Heimsins besta hugmyndafræði gegn heimsins versta óvini
Nýlega yfirgaf enn einn fésbókarvinur minn Fjölmiðlanördahópinn með þeim orðum að umræðan þar væri óþolandi. Sem hún vissulega er. Sjálfum finnst mér hópurinn áhugaverð birtingarmynd af því hvernig lýðræðið virkar – eða virkar alls ekki.
Flestar umræðurnar hlaupa í kekki og jafnvel heiftúðug átök. Stjórnendur reyna að koma böndum á bullið, fyrst með því að afmarka umræðuefnin en einnig með því að eyða innleggjum eða henda út fólki. Eftir slíkar hreinsanir stæra menn sig gjarnan af því að þeir séu ekki bundnir af lýðræðislegum leikreglum.
Hugmyndin um að lýðræðið veiki samfélög er víða.
Í dag eigum við okkur flest viðamikið stafrænt líf sem hjá miklum fjölda hnitast að verulegu leyti um fésbókina. Þar rekjum við okkur áfram um atburði líðandi stundar út frá færslum vina og kunningja.
Áhugavert myndband eftir dr. Derek Muller fjallar um það hve veruleiki fésbókarinnar er vafasamur. Gjaldmiðilar fésbókarheimsins eru last og læk. Heilu lækþrælabúðirnar eru reknar í fátækum löndum þar sem fólk hamast allan daginn og fær greiddan einn dollara fyrir þúsund læk. Til þess arna er notaður heill herskari gervimenna.* Þeir sem eiga peninga og vilja koma sér á framfæri borga þrælahöldurunum margfalda upphæð fyrir lækin.
Eins má kaupa lögleg læk gegnum fésbókina sjálfa. Það er þó enn dýrara og svifaseinna en að notast við þræla.
Við, venjulegir fésbókarnotendur, erum líka lækþrælar á okkar eigin hátt. Vefurinn er hannaður þannig að þeir sem við lækum ekki reglulega (eða rífumst við) hverfa bókstaflega! Lækleysi er áhugaleysi og áhugaleysi framkallar ósýnileika.
Smátt og smátt stöndum við uppi með sýndarheim þar sem allt er horfið nema helstu jábræður okkar og -systur. Fésbókin verður fyrr eða seinna bergmálsklefi okkar eigin hugsana – og þá sjaldan sem maður bregður sér burt frá bergmálinu er það til að ganga grár fyrir járnum út á einhvern rafstraumshólmann til að höggva þar mann og annan.
Fésbókin er hliðstæða þess veruleika sem hér tíðkaðist þegar menn elskuðust við Þjóðviljann og hötuðust við Moggann – eða öfugt. Hið óheilbrigðasta, öfgafyllsta og mest forheimskandi tímabil íslenskrar nútímasögu er gengið aftur í stafrænum heimi.
Umhugsunarvert er að skoða hinn nýja stafræna veruleika í samhengi við dystópíuna 1984 eftir Orwell.
Eitt þemað í bókinni er að ríkin sem berjast þar um heimsyfirráð geta aldrei yfirbugað hvert annað algjörlega. Þau eru föst í eilífu stríði þar sem samherjar dagsins í dag eru mótherjar morgundagsins. Átakaþörfin tryggir eilíft stríð, ekki vonin um sigur.
Annað þema er að fólki er stjórnað með því að stýra því hvað það sér og heyrir. Upplýsingum er hagrætt og orðum breytt til að aðrar skoðanir séu ekki á kreiki en hinn þungi, tilfallandi straumur tíðarandans.
Hinn dýpri lærdómur af 1984 er sá að sigur í stríðinu við vonsku mannanna fæst ekki með því að sigra óvininn. Það þarf að sigra sjálfan sig; frelsa sjálfan sig og sína.
Við hvert högg sem þú lætur dynja á herbúðum óvinsins forherðist sá sem inni situr og skilningarvit þín slævast.
Íslensk pólitík batnar ekki fyrr en liðsmenn íslenskra stjórnmálaafla komast að þeirri niðurstöðu að þeir sjálfir þurfi að verða betri en þeir eru. Flokkur batnar seint við það að liðsmenn hans sefi sig á því að eiga heimsins bestu hugmyndafræði og heimsins verstu óvini.
Stríðin í 1984 eru eins og íslensk stjórnmál. Eilíf átök í því sem að endingu er óvinnandi stríð. Vinur í dag er vondur á morgun. Baráttan er eilíf. Átökin gera okkur öll verri á endanum.
Okkar átök eiga sér að auki stað í stafrænum gerviheimi. Heimi þar sem víxlverkun er þess valdandi að samstæðar skoðanir hefjast upp í ofsalegum bríma en andstæðar skoðanir þurrka hverjar aðrar út.
Ekkert okkar hefur svo fullkomnar skoðanir að þær geti ekki batnað. Skoðun verður aldrei betri við það eitt að bergmála. Hún verður aðeins betri fái hún að rekast á aðrar skoðanir svo að molni úr.
Ósýnilegar skoðanir rekast sjaldan á.
Ef lítill umræðuhópur um íslenska fjölmiðla er dauðadæmdur ef ekki er gripið reglulega til gerræðis má rétt ímynda sér hversu illa þjóðin er stödd þegar kemur að hinum stærri málum.
Fésbókarvinurinn sem yfirgaf fjölmiðlanördana er að hugsa um að flytja til Noregs.
* Talið er að rúmlega 11% notenda á fésbókinni séu ekki til í alvöru. Ef svo er eru það tæplega 146 milljónir manna.
Mynd með færslu: Laszlo Ilyes
Athugasemdir