Þessi færsla er meira en 6 ára gömul.

Um formannskjörið í KÍ

Síðustu vikur hef ég fengið margítrekaðar óskir um að bjóða mig fram til formanns Kennarasambands Íslands. Ég hef séð á því ýmsa meinbugi. Í fyrsta lagi teldi ég ekki óeðlilegt að formaður KÍ hefði reynslu af störfum innan Kennarahúss. Í öðru lagi væri að mörgu leyti eðlilegt að formaðurinn nú kæmi úr röðum leik-, tónlistar- eða framhaldsskólakennara. Í þriðja lagi væri æskilegt að hann væri kona. 

Mestu munaði þó um að sjálfur er ég í frábærri vinnu sem grunnskólakennari að vinna að mikilvægum verkefnum sem mig langar mikið að sinna næstu árin.

Áskorendur mínir létu ekki segjast og brátt var farið að skora á mig opinberlega á fleiri en einum stað. Viðbrögð mín þá voru þau að biðjast undan áskorunum, það gæti fælt aðra og betri frambjóðendur frá framboði.  

Síðan er liðinn nokkur tími. 

Síðustu daga hefur þrýstingurinn aukist til muna. Og nú er ekki hægt að víkjast undan lengur. Ég fór því í naflaskoðun og komst að eftirfarandi niðurstöðu:

Niðurstaða mín

Ég veit að reynsla í Kennarahúsinu er ekki það sama og reynsla af Kennarahúsinu. Aðeins einn frambjóðandi er fram kominn sem hefur það fyrra. Við höfum öll það síðarnefnda. Reynsla margra okkar af starfi innan Kennarahúss er hreint ekki nógu góð. Ég er því ekki viss um að reynsla starfs í húsinu sé endilega mikill kostur. Ég hef margvíslega reynslu af störfum innan raða kennara. Er menntaður grunn- og framhaldsskólakennari, hef starfað sem skólastjóri, setið í skólanefnd stórs framhaldsskóla og verið trúnaðarmaður í tveimur landsfjórðungum. Þá hef ég verið í stjórn svæðafélags (í löngu og ströngu verkfalli). Loks spannar starfsreynsla mín innan grunnskólans tvo áratugi. Ég hef líka verið ráðgjafi í skólamálum víða um land. Ég get ekki varla mig á bak við reynsluleysi.

En ég er vissulega grunnskólakennari. Það er nokkur lýðræðishalli í KÍ. Meirihlutaræði getur verið hættulegt svona samböndum. Grunnskólakennarar eru lang fjölmennastir og það skapar hættu á að þeir séu of ráðandi afl. Það hlýtur t.d. að hafa vakið athygli okkar allra hve lítinn stuðning tónlistarkennarar fengu í sinni kjarabaráttu. Raunar liggur hér brotalína gegnum KÍ og á síðustu árum hefur ítrekað komið upp spenna sem í fyllingu tímans getur vel leitt til klofnunar sambandsins. Það, úr hvaða félagi formaðurinn er, er ekki lykilatriði í því hvort KÍ lifi áfram sem heild. Það ræðst af áherslum og vinnubrögðum. Og það getur jafnvel verið of seint. Starfshætti þarf að bæta og styðja þarf betur við smærri hópa. Þetta á ekki einungis við brotalínur milli kennarahópa, það er vandi innan einstakra hópa. Auknar byrðar á grunnskólakennara síðustu ár hvíla t.d. af langmestum þunga á kennurum á sjötugsaldri. Það er hæpið meirihlutaræði sem leggur klafa á minnihlutann. Loks hefur skólastjórnendum og kennurum ítrekað verið att saman síðustu ár, stundum með alvarlegum afleiðingum. Formaður KÍ þarf fyrst og fremst að beita sér í því að félagið vinni af sama kappi fyrir fámennasta hópinn innan sambandsins og þann fjölmennasta. Geri hann það skiptir ekki máli hvað hann kennir eða hvort hann kemur úr röðum stjórnenda.

Ég held enn að kennarar hafi gott af kvenleiðtogum og að þeir eigi að velja sér fleiri konur til forystu. Það er mitt sjónarmið – og ég skil fyllilega þá sem deila því með mér og geta þess vegna ekki hugsað sér að kjósa karl. 

Þá að röksemdinni sem skiptir mig sjálfan mestu máli. Ég elska að vinna með samstarfsfólki mínu. Við vinnum gott og þarft verk í mikilli þróun og í nánu samstarfi. Ég elska vinnuna mína – og vil enga aðra vinnu. En það rann upp fyrir mér fyrir nokkrum dögum að kannski verður ekkert okkar eftir í skólanum eftir fimm ár. Og örugglega ekki ef næstu fimm ár verða eins og síðustu fimm. Það er ábyrgðarleysi að halda áfram að manna ljósavélina ef manni er það fullljóst að leki er kominn að bátnum og fleiri hendur vantar á dæluna.

Að öllu þessu sögðu:

Ég verð með.

Ég býð mig fram til formennsku í KÍ. Ég mun senda póst um það á morgun til kjörstjórnar.

Við stöndum frammi fyrir mikilli endurnýjun í forystusveitum kennara. Ég hef sjálfur hvatt marga til að gefa kost á sér til ýmissa embætta. Víða hef ég mætt fyrirstöðu. Í hvert skipti hefur mér þótt lítið til mótbára koma þegar ég ber þær saman við það gagn sem ég veit að fólkið gæti unnið okkur hinum. Í mínu tilfelli eru áskoranirnar sem ég hef fengið margfalt viðameiri en mínar eigin mótbárur. Ég væri hræsnari að láta mótbárurnarnar vega þyngra. 

Ég verð með – og mun gera mitt besta til að draga fleira fólk með mér.

Síðasta vetur stóðum við grunnskólakennarar þétt saman (og nutum gríðarlegs stuðnings skólastjórnenda og foreldra á sama tíma, þá fundum við hvernig örlítil gusa af von þyrlaðist yfir landslag sem var orðið býsna vonlítið. Þessi litla von dugði skammt – en hún gaf þó vísbendingu um að í okkur kennurum býr þróttur til að láta góða hluti gerast.

Sameinað bandalag kennara á öllum skólastigum er mun sterkara afl en grunnskólakennarar einir og sér. Þetta afl getur KÍ verið – þótt verulega hafi skort upp á það á síðustu árum.

Sá sem býður sig fram þarf að sjálfsögðu að marka stefnu. Ég vil standa fyrir eitthvað frá upphafi. Þess vegna set ég hér að endingu niður á skjá nokkur atriði sem ég myndi vilja leggja áherslu á sem formaður KÍ. Sum þessara atriða hafa brunnið á mér lengi. Önnur skemur. Ég held samt að þau séu öll mikilvæg.

Tíu áhersluatriði

1. Í kjaramálum verði loforðareikningi stjórnvalda hjá kennurum lokað vegna vanefnda. Ekkert verði gefið eftir eða selt í krafti óuppfylltra loforða. Orðum fylgi aðgerðir.

2. Unnið verði markvisst að því að safna saman þekkingu og reynslu eldri kennara, sérstaklega þeirra sem komnir eru á eftirlaun – svo yngri geti numið af.

3. Gerð verði athugun á ofbeldi gagnvart kennurum í starfi. Skoðað með hvaða hætti stutt er við kennara sem beittir eru ofbeldi og unnið að úrbótum.

4. Gerð verði rannsókn á áhrifum sölu kennsluafsláttar á heilsufar og líðan elstu kennaranna – og á áhrifum aðstæðna í leikskólum á heilsu og líðan allra sem þar starfa.

5. Veittir verði styrkir til eflingar mastersrannsókna í menntavísindum. Kennarasambandið hafi milligöngu um að koma á sterkari tengslum háskólanna og skólanna.

6. Ekki verði samið bak við tjöldin við hið opinbera ef leynt og ljóst eru á (eða undir) borðinu hótanir um beiting valds eða ofríkis gagnvart kennurum. Kennarar séu upplýstir jafnóðum um öll mikilvæg mál, þar með talin flókin mál (t.d. lífeyrismál).

7. Stjórnsýsla kennarasambandsins verði gegnsæ, vönduð og heiðarleg. Allar mikilvægar upplýsingar séu aðgengilegar félagsmönnum.

8. Kennarasambandið stuðli að virku samstarfi um skólaþróun innan lands og utan, tengi saman fólk og standi fyrir viðburðum sem eflt geta þróunarstarf í skólum. Sambandið taki þátt í að draga fram og efla leiðtoga í skólaþróun.

9. Kynning á kjarasamningum sé sanngjörn og heiðarleg, leitast sé við að greina kosti þeirra og galla á hlutlausan hátt. 

10. Kennarasambandið taki frumkvæðið í mótun menntastefnu í landinu, standi vörð um grunngildi skólastarfsins og starfi með og styðji við umbótaöfl – en veiti öfluga mótspyrnu þegar menntakerfinu er stefnt í hættu eða ógnað. Mun öflugri mótspyrnu en hingað til.

11. Leitast sé við að upplýsa almenning, hringinn í kringum landið, um menntamál og skapa samstöðu um forgangsröðun í þágu menntunar. 

12. Staðinn verði vörður um fagmennsku kennara og allt gert til að reyna að tryggja að eðlileg endurnýjun eigi sér stað meðal kennara á öllum skólastigum án þess að slegið verði af menntunarkröfum.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni