Örgeðja Trump róaður vegna Sýrlands
Ber er hver að baki, nema sér bróður eigi, segir í frægum fornsögum okkar Íslendinga, en þessi orð má kannski heimfæra á síðustu aðgerðir Donald Trumps í Sýrlandi. Hann ákvað fyrir skömmu, að því er virðist upp á sitt einsdæmi, að draga alla bandaríska hermenn frá Sýrlandi, þar sem þeir og fleiri hafa verið að glíma við hryðjuverkasamtökin ISIS, eða það sem daglega er kallað "hið svokallaða íslamska ríki."
Aðgerðir Trumps hafa mætt mikilli andstöðu og þær raddir sem segja að Trump sé hvað verstur við sína bandamenn hafa verið háværar frá því að hann tók við embætti fyrir tæpum tveimur árum síðar. En "vitringar" innan Repúblíkanaflokksins tóku sig til og ræddu málið við Trump, með öldungardeildarþingmanninn Lindsay Graham í broddi fylkingar. Graham tókst að sannfæra Trump um að fara sér að engu óðslega í málinu. Svo virðist sem það hafi borið árangur. Enda er það svo að maður kippir ekki svona herliði til baka einn, tveir og þrír.
Kúrdar gegn ISIS
Samt sem áður er talið að þessi ákvörðun Trumps komi sér sérlega illa við Kúrda, sem áratugum saman hafa verið í baráttu fyrir eigin ríki í norðurhluta Íraks og Tyrklandi. Kúrdar hafa verið dyggir stuðningsmenn þeirra sveita sem hafa verið að berjast gegn ISIS undanfarin misseri. Og virðist vera sem barátta þeirra hafi skilað árangri.
En þeir hafa einnig háð grimmilega baráttu við NATO-landið Tyrkland áratugum saman, þar sem tugir þúsunda hafa fallið. Eins og svo margt annað í þessum heimshluta er þetta allt saman mjög flókið og margþætt. Kúrdar eru alls um 28 milljónir talsins og dreifast yfir nokkur ríki í Mið-Austurlöndum.
Bandaríkin hafa í gegnum tíðina hegðað sér eins og heimslöggan og tekið það hlutverk að sér. En atburðir og þessi ákvörðun Trumps minnir nokkuð á aðra álíka ákvörðun (og atburðarás) sem átti sér í raun stað á sama svæði fyrir um 30 árum síðan og sýnir í raun hvernig maður á ekki að fara með vini sína eða bandamenn.
Bush eldri lúskraði á Saddam
Þá var annar repúblíkani forseti, en sá var George Bush eldri, sem lést nýverið. Þegar hér komið er við sögu er hann búinn að lúskra á einræðisherra Íraks, Saddam Hussein, sem ráðist hafði inni í smáríkið Kuwait, vegna deilna ríkjanna um olíu. Bush safnaði saman alþjóðlegu herliði og gerði útaf við Íraksher Hussein á aðeins nokkrum vikum. En ekki var farið til Bagdad og Saddam Hussein hélt því völdum.
Hinsvegar hvatti Bush með yfirlýsingum í fjölmiðlum og flugmiðum ýmsa hópa sjíta í S-Írak og Kúrda í N-Írak til þess að rísa upp gegn Saddam. Túlkuðu andstæðingar Saddams orð Bush sem stuðning við þá. Þegar á hólminn var komið reyndist sá stuðningur lítill sem enginn og hermenn Saddams gengu berserksgang i landinu gegn Sjítum og Kúrdum, sem voru einfaldlega stungnir í bakið af Bandaríkjamönnum. (Hér ber að taka fram að Saddam Hussein var súnníti, en súnní og sjía er tvær megingreinar Islam. Súnnítar voru minnihluti í Írak á þessum tíma, en ráðandi afl í landinu og hafði Saddam Hussein haft völd frá árinu 1979.)
Grimmdarverk með vitneskju Bandaríkjanna
Samkvæmt umfjöllun Washington Post frá 2003 er talið að allt að 100.000 manns hafi fallið/verið myrtir í þessum atburðum frá mars 1991 og næstu mánuði. Mörg grimmdarverk frá mars til september árið 1991 voru framin með vitneskju bandarískra hermanna, sem höfðu skipanir um að skipta sér ekki af. Saddam tók því reiði sína, gremju og í raun ósigur gegn alþjóðahernum, út á andstæðingum sínum og fékk í raun "fríspil" við það. Flóttamannabylgja skapaðist svo á sama tíma í Írak.
Saddam hélt því völdum en næstu árin einkenndust af alþjóðlega viðskiptabanni og flugbanni (no-fly-zones) yfir Írak. Þetta ástand hélst í raun þar til sonur George Bush eldri, George Bush yngri, réðist svo aftur inn í Írak árið 2003. Og af þeim atburðum erum við að súpa seyðið með margvíslegum hætti í dag.
Brölt Trumps styrkir Pútín
Það er því ekki furðulegt að Kúrdar óttist um sinn hag í Sýrlandi og á þeim svæðum þar sem þeir hafa verið að hjálpa Bandaríkjamönnum að berjast gegn ISIS, þegar Trump tístir allt í einu að hann ætli að draga alla bandaríska hermenn frá Sýrlandi.
Ekki bara að það geti komið illa fyrir Kúrda, heldur telja fréttaskýrendur einnig að þetta muni einungis efla og styrkja stöðu Rússa í Sýrlandi og efli því mögulega stöðu Pútíns Rússlandsforseta enn frekar.
Rússar, ásamt Írönum, eru helstu stuðningsmenn einræðisherrans Bashar al Assad, forseta Sýrlands, en í því borgarastríði sem geisað hefur í landinu frá árinu 2011 hafa um 500.000 manns látið lífið og um 12 milljónir manna eru á flótta, bæði innan og utan landsins. Um að ræða mesta flóttamannavanda í heiminum frá lokum seinna stríðs árið 1945.
ISIS mest áberandi á Sínaískaga
Hryðjuverkasamtökin Hið íslamska ríki, náðu sínu hámarki árið 2014, þegar samtökin höfðu um helming Sýrlands á valdi sínu og góðan hluta af Írak. Síðan hefur hallað undan fæti, en að undanförnu hefur hvað mest borið á samtökunum í Egyptalandi, á Sínaí-skaganum. Í lok desember voru þrír víetnamskir ferðamenn myrtir í árás við hina fornfrægu pýramída í Giza, skammt frá höfuðborginni Kairó, en í kjölfarið myrtu egypskar öryggissveitir um 40 hryðjuverkamenn. Árásir sem þessar koma mjög illa niður á ferðamennaiðnaði Egyptalands, sem er mikilvægasta atvinnugrein landsins.
Spurningin er nú hvort ákvörðun Trump muni enn frekar auka á óstöðugleikann í Mið-Austurlöndum og hvort þeir bandarísku hermenn (sem eru ekki nema um 2-3000, að vísu margir sérsveitarmenn) séu ákveðinn "stuðpúði" sem að stuðli að frekara ójafnvægi, sé hann ekki á svæðinu. Það mun framtíðin leiða í ljós.
Höfundur er M.A. í stjórnmálafræði.
Greinin birtist fyrst í Kjarnanum
(Myndin sýnir ónýtan sovéskan skriðdreka Írakshers)
Athugasemdir