Byltingunni verður ekki sjónvarpað
Ég man enn hve ótrúleg upplifun það var í Flóastríðinu á sínum tíma að geta fylgst með loftárásum á Írak í beinni sjónvarpsútsendingu. Maður upplifði það sem eitthvað byltingarkennt. Í gær sannaðist endanlega fyrir okkur að heimurinn hefur smám saman gjörbreyst og með honum allt eðli frétta af líðandi stundu.
Valdaránstilraunin í Tyrklandi var komin á netið í rauntíma. Með því að nota þjónustu Facebook/live er hægt að setja sig í samband við farsíma fólks um allan heim og horfa á beinar útsendingar. Í nótt mátti fylgjast með fjöldamótmælunum í Istanbúl, Ankara og víðar. Fyrir enskumælandi veitti blaðamaðurinn Oz Katerji sem staddur var á Taksim-torgi í Istanbúl galopinn glugga inn í ástandið meðan það var að þróast.
Twitter miðlaði að venju gríðarlegu magni upplýsinga og skoðana til notenda. Það gerðu Facebook notendur líka. Reddit opnaði beina útsendingu frá því sem helst var á baugi og virtust upplýsingarnar almennt nokkuð áreiðanlegar.
Um það bil sem tilkynnt var að flugvélar yfir Istanbúl yrðu skotnar niður var hægt að fylgjast með því á Flightradar24 þegar THY8456, þota í eigu tyrknesku ríkisstjórnarinnar brunaði í aðflug að Istanbúl eftir að hafa hringsólað sunnan við Marmarahafið góða stund á ferð sinni frá Marmaris. Áætlað var að um borð væri Erdogan og þótti mörgum þetta til marks um að stjórnvöld væru að ná aftur stjórn á ástandinu. Sem og reyndist raunin.
Og allt þetta gerðist þrátt fyrir að valdaránsmenn hefðu gert heiðarlega tilraun til að hylja landið í stafrænu myrkri. Reynt var að kaffæra samfélagsmiðla og loka á fjölmargar síður (sumar með sama hætti og reynt er að stöðva notkun deilisíða á Íslandi). Netverjar brugðust við með því að benda á og finna krókaleiðir fram hjá öllum ritskoðunartilburðum. TunnelBear opnaði fyrir Tyrkjum leiðir til að vafra fram hjá netum ritskoðaranna og gagnagrunnar buðu upp á leiðir til að vista myndefni á netinu ef á þyrfti að halda.
Fyrir þá sem hafa samanburðinn þá er ljóst að átt hefur sér stað bylting. Upplýsingabylting.
Í frægu ljóði „Byltingunni verður ekki sjónvarpað“ sem á uppruna sinn í baráttu Svörtu pardusana í BNA má finna eftirfarandi hendingu:
Byltingin snýr ekki aftur
eftir stutt auglýsingahlé [...]
Byltingin er ekki betri með kók.
Byltingin berst ekki gegn sýklum sem valda andremmu.
Byltingin setur þig í bílstjórasætið.
Athugasemdir