Þessi færsla er meira en 9 ára gömul.

Ef Bjarni Ben er nógu hugrakkur...

Ef Bjarni Ben er nógu hugrakkur...

Bjarni Ben á tromp uppi í erminni sem hann getur spilað út sé hann nógu djarfur. Í raun og veru getur hann gengið á fund Sigmundar Davíðs á morgun og krafið hann um uppstokkun í ríkisstjórn þar sem Bjarni fær forsætisráðuneytið. Hvað getur Sigmundur annað gert en að verða við því?

Framsókn þarf lífsnauðsynlega á því að halda að klára kjörtímabilið. Það mun taka allan þann tíma að útbúa einhverskonar söluvöru fyrir kjósendur. Kosningar löngu fyrir tímann þýða að flokkurinn er búinn að vera – a.m.k. í bili.

Hinir flokkarnir hafa verið duglegir að smjaðra fyrir Bjarna. Hann hefur ekki fengið nærri því jafn slæma útreið og Sigmundur. Bjarni getur notað trúverðugleika sinn sem ástæðu þess að Sigmundur verði að stíga til hliðar.

Þá er fylgi Sjálfstæðisflokks mest í þeim aldurshópum sem helst skila sér á kjörstað.

Mikið fylgi Pírata í skoðanakönnunum mun líklega seint skila sér í kjörkassann. Kosningar fyrir tímann myndu að auki þýða að þeir ættu erfitt með að manna framboðslista af viti.

Samfylkingin er stórkostlega bækluð og Vg er með vinsælli formann en flokk. Björt framtíð er dauð.

Bjarni hefur engu að tapa.

Hann getur einfaldlega sagt Sigmundi að flokkurinn hyggist taka rammamálið aftur inn í þingið eftir nokkra daga. Þegar stjórnarandstaðan hafi enn á ný tekið þingið í gíslingu muni hann spila fléttu sem er einhvernveginn svona: Hann mun halda því fram að stjórnarandstaðan sé ábyrgðarlaus í þingstörfunum og með þingið í gíslingu. Traust almennings á stórum meirihluta alþingismanna sé lítið sem ekkert (hvort sem um stjórnarliða eða -andstæðinga sé að ræða) og það blasi við að besti kosturinn sé að endurnýja umboð þingmanna. 

Það er enginn möguleiki að Björt framtíð, Samfylking og Vg muni sameinast um að verja Sigmund Davíð við slíkar aðstæður eða hafa kosningar af þjóðinni. 

Sá flokkur sem nyti slíkra kosninga mest væri líklega Sjálfstæðisflokkurinn. Nýir kostir yrðu hraðsoðnir og fáir. Það er ekki tími til endurnýjunar hjá Samfó og Bf og þótt Vg kæmi kannski sæmilega út þá er langlíklegast að Sjálfstæðisflokkur væri augljós kostur þar sem aðrir möguleikar þýddu fjölflokkastjórnir þar sem stór hluti persóna og leikenda væri stórskaddað fólk.

Stóra málið hjá Sjálfstæðisflokknum væri auðvitað stjórnarskrármálið og krafan um að þingið bætti vinnubrögð sín (ég veit!). Þjóðareign á auðlindum er um leið ákveðin trygging fyrir útgerðina gegn Evrópu svo Bjarna þykir tilhugsunin alls ekki svo slæm. Og ef eitthvað getur tryggt Bjarna díl við Pírata færi svo að kosningar drægju dám af skoðanakönnunum þá er það einmitt stjórnarskrármálið.

Eina hættan væri sú að Sjálfstæðisflokkur yrði minni en Píratar. Það gæti þýtt að Bjarni fengi ekki aðal stólinn – en hann hefur hann hvorteðer ekki núna.

Ég held svei mér þá einhver svona flétta gæti gengið upp. Einhver hluti kjósenda sem flúinn er frá Sjálfstæðisflokknum myndi hreinlega snúa heim aftur, feginn þeirri „ábyrgu“ ákvörðun Bjarna að krefjast þess að flokkar endurnýjuðu umboð sitt og hættu að halda þinginu í gíslingu og réttlæta það með potta- og pönnuslætti úti á Velli.

Mótmælum væri sjálfhætt.

Það sem meira er, staða Bjarna innan flokksins yrði ægisterk. Hanna Birna er stórsködduð og vill gjarnan fá að sitja í friði á þingi út kjörtímabilið meðan hún leitar að fléttu. Enginn ógnar Bjarna við þessar aðstæður.

Í öllu falli held ég Sigmundur Davíð sjái í hendi sér að ef Bjarni biður um stólinn hefur Sigmundur ekki annan kost en að láta hann af hendi.

Spurningin er bara sú hvort Bjarni hefur kjark.

 

Mynd með færslu: Machiavelli

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni