Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Brauðfætur Bjarna

Bjarni Ben kom í kvöld fram sem leiðtogi ríkisstjórnarinnar og fullyrti að hann hefði allan þann stuðning sem hann þyrfti. Miklu meira en nóg væri að gert með því að sparka Simma út í hafsauga og lofa kosningum um leið og öllum málum hefði verið hleypt í gegnum þingið. 

Bjarni hefur aldrei verið sérstaklega næmur á stöðu sína og fór beinlínis að skæla þegar Hanna Birna var svo gott sem búin að taka hann af lífi fyrir síðustu kosningar. Þess vegna er hér smá stöðutaka fyrir Bjarna sem ég vona að einhver velviljaður Sjálfstæðismaður komi til hans.

Möguleikar hans á að fá stjórnarandstöðuna með sér dóu í kvöld þegar hann drullaði yfir hana eins og andi Gunnlaugs Sigmundssonar hefði tekið sér bólfestu í honum.

Að því sögðu getur aðeins þrennt gerst héðan í frá.

#1 Það verða áfram mótmæli. Þau fara ekki neitt. Þau munu magnast eftir því sem dauðastríð hans pólitíska lífs stendur lengur. Þessi mótmæli verða drifkrafturinn í linnulausu málþófi stjórnarandstöðunnar. Engin mál komast í gegn. Ekki eitt af þessum málum sem Bjarni lætur sem séu eina ástæða þess að hann verði að halda áfram.

#2 Bjarni beitir valdi til að stöðva málþóf til að troða málum í gegn. Mótmæli fara úr böndunum. Reiðin blossar upp. En það sem meira er um vert: um leið og Sjálfstæðisflokkurinn kemst í minnihluta aftur verður auðlindamálunum og fleiri málum troðið í gegn með nákvæmlega sama hætti. Það verður Bjarna að kenna að auðlindin verður hrifsuð úr lúkum vildarvina Sjálfstæðisflokks. Bjarni verður verst þokkaði og illræmdasti forystumaður Sjálfstæðisflokks í sögunni.

#3 Bjarni og Ólöf segja af sér. 

Aðrir kostir eru ekki í stöðunni. Bless, Bjarni.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni