Sextíu þúsund milljónir í veggjöld?
Veggjöld hafa verið heitt umræðuefni að undanförnu og sýnist sitt hverjum. Segja má að umræðan um veggjöldin séu í raun afleiðing efnahagshrunsins 2008 og afleiðinga þess; bæði gríðarlegs halla sem skapaðist á rekstri ríkisins (um 150 milljarðar þegar mest lét) og eins ferðamannabólunnar sem skapaðist um og upp úr 2010 og gríðarlegs vaxtar í þeirri grein.
Ástand margra vega hefur lengi verið mjög slæmt og nú finnst (ráða)mönnum kominn tími til þess að bæta úr því.
Þess vegna hafa menn fengið þá hugmynd að leggja á veggjöld, til þess að fjármagna það sem er kallað ,,innviðauppbygging“ og er þá yfirleitt verið að tala um vegi og samgöngumannvirki.
Hér eru stórar upphæðir á ferðinni og hefur Jón Gunnarsson, fyrrum samgönguráðherra og nú sérstakur talsmaður Samgönguáætlunar nefnt töluna 60 milljarða í þessu samhengi. Sextíu þúsund milljónir! Til samanburðar voru tekjur ríkisins af eldsneyti og bifreiðagjöldum árið 2016 um 44 milljarðar en framlag ríkisins til Vegagerðarinnar var hins vegar einungis um 25 milljarðar (um 57% af þessum peningum). Hvað er gert við hin 43 prósentin? Væri ekki hægt að nota meira af þessu fé í innviði.
Innviðakerfi ekki ókeypis
Í Svíþjóð voru um miðjan síðasta áratug sett á veggjöld, það sem kalla mætti ,,þrengslaskatt“ (trängselskatt) í Stokkhólmi. Það var gert til þess að minnka umferð inn í borgina, en einnig voru umhverfisleg sjónarmið í þessu líka. Um er að ræða sjálfvirkt kerfi sem les númeraplötur á helstu inn og útleiðum úr borginni (20 stöðvar). Þetta kerfi var og er hins vegar ekki ókeypis. Árið 2011 var kerfið búið að kosta um 3.1 milljarð króna, sem eru á núvirði tæpir 40 milljarðar króna. Kerfið var hins vegar ekki byrjað að skapa tekjur og var ekki búið að borga sig upp. Þetta kemur fram í grein í tæknitímaritinu ComputerSweden.
Þar kemur einnig fram að nokkuð hár hluti af kerfinu fer í að reka kerfið, en reiknað er með að sá hlutur hafi farið lækkandi. Það var IBM sem hannaði kerfið, en nú er það í höndum Samgönguyfirvalda (Transportstyrelsen). Þetta kerfi var því alls ekki ókeypis og í framhaldi af þessu má spyrja; hvernig kerfi á að setja upp hér, hvað á það að kosta, hver á rekstrarkostnaðurinn að vera, hverjar tekjurnar, hver á að reka kerfið og svo framvegis?
Nei verður Já
Álíka kerfi, með 36 stöðvum, hefur einnig verið sett upp í Gautaborg. Sænska þingið tók ákvörðun um skattheimtu í borginni árið 2010, en í maí árið 2013 fengu íbúar borgarinnar (500.000 íbúar, um 1 milljón með úthverfum - ,,metro“) að kjósa um málið og var það fellt, nei sögðu tæp 57% íbúa, en um 43% voru því fylgjandi. Um 73% kosningabærra tóku þátt, sem er hátt hlutfall. Þessi niðurstaða var hins vegar höfð að engu árið 2015 þegar yfirvöld í borginni ákváðu að halda skattinum.
Í báðum þessum kerfum eru gjöldin mismunandi eftir því á hvaða tíma dags er farið í gegn, dýrast á álagstímum, snemma dags og síðdegis og á ákveðnu tímabil er ókeypis í gegn (seint um kvöld og að næturlagi). Að sumri til er einnig tímabil, þegar ókeypis er að fara í geg, Hvernig hafa menn hugsað sér þetta hér á landi?
Í tilfelli Gautaborgar hafa hins vegar verið miklar deilur um málið. Fjármagn sem átti að fást átti að nota í miklar framkvæmdir í borginni, en árið 2015 tók sænska ríkið tekjurnar alfarið til sín, til þess að standa straum af kostnaði vegna aukins fjölda flóttamanna til Svíþjóðar. Upphaflega stóð til að ríki og borg myndu skipta með sér kostnaðinum. Þetta olli óánægju og segir okkur að stjórnmálamaður sem segir A í dag, getur sagt B á morgun.
Það sem helst má kannski lesa úr þessum dæmum er að þessi kerfi eru dýr í uppsetningu og það kostar að reka þau líka. Ávallt fer ákveðið hlutfall af tekjum í rekstur á kerfinu (10-20%). Hvernig á að gera þetta hér á landi? Kerfi sem þessi þurfa líka viðhald og endurfjárfestingu. Með hve háum upphæðum er reiknað hér á landi?
Ævintýrið með Símann
Einnig má af þessu ráða að hægt er að svíkja gefin loforð í þessum efnum eins og öðrum. Hér á Íslandi var fyrirtækið Síminn seldur af ríkinu til einkaaðila árið 2005 fyrir um 60 milljarða króna, eða sömu upphæð og á að raka inn nú. Áttu peningarnir að fara í ýmsa ,,góða hluti“ eins og t.d. hátæknisjúkrahús. Einnig átti að fjármagna Sundabraut með þessum peningum. En það gerðist eitthvað allt annað, eins og sést hér og hér. Þetta er fróðleg lesning!
Hvaða tryggingar hafa því þeir sem mögulega þurfa að greiða veggjöld í framtíðinni fyrir því að peningarnir fari í það sem sagt er að þeir eigi að fara í? Ef af verður?
Stjórnmálamenn hafa það fyrir atvinnu (og hlutverk) að taka ákvarðanir. Þessar ákvarðanir eiga að vera grundvallaðar á bestu mögulegu upplýsingum og þær eiga að koma almenningi til góðs og varða almannahagsmuni.
Vöndum vinnubrögð
Ákvörðun sem felur í sér nýja skattheimtu upp á allt að 60.000 milljónir króna þarf því að vanda gríðarlega. Hún á ekki að fá flýtimeðferð. Hver er t.d. vilji Íslendinga í þessu máli? Væri ekki vert að skoða það? Á að leyfa fólki að kjósa um þetta og hvaða rök mæla með því, eða á móti? Flýtum okkur hægt í þessum efnum - rétt eins og í umferðinni. Þó málið sé brýnt. Þetta mál þarf nefnilega að vanda, við höfum nóg af dæmum um illa grundaðar ákvarðanir í íslenskum stjórnmálum. Bætum ekki einni í safnið!
Höfundur er MA í stjórnmálafræði.
Greinin birtist fyrst í Kjarnanum þann 3.mars 2018
Athugasemdir