Ég er ekki Andrés, ég er María
Ef þú ert á annað borð að lesa þetta er ekki ólíklegt að þú vitir ótrúlega margt um Andrés Lubitz. Þú veist nær örugglega að hann er talinn hafa flogið þýskri farþegaþotu viljandi á fjall. Kannski veistu líka að hann var þunglyndur og þjáðist af sjóntruflunum. Það er ekki ólíklegt að þú vitir að kærastan hans sé kennari og að hún sé talin ólétt eftir hann. Mjög líklega veistu að Andrés stundaði langhlaup sér til heilsubótar. Ef þú hefur kíkt á Wikipedia-greinina um hann má vera að þú munir að móðir hans var píanókennari og að hann vann einu sinni á Burger King.
Og hvers vegna skyldir þú ekki vita þetta allt saman? Við erum öll hugfangin af voðaverkum; því hrikalegri, því betri. Fjölmiðlar sjá um að næra okkur á upplýsingum næstum jafn hratt og við getum torgað þeim. Líklega hefur enginn Evrópubúi vakið jafn mikla athygli á jafn skömmum tíma síðan nafni hans, Breivik, drap allt unga fólkið í Útey.
En skyldir þú muna eftir bræðrunum? Litlu guttunum sem tíu og tólf ára gamlir komu heim til sín í blokkina og fundu mömmu sína dána í stofunni? Hún hafði framið sjálfsmorð, ólétt af sjötta barninu. Skyldir þú vita að annar þeirra var sjálfsöruggur íþróttamaður og dansari sem átti greiða leið að hjörtum stúlkna á meðan hinn var óframfærinn og ljúfur? Ætli þú vitir hvernig þeim farnaðist þegar þeir voru fluttir á munaðarleysingjahæli ásamt hluta af systkinahópnum?
Nei, líklega ekki. Það er ekki einu sinni víst að þú munir hvað þeir hétu. Þeir hétu Chérif og Saíd.
Það sem þú manst hinsvegar er nafnið Charlie Hebdo. Þú ert líklega þegar búin að átta þig á því að Chérif og Saíd eru bræðurnir sem ruddust þangað inn og drápu skopteiknarana. Kannski ert þú í hópi þeirra sem brugðust við því voðaverki með því að segjast vera Charlie Hebdo. Allavega er líklegt að morðin hafi vakið athygli þína á skopblaðinu til muna.
Hvernig skyldi standa á því að sum voðaverk fá okkur til að sökkva okkur af áhuga niður í ódæðismennina en önnur fá okkur til að gaumgæfa fórnarlömbin?
Chérif og Saíd liggja nú í ómerktum gröfum. Þeir fengu ekki að liggja hlið við hlið. Ekki frekar en að öll systkinin hafi fengið að halda hópinn eftir að mamma þeirra dó. Og hvorugur þeirra á sína eigin Wikipedia-síðu. Það nægir að feitletra nöfn þeirra í greininni um árásina á Charlie Hebdo. Tæjurnar af Andrési Lubitz eru varla byrjaðar að rotna í fjallshlíðinni og samt er hægt að lesa um hann á Wikipediu að mamma hans kenndi á píanó og að sjálfur steikti hann hamborgara þegar hann var yngri.
Sjálfur taldi ég gríðarlega mikilvægt á sínum tíma að taka afstöðu með málfrelsinu og Charlie Hebdo. Ég taldi ótækt að móðgunargirni afmarkaðra menningarkima skilgreindi hvað fólki væri heimilt að segja. Ég skildi alveg, og skil enn, þá sem halda því fram að stundum sé áróður gegn múslimum daprasta tegund af málfrelsi – oft hreinn og tær búllíismi. En ég er samt á því að mörkin á milli þess að koma fram við aðra eins og fáviti og þess að drepa þá eigi að vera skýr. Þú mátt vera fáviti – þú mátt ekki drepa.
En jafn óður og uppvægur og ég var að taka afstöðu með teiknurunum í París þá upplifi ég nú undarlegt hjarðónæmi fyrir þjáningum fórnarlamba Andrésar Lubitz. Það er einna helst að einhver samúð eigi sér stað þegar þunglyndum finnst að sér vegið þegar hann er flokkaður í hóp með þeim. Ég hef enn ekki séð neinn halda því fram að hann sé María Radner, söngkonan sem drepin var með manni sínum og ungu barni. Ég hef raunar ekki orðið var við tilfinnanlegan áhuga á því hvaða fólk þetta var sem dó þarna á fjallinu.
Ég held okkur sem samfélagi sé gott að hugsa aðeins um það hvers vegna sum ódæði beina sjónum okkar að ódæðismönnunum en önnur að fórnarlömbunum. Það skyldi þó ekki vera að ódæðismaðurinn fái alla okkar athygli ef hann er „okkar“ megin í tilverunni. En fórnarlömbin fái athyglina ef ódæðismaðurinn er einn af „hinum“?
Og hvað segir það þá um okkur ef við teljum að snarruglaður, þýskur skemmtiskokkari sem dreymir um að komast yfir risaþotu til þess eins að steypa henni niður í Ölpunum passar betur við sjálfsmynd okkar en litlir drengir sem missa fótanna í tilverunni eftir að þeir koma að mömmu sinni dáinni?
Árásin á Charlie Hebdo var árás á málfrelsið. Árásin á farþega þotunnar var árás á allt hið mannlega. Árás á fegurðina. Ég vil því að það komi fram að ég er ekki Andrés, ég er María:
Athugasemdir