Drepsóttarþjóðin
Drepsóttir, líkamlegar og andlegar, eru einhvernveginn sífellt vofandi yfir okkur þrátt fyrir djúpa legu þjóðarinnar í hægindum nútímans. Þær líkamnast í allra handa uppvakningum í afþreyingarefni og eru átakaflötur milli okkar og hinna sem telja að þeir sem drekki njóla þurfi ekki bólusetningar.
Hvergi finnst meiri drepsóttarþjóð en Íslendingar. Saga okkar er saga drepsótta. Andlegar og veraldlegar sóttkveikjur hafa dregið sigð sína gegnum áa okkar frá upphafi byggðar í landinu með svo ógnvænlega reglulegu millibili að mannfjöldinn hér hefur aldrei komist nema upp á hnén.
Andlegu drepsóttirnar eru grátlegri en þær líkamlegu.
Ef Íslendingar hefðu verið ögn fordómalausari hefði þeim líklega tekist að komast yfir djúpstæða andúð sína á öðrum atvinnuháttum en landbúnaði. Þeir hefðu jafnvel sleppt því að hneppa stóra hluta þjóðarinnar í ánauð til þjónustu við höfðingja sem reyndu að halda hér úti atvinnuháttum sem í raun tilheyrðu öðrum tíma og annarri breiddargráðu. Fólk hefði ofsóknalaust fengið að byggja upp þéttbýli og sækja sjó. Þannig hefði mátt bjarga mörgum mannslífum sem sópað var í snemmtekna gröf hallæra og hungurs.
Í dag erum við innan við 350 þúsund. Við værum 1,1 milljón án drepsótta- og hamfarasögu okkar. 750 þúsund núlifandi Íslendingar urðu aldrei til. Þeir mynda samt skarð í þjóðina. Vegna þeirra erum við dvergþjóð.
Þessu tengt: Um helgina kom í ljós hvers vegna Útlendingastofnun „gleymdi“ að skrá börn hælisleitenda í skóla. Þeir báru við að það væri svo mikið að gera. Sannleikurinn var sá að það stóð alltaf til að reka fólkið úr landi við fyrsta tækifæri. Þess vegna „gleymdust“ mannréttindi barnanna. Stofnunin vildi ekki að þau eignuðust vini og kunningja. Þá yrði pínulítið erfiðara og ómanneskjulegra að henda fólkinu á dyr.
Þjóðin er nefnilega enn á valdi drepsótta. Sú sem mest ber á um þessar mundir er andleg. Hinar 350 þúsund hræður sem hér hírast eru undir álögum þeirrar ranghugmyndar að hér sé hreinlega ekki pláss fyrir fleiri.
Almennt siðferði hefur að vísu neytt flest okkar til að horfast í augu við það að ástæða sé til að bjarga örfáum einstaklingum (helst hvítum og kristnum) frá bráðum bana. En þegar kemur að því að opna landið fyrir fleirum. Hleypa hingað fjölskyldum sem vilja tryggja börnum sínum heilbrigði, menntun og möguleika – blossar upp drepsóttin.
Menn hugsa: Það er of mikil breyting. Það getur ekki endað vel. Höldum okkur við það sem við þekkjum.
Þannig heldur þjóðin áfram að drepa lífvænlegustu vaxtarbrodda sína. Og þannig verðum við að minnsta kosti enn um sinn dvergþjóð – alveg án tillits til mannfjölda.
Athugasemdir