Alþingi í upplausn – hugleiðingar eftir lestur pistils
Ásgeir Berg skrifar skínandi pistil á Kjarnann um ástæðu þess að allt er í upplausn á Alþingi. Ein af niðurstöðum pistilsins er sú að vandi þingsins verði ekki leystur með því einu að kjósa inn annað (betra) fólk en situr þar nú. Vandinn sé kerfislægur. Þingmenn hafi hagsmuni af stöðugum skærum og þeim sé refsað sem rétti fram sáttarhönd.
Í lok greinarinnar bendir Ásgeir á að líklega sé besta leiðin til að bæta kerfið sú að minnka vald meirihlutans á þingi. Hann stingur upp á tveim leiðum sem báðar fela í sér aðkomu þjóðarinnar. Annaðhvort beint eða með málskotsrétti innan þingsins.
Nú er það svo að góðar greinar vekja til umhugsunar. Mér finnst grein Ásgeirs svo góð að mig langar að leggja nokkrar pælingar til umhugsunarinnar. Ásgeir gefur í skyn að hann sé því ekki algjörlega mótfallinn að skrifa meira um málið. Ég myndi fagna því mjög.
Mikilvægi málþófs
Fyrst held ég við hefðum gott að því að hugleiða aðeins málþóf. Í sögulegu samhengi er málþóf ekki endilega merki þess að þingið hafi brugðist í skyldum sínum. Málþóf hefur líka gegnt því hlutverki að leyfa andstæðingum stórra mála að skjalsetja andóf sitt og þvo hendur sínar af afgreiðslum í þinginu sem stangast á við grundvallarsannfæringu þeirra. Einu sinni var málþóf íþrótt. Menn stóðu tímunum saman í pontu og töluðu sig hása vitandi það að tapið var yfirvofandi. Málþóf virkar dálítið eins og auka takki í kjörborðinu: Já, situr hjá, nei og nei – andskotinn hafi það!
Sú breyting, sem varð á þingsköpum með því að breyta málþófinu í endalausar innihaldsrýrar umræður þar sem þingmenn standa í halarófu og biðla til forseta að sjá í guðanna bænum að sér og draga það til baka sem andófið beinist gegn, er líklega vond. Það er engin íþrótt að vinna vaktir við að tuða í mínútu eða tvær og hækka svo róminn meðan forsetinn hamast á bjöllunni. Á yfirborðinu virkar það líka skaðlegra fyrir ásýnd Alþingis en hið hefðbundna málþóf. Svo við notum leikjafræðina sem viðmið: Þegar málþóf er á annaðborð hafið er komin upp staða sem ekki er ósvipuð því þegar fésbókarvinur minn setti inn færslu um að sá sem kommentaði síðast fengi pening. Það mun enginn hljóta tilkall til slíkra verðlauna án þess að annar reyni að hrifsa þau af honum á síðustu stundu.
Fjórar útgönguleiðir
Þegar málþóf er hafið á annað borð eru aðeins fjórar mögulegar útgönguleiðir. Í fyrsta lagi geta þeir sem að málþófinu standa gefist upp. Það dregur auðvitað úr ótta við málþóf sömu aðila í framtíðinni og styrkir andstæðingana. Í öðru lagi getur meirhlutinn látið undan kröfum málþófsmanna. Það snareykur auðvitað hættuna á framtíðarmálþófi. Þá getur stjórnin beitt heimild til að stöðva málþóf með valdi. Hvað gerist þá er nokkuð óljóst. Ýmsir óttast þann möguleika enda væru þá samskipti innan þings svo gott sem orðin alslæm. Fjórði möguleikinn er að skapa forsendur til að allir geti sigrað. Líklega var það eitthvað í þá átt sem Bjarni Ben var að reyna þegar hann vakti máls á því að allir flokkar ættu að starfa saman að stjórnarskrármálum. Ef hægt er að sameinast um einhver stórmál á þessum tímapunkti er hægt að setja erfiðustu ágreiningsefnin til hliðar án þess að einhver þurfi að játa sig sigraðan.
Málþóf veitir skjól
Vandinn við málþófið núna er sérlega mikill vegna þess að meirhlutinn hefur ekki endilega aðkallandi þörf fyrir að ljúka því. Raunar er staðan sú að líklega kemur það meirihlutanum betur en minnihlutanum. Það er tiltölulega lítill hópur kjósenda sem brennur af réttlætiskennd fyrir því sem málþófið snýst um. Raunar held ég meirihluti þjóðarinnar sé barasta alls ekki með það alveg á hreinu hvert ágreiningsefnið er.
Málþófsmenn eru raunar í smá vanda.
Á meðan þeir koma ítrekað í pontu til að skammast yfir því hvað megi eða megi ekki í breytingartillögum eða nákvæmlega hverskonar umfjöllun þurfi í nefndum til að færa megi virkjanakosti um flokk er málefnið sem þeir vilja vera að ræða inni á þingi kjaramál og upplausnin í samfélaginu. Með málþófinu (sem í raun var framkallað með ögrun Jóns Gunnarssonar) hefur meirihlutinn búið sér til skjól gegn endalausum umræðum og jafnvel málþófi um lágmarkslaun og verkföll.
Meirihlutinn saknar þess líklega ekkert að koma hjólum þingstarfanna í fullan gang í þessari stöðu. Þá er miklu betra að hinkra og sjá hvernig glundroðinn á vinnumarkaði leysist og skella svo í þingstörf í sumar.
Þannig held ég það sé ákveðin óeinlægni fólgin í því þegar þingmenn látast sem þeir séu í stöðu sem þeir vildu svo sannarlega leysa.
Píratar þurfa að passa sig
Hinsvegar er hagur meirihlutans af málþófi tilkominn af tilfallandi aðstæðum. Til lengri tíma er málþóf auðvitað skaðlegt. Í því er auðvitað að vissu leyti fólgin vörn. Málþóf er ekki minnihluta að skaðlausu. Nú hefur því verið beitt í núverandi mynd til að ónýta störf tveggja ríkisstjórna. Allir flokkar hafa á sama tíma glatað verulegu trausti. Þetta mættu Píratar hugsa um, nú þegar þeir lýsa málþóf sem verkfæri í sinni eigu.
Málþófið er tvíeggjað og virðist skaða alla sem að því koma.
Kannski er full snemmt að dæma Alþingi ónýtt. Kannski þarf bara að gefa málum lengri tíma. Flokkar munu draga úr málþófi ef það skaðar alla. Þá má færa fyrir því sannfærandi rök að hluti af ástæðu þess hve málþófið hefur verið áberandi upp á síðkastið sé sú staðreynd að nú hafa tvær ríkisstjórnir í röð beitt valdi sínu ótæpilega.
Samskipti varða leiðina út
Í fangaklemmunni ræðst allt af samskiptum. Þeir sem ætla sér í málþóf verða að vera í takti við vilja almennings ætli þeir sér að viðhalda trausti. Þeir sem ætla sér að sigrast á málþófi verða sömuleiðis að hafa þjóðina með sér í liði. Kannski er þó mest um vert að þeir sem beita málþófinu og þeir sem fyrir því verða eigi í uppbyggilegri samskiptum sín á milli.
Kannski hitti Bjarni Ben naglann á hausinn með útspili sínu. Sjávarútvegsmálin, Evrópumálin, málskotsrétturinn, náttúru- og auðlindamálin – þessi mál eru undirliggjandi í þeirri eitrun sem einkennt hefur störf þingsins síðustu misserin. Síðuppgjöri við hrunið er ekki lokið. Á sama tíma virðist sandurinn vera að hverfa úr tímaglasi allra stóru flokkanna á Alþingi. Að einhverju leyti má segja að þar með sannist að kerfið sé að virka. Flokkar sem ekki geta látið þingið virka munu glata trausti.
Líklega er það allra hagur að sest sé niður og öllum málunum stóru sé fundinn farvegur innan stjórnarskrármálsins.
Svo virðist sem allir ættu að geta haft hagsmuni af því. Og í því tilliti ætti að horfa til Stjórnlagaráðs. Þar tókst nefnilega fólki með stæka mismunandi hagsmuni að skila af sér einni niðurstöðu.
Það afrek er stórlega vanmetið.
Athugasemdir