við Íslendingar höfum yfirhöfuð eitthvað um það að segja hvort Ísrael sé með í keppninni eða ekki.
Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva er haldin af 72 opinberum stjórnvarpsstöðvum í 56 ríkjum. Samtökin kalla sig Union européenne de radio-télévision. Það er af ýmsum ástæðum doldið erfitt að segja til um hve mörg ríki eru í Evrópu. Eitt er þó alveg ljóst. Þau eru ekki 56. Þau eru færri. Það er enda svo að þótt langflest ríki samtakanna séu evrópskt þá er það ekki skilyrði þátttöku. Nafnið er bara gamall, klassískur evrópuhroki. Ísrael hefur til dæmis tilheyrt samtökunum næstum jafn lengi og Ísland (byrjaði 1957 í stað 1956 hjá okkur). Líbanon hefur tilheyrt samtökunum lengur en við. Þar eru líka þjóðir eins og Marokkó og Líbía svo eitthvað sé nefnt.
Fjöldi ríkja hefur svo aukaaðild að samtökunum. Í þeim hópi er t.d. Ástralía. Þar er líka Kúba, Kanada, Malasía og Íran svo eitthvað sé nefnt.
Raunar er frumskilyrði þess að vera fullgildur meðlimur það (auk þess að uppfylla ákveðin skilyrði sem stofnun) að útsendingar frá ríkinu náist á útsendingarsvæði hinna ríkjanna. Hér er auðvitað miðað við hina gömlu tækni hliðrænna útsendinga. Í því sambandi má geta þess að ögn lengra er frá miðpunkti Evrópu til Reykjavíkur en til Tel Aviv.
Allmörg ríki utan Evrópu eiga sum sé rétt á því að keppa í söngvakeppninni. Eðli máls samkvæmt eru sum þessar ríkja óvinaríki Ísraels. Í flestum tilfellum taka þau ekki þátt vegna þess að þau geta ekki hugsað sér að deila sviði með Ísrael.
Raunar má hér sjá framlag Líbanon til Söngakeppninnar 2005.
Fyrir áratug stóð nefnilega til að Líbanon nýtti sér rétt sinn til þátttöku í fyrsta skipti. Á síðustu stundu þurfti að hætta við eftir að þarlendir komust að þeirri niðurstöðu að það að keppa við Ísrael í söng fæli í sér viðurkenningu á tilvist Ísraels. Og það er bannað.
Ísrael er auðvitað meingallað ríki. Það má þó hafa í huga að hið stóra framlag Austurríkismanna til mannréttinda þegar sendur var transkeppandi í keppnina er aðeins bergmál af ísraelskum keppanda nokkrum árum fyrr. Það munaði aðeins skegginu. Það má líka hafa í huga að hinir hómófóbísku Rússar máttu sætta sig við það fyrir ekki svo löngu að keppendur þeirra væru gangandi auglýsingar fyrir samkynhneigð.
Það er nefnilega svo að á rotnu trjánum eru einstaka lífvænlegar greinar. Söngvakeppnin með öllu sínu glysi og glundri er afdrep fyrir menningarkima sem í mörgum tilfellum eiga erfitt uppdráttar í heimaríkinu.
Það að vilja úthýsa þeim vegna eigin yfirburðatilfinningar er fjandi skítt og hrokafullt.
Athugasemdir