Þessi færsla er meira en 9 ára gömul.

Er einhver hræddur við siðareglur?

Er einhver hræddur við siðareglur?


Starf í stjórnmálum er göfugt vegna þess að sá eða sú sem stundar það á að vinna að hamingju og heill þjóðar sinnar. Siðareglur veita fólki í stjórnmálum styrk til að ganga þennan veg en miklar kröfur eru gerðar til þeirra sem starfa í stjórnmálum.

Almannaheill er mælikvarðinn í stjórnmálum. „Er viðmið tiltekinnar ákvörðunar, frumvarps eða laga hagsmunir almennings?“ er spurning sem ævinlega er efst á blaði í stjórnmálum. Gildar ástæður í stjórnmálum sækja mátt sinn í almannaheill, ógildar í sérhagsmuni. Fólk í stjórnmálum þarf siðareglur til að getað skoðað ákvarðanir sínar og hegðun í ljósi þeirra.

Viðmið þeirra sem eru valin til starfa í stjórnmálum eru ófrávíkjanlega kjósandinn og þjóðin. Reynslu og þekkingu á réttlæti og ranglæti þarf til að geta tekið ákvarðanir út frá almannaheill í stað tímabundinna einkahagsmuna. 

Siðareglur á dagskrá

Alþingismenn hafa ekki enn sett sér siðareglur þótt þær hafi verið á dagskrá frá 2011 og ríkisstjórnin ekki heldur. Er gagn í siðareglum? Ætti almennt siðgæði að duga Alþingi og ríkisstjórn? Til hvers eru siðareglur og er einhver hræddur við þær? 

Greina má tvenns konar viðhorf til siðareglna í umræðunni. Annarsvegar er einblínt á siðareglur sem tæki til að góma þá sem brjóta þær og finna leiðir til að skamma þá eða refsa. Líkt og siðareglur væru reglustrika til að slá á fingurinn. Þetta er neikvætt viðhorf.

Hins vegar það viðhorf að siðareglur séu hjálpartæki til að leiðbeina og koma í veg fyrir kæruleysi. Þær aðstoða starfsstéttir til að ganga heillavænlegan veg í samskiptum sínum við aðra og sín á milli. Þetta viðhorf er jákvætt og í þeim anda ættu alþingismenn að setja sér siðareglur.  

Fjölmargar starfsstéttir hafa sett sér siðareglur, á liðnum tuttugu árum, sem varpa ljósi á þann ramma sem þær starfa innan. Siðareglur eru tilraun til að skrá og skýra helstu viðmið og helstu hættur. Þær vísa á höfuðdyggðir starfsstétta svo sem heiðarleika, trúnað, ábyrgð og virðingu en þær fjalla einnig oft um hver mörkin eru.

Stjórnmálafólk virðist á yfirborðinu vera fremur sundurlaus hópur en þegar grannt er skoðað er fleira sem sameinar það en sundrar. Alþingi er til að mynda vinnustaður þar sem ákveðnar reglur og hefðir gilda og þar eru unnin störf sem varða heill og hamingju borgarana. Almannaheill er hugsjón stjórnmálafólks og viðmið. Siðareglur geta hjálpað þeim við að sjá hugsjón sína verða að veruleika. 

Siðareglur eru ekki samdar til að stjórna öðrum. Þær eru yfirlýsing eða heitstrenging hóps eins og alþingismanna um skyldur sínar, mörk og þau gildi sem halda skal í heiðri. Sérfræðingar setja ekki starfsstéttum siðareglur heldur eiga þær að gera það sjálfar. Skapa lifandi umræður í hópum um helstu gildi og koma sér saman um hver viðmiðin eigi að vera og hvað beri helst að vara við. Vel orðaðar siðareglur verða til á löngum tíma ef starfsstéttin heldur sér við efnið. Þær skerpa á hugsjónum og efla fagmennsku í samskiptum og setja mörk. 

Ástæðan fyrir því að gott er að skrá reglurnar er sú að þær geta aðstoðað einstaklinga við að taka heillavænlegar ákvarðanir í siðferðilegum álitamálum. Engin ástæða er því til að óttast siðareglur eða ræða um skrásetningu þeirra sem óþarfa vinnu. 

Endurheimt traust almennings

Siðfræðistofnun Háskóla Íslands hélt málstofu um siðareglur ráðherra og þingmanna 12. maí 2015. Þar töluðu heimspekingarnir Henry Alexander Henrysson og Jón Ólafsson og Björg Thorarensen lagaprófessor og spáðu m.a. í hvort siðareglur geti hjálpað ráðherrum og þingmönnum að endurheimta glatað traust. Þau telja svo vera.

Sterklega kom fram á málstofunni að siðareglur geta virkað sem vörn við ásökunum um siðleysi þingmanna og að þær eru gott hjálpartæki ef ætlunin er að endurheimta glatað traust. Þær segja engum fyrir verkum en hvetja til umhugsunar. 

Siðareglur vekja umræðu innan hópsins sem setur sér þær og auka líkur á virðingu annarra. Hópurinn hefur sameiginlegan skilning á hvernig best er að vinna að almannaheill. Siðareglur varpa ljósi á réttindi og skyldur og hjálpa fólki til að hafa þær ævinlega í huga við störf sín. Siðareglur greina tilgang og markmið starfsins og draga úr líkum á að einhver gleymi í hvaða átt hann ætlar að stefna. Og koma vonandi í veg fyrir einhver láti teyma sig þangað sem hann vill ekki fara.

Sá sem skilur starf sitt og hlutverk og hefur siðareglur til að styðja sig við er líklegur til að komast á leiðarenda. 

Setning siðareglna vegur örugglega þungt ef Alþingi vill endurheimta traust almennings, þær veita innra aðhald og draga úr líkum á því að sérhagsmunir séu nokkurn tíma teknir fram yfir almannahagsmuni. 

Ekkert að óttast

Enginn þarf því að vera hræddur við siðareglur, þær skapa sameiginlegan skilning og breyta hugsunarhætti með tímanum til góðs. Þær eru hjálpartæki en ekki refsivöndur. Þær eru lifandi viðmið sem vinna þarf að og endurskoða reglulega. 

Vonandi dregur úr mótstöðunni gagnvart siðareglum alþingismanna og ráðherra, þær eru ekkert til að óttast. 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni