Ég og Trömp
Ætli flest áhugafólk um samfélagsmál hafi ekki spurt sig að því á síðustu mánuðum hvernig á því getur staðið að fígúra eins og Dónald Trömp njóti stuðnings milljóna manna í þróuðu ríki þrátt fyrir að ljúga meira en öðru hverju orði og nota afganginn aðallega í tóma vitleysu. Þetta er allt eitthvað svo framandi og skrítið – eins og að þarna búi fólk sem sé á einhvern hátt eðlisólíkt okkur sjálfum.
Auðvitað er það ekki þannig. Þetta er fólk eins og við. Við erum líka svona. Það eru aðallega aðstæðurnar sem eru örlítið öðruvísi.
Mér hefur verið hugsað til þessa upp á síðkastið þegar ég hef rekist á vefveirur sem ég hef átt afar erfitt með að skilja eða átta mig á. Ég áttaði mig til dæmis ekki á því þegar stórgáfað fólk allt í kringum mig fór að deila með mikilli velþóknun myndbandsbút sem átti að sýna rasíska bullukolla rekna á gat með rökum og tölfræði. Ég sá nefnilega engan röklegan þráð. Þarna var einhver jakkafataklæddur gaur að þrasa við alræmda vitleysinga um einhverja fáránlega tölfræði um sníkjulíf innflytjenda á danska kerfinu. Vandinn var bara að sá í jakkafötunum virtist nota alveg jafn vitlausa og ruglingslega tölfræði til þess arna. Auðvitað hélt ég frekar með honum. Ég hefði mjög gjarnan viljað að hann hefði rétt fyrir sér en hin ekki. Það var samt einhvernveginn alveg ljóst að það eina sem aðgreindi vinnubrögðin sem þarna mættust var að annar málstaðurinn var geðfelldari en hinn. Þess vegna langaði mig að taka sannleiksgildið út fyrir sviga og njóta bara sýningarinnar. Þannig ímynda ég mér að stuðningsmönnum Trömps líði stundum.
Í dag las ég svo grein eftir Kára Stefánsson sem var ein samfelld persónuárás á Sigmund Davíð. Þarna ægði saman raunverulegri gagnrýni, fullkomnu skítkasti og slúðri. Þessu deildi góðviljað fólk um allt netið eins og hér væri sjálfur Lúther að negla stóran sannleik á kirkjudyrnar í Wittenberg. Vandinn var að áður en ég byrjaði að lesa vonaði ég að Sigmundur fengi rækilega á baukinn. Ég held nefnilega með heilbrigðiskerfinu – og þótt ég hafi aldrei haldið sérstaklega með Kára – þá vill svo til að hann og ég erum í sama liði um þessar mundir. Þess vegna stóð ég mig að því að reyna að dáleiða mig með því að Kári væri að segja eitthvað snjallt, ígrundað og mikilvægt. Samt sá ég auðvitað að hann var bara að maka skít. Mig langaði bara að trúa því að Sigmundur ætti það skilið. Svona held ég að stuðningsmönnum Trömps líði stundum líka.
Ég ætla ekki að segja skilið við Sigmund alveg strax því ég hef síðustu daga reynt í ofboði að skilja eitthvert það undarlegasta og flóknasta spillingarmál sem rekið hefur á fjörur þjóðarinnar. Á einhverjum tímapunkti var ég orðinn handviss um það að Brand-systur hafi verið handteknar vegna þess að þær hafi hótað að ljóstra upp um að kona Sigmundar Davíðs væri hrægammur frá Tortóla sem aukinheldur hefði svikið undan skatti og þess vegna hefði Bjarni Ben ákveðið að redda forsætisráherrahjónunum úr snörunni með því að grafa þjófkeyptu gögnin um skattaundanskotin. Og gott er ég var ekki farinn að halda að Sigmundur og frú væru sko ekki eina fólkið nátengt æðstu stjórn landsins í þessari stöðu. Hægt og rólega fór svo að fjara undan mesta æðinu og áður en ég vissi af snerist málið um það að Sigmundur hefði átt að lýsa sig vanhæfan í málum Landsbankans vegna þess að konan hans er kröfuhafi (sem mér þykir algjörlega sjálfsögð gagnrýni) og að það væri á einhvern hátt púkó að maðurinn sem fór á íslenska kúrinn og reynir að láta sem krónan sé nothæf eigi konu sem geymir peninga í útlenskri mynt. Að öðru leyti skil ég hvorki upp né niður í málinu. Ég finn samt að mig langar nánast að vera jafn hneykslaður yfir seinni útgáfu málsins og þeirri fyrri – svona fyrst ég er farinn að láta hneyksla mig á annað borð. Svona held ég að Trömp-liðum líði líka stundum.
Stundum horfi ég nefnilega í spegilinn og sé Trömp-aðdáandann blasa við mér. Auðvitað skammast ég mín svolítið í hvert skipti og ég fæ agnarlitla þörf fyrir að rífa af honum grímuna og segja honum að hypja sig. En þá horfir hann yfirleitt á mig hörkulegur til baka og skipar mér að halda kjafti og vera ekki með þetta væl. Þetta megi og eigi. Tilgangurinn helgi meðalið – og ég þramma áfram.
Samt er eins og það sé einhver óþægileg smáarða í skónum. Ég sting örlítið við. Ég veit ég á ekki og má ekki hrífast svona gagnrýnislaust með. Það er eins og að keyra um á bremsulausum bíl – og fyrr eða seinna áttar maður sig á því að maður er á leið niður brekku.
Athugasemdir