Ertu hinsegin?
Eitt það ánægjulegasta sem ég upplifi í starfi mínu sem kennari er þegar nemendur og fyrrum nemendur koma út úr skápnum. Því miður eru það miklu oftar fyrrum nemendur. Ég held það sé ennþá mjög erfitt að koma út úr skápnum í grunnskóla. Þá grunar mig að það geti verið erfiðara fyrir stráka að stíga skrefið en stelpur. Heimur hinseginfólks held ég geti verið einmanalegur.
Ég ætla ekki einu sinni að reyna að þykjast skilja hvernig það er að vera hinsegin á unglingsaldri þegar lífið er miklu meira en nógu flókið fyrir. En ég þykist vita að þarna úti sé fullt af fólki sem veit það.
Mig langar því að gera smá tilraun.
Mig langar að safna saman nokkrum bréfum frá hinseginfólki á öllum aldri sem það skrifar til sín yngra sjálfs. Hughreistandi en heiðarleg bréf. Bréfið sem þú hefðir viljað lesa þá, ef þú hefðir haft tækifæri til.
Þessi bréf vil ég síðan að nemendur mínir lesi í samfélagsfræði – og mig langar að deila þeim með öðrum samfélagsfræðikennurum um land allt.
Bréfin geta verið undir nafni eða nafnlaus.
Ef þú, sem lest þetta, ert hinsegin og vilt leggja okkur lið – viltu þá endilega senda mér póst á ragnarkennari@gmail.com.
Ef þú, sem lest þetta, þekkir einhvern sem þú heldur að hefði áhuga, endilega gaukaðu þessu að viðkomandi.
Athugasemdir