Við þurfum ekki veikari Sjálfstæðisflokk heldur betri.
Ég hef séð ýmsa fagna því að Sjálfstæðisflokkurinn sé kominn undir fimmtungsfylgi í skoðanakönnunum. Ég á erfitt með að sjá að það sé sérstakt fagnaðarefni. Þvert á móti virðist sífellt líklegra að tilfinnanlegur skortur flokksins á endurnýjun lífdaga geti orðið íslenskum stjórnmálum og íslensku samfélagi til mikils skaða.
Sjálfstæðisflokkurinn þarf að fara í uppgjör. Uppgjör við sjálfan sig – og uppgjör við tíðaranda. Því miður hefur ekkert slíkt uppgjör farið fram. Það hefur ekki einu sinni sést viðleitini í slíka átt. Bjarni Benediktsson virðist ekki vera maður til að krefja flokkinn um eitt eða neitt.
Á vakt Bjarna Benediktssonar hefur Sjálfstæðisflokkurinn haldið áfram að smækka, bæði í hugsjónum og fylgi. Bjarni er ekki umbótamaður – og þaðan af siðbótarmaður. Hann er miklu frekar útfararstjóri.
Hann gerði ekkert í málum Hönnu Birnu. Hann horfði upp á misbeitingu valds, ítrekaðar lygar og ömurlega klæki. Sá sorglegi hryggðarleikur tók ekki enda fyrr en landsfundur flokksins gerði útaf við Hönnu Birnu. Hún mætti til þess fundar full oflætis fyrst og fremst vegna þess að hún reiknaði með að hugleysi Bjarna væri lýsandi fyrir flokkinn í heild.
Sama saga endurtekur sig nú með Illuga. Ráðherrar geta ekki greitt götu aðila sem þeir eru háðir. Allir vita það. Innan flokksins er Illugi dauður. Enginn vill koma nálægt honum eða spyrða sig saman við hann. En samt spriklar hann af fullu afli og telur sig sloppinn því Bjarni þorir ekkert að segja eða gera.
Og nú kemur í ljós að ríkiseigur eru notaðar til að hygla nánum ættingjum Bjarna.
Enn þorir Bjarni ekkert að gera og ekkert að segja. Tuðar bara eitthvað út í loftið í fullkomnu afstöðuleysi eins og heimurinn sé of flókinn til að finna nokkursstaðar fótfestu. Í vikunni sveimaði hann um Alþingishúsið eins og vofa sem þorir ekki að hafa skoðun á neinu – það bráði ekki af honum fyrr en í ljós kom að verið væri að hella niður jólabjór. Þá fauk í ráðherrann og hann sá ástæðu til róttækra aðgerða.
Það er svöðusár á Sjálfstæðisflokkum.
Virði Sjálfstæðisflokksins nú eru hinar gríðarsterku tengingar sem flokkurinn hefur inn í samfélagið. Hann gæti enn risið upp sem sterkt afl. En um leið er styrkur hans mikið fótakefli. Hann þarf að þjóna valdamiklum öflum. Öflum sem krefjast þess að flokkurinn sé við stjórn – hvað sem það kostar. Hann má ekki við því að missa völdin – og hann má ekki við því að hér verði róttækar breytingar.
Þess vegna mun hin veika staða flokksins nú líklega spilla þeim kosti að fram komi Sjálfstæðismenn sem heimta betri Sjálfstæðisflokk. Flokkurinn er orðinn of veikur til að rífa sig upp á ærunni. Þessu hefur Hannes Hólmsteinn áttað sig á. Hann er orðin holdtekja þess sálsjúka fyrirbæris sem stefnir í að flokkurinn verði.
Veikur Sjálfstæðisflokkur fer líklega sömu leið og veikir Repúblikanar. Það er svo stutt til kosninga að flokkurinn þarf í alvöru að horfast í augu við það að kannski sé eina leiðin til að halda völdum sú að leggjast í ræsið og höfða til sammannlegrar heimsku.
Meirihluti þjóðarinnar heldur að miðlar geti talað við dáið fólk. Sá sem sættir sig við tuttugu prósent má leggjast ansi lágt.
Þess vegna er ástæða til að hryggjast en ekki fagna.
Athugasemdir