Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Atburðir dagsins

Innan við sólarhring eftir að forsætisráðherra var sakaður opinberlega um að vera með jesúsarkomplexa var búið að semja á bak við tjöldin þann endi á ævintýrið að hann skyldi fórna sér fyrir syndir allra hinna. 

Viðbúið var að Bjarni Ben gæti ekki staðist það að reyna að halda sjálfur í völdin, þrátt fyrir að vera augljóslega líka kámugur upp fyrir haus af þeirri spillingarsósu sem leitt hefur til þess að Ísland er nú þekkt að endemum um heim allan fyrir vanþróað stjórnarfar, græðgi og andverðleika. Bjarni virðist ekki kunna að taka erfiðar ákvarðanir. Allur hans stjórnarferill einkennist af fumi, fáti og siðferðilegu kjarkleysi.

Atburðir dagsins eru auðvitað hrein ögrun. Engin siðbót hefur átt sér stað. Það á í alvöru að reyna að selja Íslendingum þá „lausn“ að leppur verði settur í forsætisráðuneytið í veikburða viðleitni til að plata erlenda fjölmiðla. 

Eini maðurinn með óstíflað pólitískt nef í dag er forsetinn. Vandinn er að það er nef hrægammsins. Ég studdi Ólaf Ragnar í kosningunum með þeim rökum að hann væri þrátt fyrir allt líklegur til að reynast sitjandi stjórnvöldum erfiður ef þau gerðu sig líkleg til að misfara með völd. Á vissan hátt hefur það ræst. Ég held samt að atburðarásin á Bessastöðum hafi þjónað öðru hlutverki í dag en að gæta festu í stjórnskipun landsins.

Sigmundur Davíð gekk í dag í aðra gildruna á stuttum tíma. Í þetta sinn lifði hann gildruna ekki af – a.m.k. ekki í bili. Blaðamannafundur forsetans í dag hafði það hlutverk að niðurlægja Sigmund. Forsetinn var með þessum fordæmalausa hætti að reyna að fjarlægja sig frá pólitískri arfleifð Sigmundar. Með því að hæðast að honum og saka hann um vanhæfni og bráðlæti var forsetinn að senda fjölmiðlum, sérstaklega þeim erlendu, þau skilaboð að hann sæi, eins og allir aðrir, að Sigmundur væri lélegur pappír. 

Enda þurfti forsetinn á því að halda til að halda gljáfægðri ímynd sinni á lofti. Hann þurfti að svíkja þennan óskason sinn, sem var óþægilega mikið tengdur hans eigin pólitísku hneigðum í seinni tíð.

Það gekk enda fullkomlega eftir. Óvinir Sigmundar fagna því að sjá hann niðurlægðan. Sjálfstæðismenn fagna því að eiga séns á að halda völdum. Framsóknarmenn fagna því aðallega að leiktíminn sé stöðvaður nokkur sekúndubrot í tortímingu – og mæra sjálfa sig fyrir fórn foringjans.

Forsetinn er hetja dagsins. Jafnvel þótt það sjáist gegnum götin á leiktjöldunum að hann þurfti kannski ögn að hagræða sannleikanum til að fá fram þau leikslok sem hann kaus.

Eftir situr siðferðilega og efnahagslega sjúkt þjóðfélag. Þjóðverjar eru í áfalli yfir því að þúsund manns séu á leknu skattaskjólslistunum. Indverjum þykir nóg um að eiga þar 500 manns. Dvergþjóðin í norðri á 600 manns á listunum – þar á meðal Bjarna Ben (það virðist vera fréttnæmara ef nafn hans finnst ekki í hneykslunarverðum lekagögnum en ef það er þar). 

Við erum sjúkt samfélag. Sigmundur og Bjarni eru sjúkdómseinkenni. Atburðarásin í dag er sjúkdómseinkenni. Fjöldamótmælin í gær og í dag eru það hinsvegar ekki. Þau fela í sér langsótta von um lækningu.

En eigi að vera von þurfa mótmælin að halda áfram.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni