Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Að setja mark sitt á heiminn: Óttinn við tæknina

Í dag var haldin ráðstefna á Íslandi um skaðsemi nettengdra tækja fyrir börn. Í umræðum um ráðstefnuna birtast ýmis viðhorf, sum mjög róttæk. Ég sá t.d. eina konu halda því fram að það væru einhverskonar mannréttindi að öll opinber svæði og sérstaklega skólar ættu að vera rafsegulbylgjufrí svæði – enda þyldu ekki allir slíkar bylgjur (til dæmis ekki hún).

Aðrir halda því fram að tækni valdi bæði félagslegri einangrun og almennum þroskaskerðingum hjá börnum. Þeir vilja sumir setja ströng viðmið um skjátíma til að ýta við foreldrum.

 Þessa umræðu þarf að hafa opna og áberandi. Þá skiptir miklu máli að stemma af tvö viðhorf sem sjálfkrafa koma fram. Það eru annarsvegar róttækar íhalds- og hinsvegar framsóknaröfgarnar. 

Það er tildæmis fráleitt að þráðlaus net séu veruleg ógn við heilsu. Vissulega hljóma orðin rafsegulbylgjur og rafsegulgeislar (sama fyrirbærið) afar ógnvekjandi. Það hljómar líka skuggalega þegar því er haldið fram að það séu hugsanleg tengsl milli slíkra fyrirbæra og krabbameins. Ákveðnar grundvallarupplýsingar ættu þó að sefa þann ótta að mestu.

Rafsegulbylgjur eru einfaldlega ljósgeislar. Orkuinnihald ljóssins ræður notagildi þess. Sumt ljós er sýnilegt. Mest er það ekki. Röntgengeislar eru mjög orkumiklir, ósýnilegir ljósgeislar. Þeir geta (eins og allir geislar sem innihalda meiri orku en sýnilegt ljós) verið skaðlegir lífverum. Þær bylgjur sem notaðar eru til að flytja upplýsingar (t.d. á þráðlausu neti) eru mun orkuminni en sýnilegt ljós. Það er ekki sjálfgefið að slíkir geislar séu að öllu leyti skaðlausir. Örbylgjuofn baðar t.d. mat með slíkum geislum af nákvæmlega valinni tíðni til að láta vatnssameindir í matnum titra. Slíkur titringur framkallar hita.

Þráðlaust net í samfélagi okkar er hinsvegar afar öruggt og engin tengsl eru milli þess og heilsufarsáhættu. Þessu má ekki rugla saman við mögulega hættu af mikilli notkun farsíma. Það er enn verið að rannsaka hvort gríðarmikil (raunar óhófleg) farsímanotkun geti aukið hættu á krabbameini (t.d. með því að hita höfuðið í tíma og ótíma). Nær allar rannsóknir sýna enga slíka hættu en menn eru þó enn að leita af sér allan grun. Á meðan eru sendingar slíkra síma settar í sérstakan óvissuflokk fyrirbæra sem mögulega geta verið krabbameinsvaldandi þótt sannanir skorti (Í sama flokki eru t.d. súrsað grænmeti, nikkel og aloa vera).

Þessu má síðan ekki rugla saman við flokk þeirra fyrirbæra sem sannanlega geta valdið krabbameini. En í þeim flokki er til dæmis sólarljós.

Skólar og flest heimili eru tengd með þráðlausu neti. Það eru verslunarmiðstöðvar og aðrir opinberir staðir líka. Í varúðarskyni létu skólayfirvöld í Kópavogi mæla mögulega geislun af slíku neti. Niðurstaðan var sú að engum stafaði nokkur líkamleg hætta af netinu.

Fullyrðingar um annað stafa annað hvort af misskilningi eða vilja til að villa um fyrir fólki. Raunar stafar barni mun meiri hætta af því að eiga foreldri sem notar farsíma en nokkru sinni þráðlausu neti. Og hættan af hvoru tveggja bliknar við hlið þess að barninu sé leyft að vera utandyra í sólskini.

Raunar framleiða rafmagnsperur miklu meiri rafsegulgeislun en nokkru sinni þráðlaust net. Hver einasti ljósastaur og hver einasta sparpera baða alla nærstadda með stöðugri rafsegulgeislun. Og það gera raunar öll rafmagnstæki. Sumir þekkja smellina í útvarpstæki þegar kveikt eða slökkt er á lampa nærri tækinu. Þeir stafa líka af rafsegulbylgjum.

Rafsegulgeislun þarf yfirleitt ekki að óttast. Þótt orðið hljómi skuggalega.

Því hefur þó einnig verið haldið fram að tækjanotkunin sjálf sé skaðleg. Ljósið frá skjánum sé óhollt og valdi svefntruflunum og tækjanotkunin sjálf valdi þroskafrávikum.

Þetta er raunar miklu áhugaverðar umræða. En hún er töluvert flókin. Málin eru ekki endilega jafn slétt og felld og menn halda.

Fred Rogers hét Bandaríkjamaður sem fyrir löngu er orðinn að þjóðargersemi þar í landi. Hann flutti sig úr útvarpi yfir í sjónvarp vegna þess að honum blöskraði ruslið sem boðið var upp á í sjónvarpi. Sérstaklega blöskraði honum þegar heilir þættir snerust um ekkert annað en að henda mat í andlit annarra (Guði sé lof að hann dó fyrir daga Kattarhians). Hann taldi samfélagslega nauðsynlegt að börn hefðu aðgang að góðu sjónvarpsefni.

Áratugum saman stjórnaði hann barnaþætti sem gekk út á það að sefa ótta barna við hversdagsleg og óvenjuleg fyrirbæri, kynna þau fyrir margbreytileika heimsins og kenna þeim að þau væru einhvers virði (reyndar heilmikils) með öllum þeirra kostum og göllum.

Með notkun tækninnar náði Fred Rogers til tugmilljóna barna. Eftirmæli hans er kannski best að lesa á athugasemdum við einhver af hinum fjölmörgu myndböndum sem sjá má í dag á Youtube. Þær eru af öðru tæi en athugasemdir við flest önnur myndbönd þar á bæ. Það er alveg ljóst að maðurinn skipti gríðarlegan fjölda fólks gríðarmiklu máli. Fjöldi manns lýsir því hve mannbætandi og mikilvæg áhrif hann hafði. Rannsóknir ku hafa sýnt fram á það sama.

Það er næstum öruggt að á meðal dyggustu áhorfenda Fred Rogers voru afskipt og vanrækt börn. Heimilisaðstæður margra barna voru þannig á þessum tíma (og eru raunar enn) að ýmsir gengu nánast sjálfala og nutu ekki félagslegra tengsla í þeim mæli sem eðlilegt væri. Raunar yrði ég ekkert hissa þótt rannsóknir sýni (ég nenni hreinlega ekki að gúgla það) að þau börn sem mest hafi horft á sjónvarp hafi verið þau börn sem bjuggu við töluverða félagslega einangrun.

Ég held ekki að sjónvarpsáhorf hafi verið orsök þess hvernig fyrir mörgum af þessum börnum var komið. Skortur á umhyggju, samskiptum og uppeldi held ég að hafi verið til staðar frá því löngu fyrir tíma sjónvarpsins og muni vera til staðar lengi enn. Sjónvörp og önnur tækni munu ævinlega taka sér áberandi stöðu í þeim vanda sem af slíku leiðir. Meira að segja bækur held ég hafi gegnt slíku hlutverki í einhverjum tilfellum (þar er raunar uppistaðan í fyrri helmingi Matthildar eftir Roald Dahl). 

Ég er heldur ekki að segja að sjónvörp séu töfratæki sem sjálfkrafa hafi bjargað börnum frá einsemd. Ég held samt að í mörgum tilfellum hafi þau skipt máli og gert á endanum gagn. Það hafi bækur líka gert. Og tölvur. Og tölvuleikir.

Stóra málið er ekki endilega hvort barnið sé að nota tölvu eða sjónvarp – heldur hvert efnið er og af hverju sótt er í það.

Tæknin verður aldrei umflúin. En hún verður ekki heldur sjálfkrafa nýtt til góðs. Framnaf er hlutfall lágkúru í allri tækninotkun eflaust frekar hátt. Síðan, góðu heilli, átta menn sig á ýmsu af því góða sem hægt er að koma til leiðar með tækninni.

Það er mikið talað um smábörn sem varla hafa séð framan í foreldra sína vegna þess að þeim var plantað fyrir framan skjá alltof ungum.

Ég held að þetta sé að hluta til raunverulegt vandamál. En vandamálið er hvorki tækjanna né barnanna. Vandamálið er (held ég) að foreldrarnir eru af kynslóð sem var nærri fullkomlega sjálfala þegar kom að tækninni og var því í einhverjum tilfellum óundirbúin þegar kom að því risaverkefni að nýta hana sér og öðrum til farsældar. Á bak við barn sem hímir iPad hangir oft mamma eða pabbi í iPhone.   

Ég held raunar að þetta hafi nú þegar lagast nokkuð. Fyrir örfáum árum fannst mér áberandi hve tækninotkun var óbeislaðir en nú. Og ég hef séð með óyggjandi hætti að oftast er hægt að kenna ungmennum ábyrga notkun tækni.

Raunar eru mörk milli tækniheims og raunheims að mást út. Renna saman í einn heim, líkt og rúm og tími. 

Þeir sem vilja úthýsa tækninni verða að gæta þess að það sé ekki gert vegna þess að menn séu að ráðast á einkenni einhvers vanda sem er til staðar með eða án tækninnar. Það að taka iPad af smábarni er til lítils ef foreldrið hangir í símanum. 

Þá verða þeir sem tala fyrir mjög róttækum tálmunum í notkun barna á tækni að gera sér grein fyrir því að öll viðmið verða að vera í takti við raunveruleikann. Þeim verður að vera hægt að framfylgja. Þau verða að miða við það að hjá stálpuðum börnum er ríkulegur félagslegur vettvangur í stafrænum heimi – og þau verða að vera öfgalaus og raunhæf. Tækjanotkun barna og unglinga er eðlileg í þeim veruleika sem við búum nú. Það að gera hana tortryggilega getur sett foreldra (sérstaklega þá sem standa höllum fæti) í óafsakanlega stöðu. Hér mætti t.d. minnast þess hvernig mæðrum einhverfra barna var kennt um að hafa gert börnin sín veik með skorti á umhyggju.

Sex ára drengurinn minn fann um daginn leið til að senda myndbönd úr iPad í sjónvarpið okkar. Ég hafði ekki hugmynd um þann möguleika þrátt fyrir að vera yfirleitt frekar vel að mér um þessa hluti. Það að horfa á börnin okkar í tækjunum getur verið svimandi. Þau eru oft ótrúlega fótviss og vita nákvæmlega hvað þau eru að gera og af hverju á meðan við, hin eldri, störum á í forundran og skiljum ekkert hvað er að gerast. Sjáum bara að það gerist hratt. Og við höfum mörg fundið hvernig sífelld dvöl í háspennuheimi tækninnar skolar okkur á land í „kjötheimum“ óþreyjufullum og athyglisbrostnum. 

Að hluta til snýst þetta um tempó. Púls afdalabóndans slær í vikum og kaupstaðarbúans í mínútum. Kaupstaðarbúinn kvartar svo sáran yfir hraðanum á öllu í borginni.

Þegar ég kemst út á land eftir einhvern tíma í þéttbýli upplifi ég þennan sama athyglisbrest. En ég upplifi líka hin heilnæmu áhrif þess að ná að hægja á öllu. Og ég geri það því – meðvitað. Sem uppalandi reyni ég að kenna börnunum mínum það líka. Það er unaður að ganga á fjöll eða í fjöru. Það er mikilvægt að hafa eirð í sér fyrir góða bíómynd og það eru forréttindi að fá að tengjast bókum og tónlist. Og ekkert af því er sjálfgefið. Margt af þessu þarf að kenna.

Á endanum mun tæknin ekki svipta okkur neinu sem hún getur ekki fært okkur aftur ef við kjósum svo. En ekkert mun varðveitast ef vörn þess er afneitun. Menntakerfi án tækni er óhugsandi. Atvinna án tækni er langsótt. Líf án tækni er úrelt.

Nám á að snúast um að gera mann hæfan til að verða sjálfum sér og öðrum til gagns og yndis. Menntun þarf alltaf að miða við samfélagið eins og það er. Það þýðir ekki,  hvort sem viðfangsefnið er málfræði eða kynfræðsla, að reyna að miða við það sem manni finnst að ætti að vera í staðinn.

Nám þarf alltaf að endurskoða. Það þarf að gagnrýna. Þegar vel gengur þarf að efast og velta því fyrir sér hvað það er sem gengur svona vel og hvort það sé í raun og veru mikilvægt. Og þegar illa gengur þarf maður að vakta viðbrögð sín og hugsanir og gæta þess að hrapa ekki að ályktunum eða grípa til örvæntingar.

Í einni af sögum James Thurbers segir hann frá ömmu sinni sem ævinlega hafði illan bifur á rafmagni. Henni var það sérstaklega á móti skapi ef perustæði stóð autt. Þá var hún þess fullviss að úr holunni streymdi illvænlegt rafmagn sem hægt en örugglega myndi gera útaf við alla heimilismenn. Öld seinna vilja hræddir trúa því að rafsegulbylgjur séu að murrka lífið úr íslenskum leikskólabörnum. Hvorttveggja er óskaplega mannlegt. Hvorttveggja er óskaplega rangt. 

Það er samt hughreystandi að þrátt fyrir allt er lykilinn að farsæld nokkurnveginn sá sami nú og þá. Og raunar sá sami og hann var í fornöld þegar menn fóru af einhverri alvöru að velta því fyrir sér hvernig hið góða líf væri. Hann snýst hvorki um glóþræði né sparperur. En það hjálpar ekki við leitina að hamingjulyklinum að slökkva ljósin og þreifa sig áfram í myrkri.

Aðeins með því að lifa í þeim heimi sem maður tilheyrir getur maður raunverulega sett mark sitt á hann.

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu