Kjarasamningar: Um vetrarfrí, styttingu vinnutímans og framfarir
Nú á næstu mánuðum losna flestir kjarasamningar á íslenskum vinnumarkaði og semja þarf um kaup og kjör í mjög mikilli óvissu um framtíðina. Verðbólga er mikil og efnahagsástandið í heiminum er um margt ótryggt. Þá er okkur á margan hátt eðlislægt að reyna aðeins að verja það sem hefur áunnist, fremur en að stuðla að framförum. En það væri misráðið: Heimurinn er á hraðri ferð, tæknibreytingar halda áfram að eiga sér stað, og víða um heim er vinnumarkaðurinn að breytast og miklar umræður standa yfir um vinnumarkaðinn og framtíð vinnunnar.1 Í hinum enskumælandi heimi er þannig mikið rætt um fjögurra daga vinnuviku, eða 32 stunda vinnuviku, sem dæmi.2 Þótt nú séu óvissutímar megum við ekki láta heilbrigða þróun sitja eftir – við verðum að stuðla að framförum engu að síður. Þá eru ýmis samfélagsmein, eins og kulnun, sem við verðum að taka á, þrátt fyrir verðbólgu og óvissu.
Undanfarnir þrír áratugir eða svo hafa einkennst af framþróun í tækni og breytingum á lífsháttum samhliða framþróuninni. Sjálfvirknivæðing hefur aukist og vinna er almennt orðin meira bundin við tækni – og sum störf eru það alfarið. Fjarvinna hefur orðið útbreiddari í samfélaginu.3 Skilvirkni hefur verið aukin víða. Allt bendir til að þetta ferli muni halda áfram. Við sem samfélag höfum þó verið rög við að styrkja réttindi launafólks samhliða þessari þróun og breyta starfsháttum á vinnustöðum í því skyni að auka frítíma vinnandi fólks þótt svo tæknin eigi að opna á slíka möguleika. Ein helsta undantekningin á þessu er þó stytting vinnuvikunnar 2020–2021,4 sem var farsælt skref. Sveigjanleiki vinnutíma í þágu starfsfólks er einnig undantekning, þótt raunar geti slíkur sveigjanleiki verið tvíbentur.5 Á þessum tíma hefur öllu meira verið gert fyrir atvinnurekendur, m.a. í formi skattalækkana og afreglunar. Keppikefli samfélagsins hefur á þessum tíma mest snúist um að auka neyslu – meiri sjálfvirkni, meiri neysla.
Í komandi kjaraviðræðum er mikilvægt að hugað sé að tækniþróuninni og hvernig megi beisla hana í þágu meiri lífsgæða almennings í landinu, með auknum frítíma og minni líkum á kulnun að leiðarljósi. Hér þarf að hugsa um samhengi vinnu, tækni og frítíma út frá langtímaþróun, enda hafa mikilvægar langtíma samfélagsumbætur oft orðið fyrir tilstilli kjarasamninga.
Byrjum á að skoða lauslega hver tækniþróunin hefur verið, hvernig hún gæti orðið og hvernig tengslin eru við kulnun. Þá mun ég setja fram hugmyndir um umbætur, svara líklegum efasemdum og huga að hvernig megi útfæra þessar hugmyndir.
Tæknin og möguleikar til þróunar samfélagsins
Á undanförnum áratug hefur umtalsvert rannsóknarstarf verið unnið til að kortleggja hver áhrif tækniframfara næstu ára og áratuga geta orðið. Tækniframfarirnar eru taldar felast í aukinni sjálfstýringu kerfa, nýjum efnum, nýjum aðferðum við að tákna og vinna með gögn, hraðvirkari tölvum og nettengingum, og stærri og betri gagnasöfnum. Einnig er þess vænst að gervigreind muni hafa áhrif. Enn sem komið er hefur gervigreind haft takmörkuð áhrif á vinnumarkaði, en ljóst er að allt hitt hefur haft áhrif nú þegar.6 Þessar framfarir eru allar taldar geta haft mikil áhrif til aukinnar sjálfvirkni í atvinnulífinu – sjálfvirknin leysir mannshöndina af hólmi – og við höfum raunar séð þess merki nú þegar á mörgum sviðum: Bankar á Íslandi hafa innleitt sjálfvirkni til að vinna mörg verk sem áður voru unnin af fólki, sem dæmi. Í sjávarútvegi hefur sjálfvirkni aukist mjög á undanförnum áratugum. Þetta er og þykir sjálfsögð þróun.
Áhrifin í samhengi við íslenskt samfélag hafa verið metin af nefnd sem skipuð var af forsætisráðherra Íslands.7 Talið er að meira en helmingur starfa muni verða fyrir áhrifum af aukinni sjálfvirkni í okkar samfélagi, mismikið eftir atvinnugreinum: Mest í framleiðslu, byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð, landbúnaði og smáverslun. Mörg störf munu breytast varanlega eða hverfa – önnur verða til á móti, en enginn veit í hversu miklum mæli. Þessi þróun mun hafa áhrif á vinnu, laun og skiptingu auðsins, hvort sem atvinnuleysi eykst eða ekki.
Þetta var forspá um framtíðina. En einnig eru til rannsóknir á áhrifum í fyrndinni: Nýleg rannsókn frá Bandaríkjunum staðfestir að stór hluti aukins launaójafnaðar þar í landi á um fjörtíu ára tímabili (1980-2016) kemur til vegna þess að störf voru sjálfvirknivædd – og hurfu – án skynsamlegra mótvægisaðgerða; verr launuð störf komu í staðinn og launaójöfnuður jókst.8 Hér er víti, okkur sem öðrum, til varnaðar: Tækniþróunina hefði mátt nýta miklu betur og í þágu alls samfélagsins. Það er þannig mikilvægt að samfélög séu reiðubúin þegar tæknbreytingar ganga yfir svo nýta megi breytingarnar sem best. Væri rannsókn af þessu tagi gerð á íslensku samfélagi fyrir sama tímabil myndi án efa eitthvað svipað koma í ljós. Nærtækt er að benda á þann auð sem hefur orðið til í sjávarútvegi á síðastliðnum áratugum vegna sístækkandi skipa, betri aðferða og sjálfvirkni í vinnslu, sem og samþjöppunar vegna kvótakerfisins – allt helst þetta í hendur. Ójöfnuður hefur stóraukist í okkar samfélagi, m.a. vegna þessa, og stórfelld breyting orðið í mörgum byggðarlögum líka.
En tækniframfarir hafa líka áhrif á persónulegt líf fólks. Á undanförnum árum hefur umræða um kulnun aukist og meiri ásókn er í úrræði til að kljást við kulnun, hefur þetta gerst víða í hinum vestræna heimi.9 Enn er óljóst um hvort kulnun hafi raunverulega orðið tíðari í okkar samfélagi – rannsóknir skortir –, eða hvort umræðan leiði til meiri ásóknar í úrræði sem þörf var fyrir áður. Þótt tíðni kulnunar á Íslandi sé ekki vel þekkt eru sterkar vísbendingar um kulnun hjá vissum hópum, meðal annars hjá grunnskólakennurum og velferðarstéttum. Til samanburðar má nefna að kulnun virðist sjaldgæfari meðal tannlækna.10 Það er þó er nauðsynlegt fyrir hvert samfélag að taka þróun sem þessa alvarlega og ígrunda leiðir til að sporna við henni. Trúlega á þróun í átt að stafrænum heimi sinn hlut í aukinni kulnun, með meira áreiti, tilfinningu um að verkefnum ljúki aldrei og þverrandi skilum milli vinnunnar og einkalífs. Þá hefur hinn stafræni heimur líka þýtt aukna byrði fólks hvað stafræn gögn áhrærir. Allt setur þetta aukna ábyrgð á fólk, því að skyldur vegna heimilis eða vinnu hafa ekki beinlínis dregist saman; vinnuálag hefur víða aukist og skyldur vegna fjölskyldu trúlega líka.
Eins og einn viðmælandi í röð viðtala til að vekja athygli á kulnun orðaði það: „Vinnan okkar í dag er orðin svo breytt frá því var, nú þykir sjálfsagt að við séum til staðar allan sólarhringinn, svörum tölvupóstum og símtölum strax, en þannig var það ekki fyrir nokkrum árum. Bilið milli vinnu og einkalífs fer sífellt minnkandi.“11
Með aukinni hlutdeild stafrænnar tækni í vinnu af öllu tagi er líklegt að bilið á milli vinnu og einkalífs minnki enn frekar.
Kulun hefur áhrif á líf og heilsu þeirra sem fyrir henni verða, og oft tekur langan tíma fyrir fólk að jafna sig.12 Við höfum þó enn ekki brugðist við þessari þróun sem samfélag; við höfum enn sem komið er mestmegnis sett það í hendur einstaklinga að verja sig og sækja sér hjálp, en það segir sig sjálft að slíkt dugar ekki til þegar væntingar annarra (og samfélagsins) eru á skjön við þarfir einstaklinganna. Æskilegt er að við bregðumst við sem samfélag til að taka á þróuninni, að auki við einstaklingsbundin úrræði.
Jafnvel þótt tæknin og samfélagsþróunin hafi haft þau neikvæðu áhrif sem hér hefur verið lýst hefur mjög margt jákvætt gerst í okkar samfélagi síðustu áratugi: Efnisleg lífsgæði hafa aukist, minna er um hættulega og/eða líkamlega erfiða vinnu, vinnutími hefur styst og fleira til. Þá hefur stafræn þróun opnað á atvinnu án staðsetningar og frekari sjálfvirkni. Hin neikvæðu áhrif eru tækifæri til frekari samfélagsþróunar, sem geta leitt af sér jákvæða þróun, öllu samfélaginu til gagns og heilla. En við þurfum þá líka að beisla tækifærin – galdurinn þar að baki liggur í aukinni áherslu á fólk, réttindi þess, og breytingum á starfsháttum og auknum lífsgæðum.
Tækniþróun í þágu fólks og samfélags: Nokkrar tillögur
Líkt og kom fram áður hefur áhersla samfélagsins undanfarna áratugi ekki falist í að nýta tækniframfarir til að auka tíma fólks utan vinnu – með undantekningum þó. Áherslan hefur að mestu legið í öðru, en með því höfum við sem samfélag fórnað þeim gæðum sem aukinn frítími felur í sér, t.d. meira félagslífi og tíma með vinum og fjölskyldu, minni streitu og minni kulnun. Kjarasamningarnir 2019–2020, sem höfðu í för með sér styttingu vinnutímans13 – mismikilli eftir geirum atvinnulífsins – mörkuðu vissa stefnubreytingu hér á, enda í fyrsta sinn í áratugi sem ráðist var í jafn viðamiklar breytingar á vinnutímafyrirkomulagi á Íslandi. Með herkjum tókst að fá hagsmunasamtök atvinnurekenda og hið opinbera til að semja um styttinguna þrátt fyrir umræðu í mörg ár á undan um kosti þessa – m.a. augljósa kosti fyrir atvinnurekendur, líkt og aukna framleiðni, og augljósa kosti fyrir fjölskyldur, líkt og meiri tíma til samveru. Samningarnir hafa reynst mikil gæfa fyrir okkar samfélag, enda þörfin fyrir styttinguna augljós og skoðanakannanir benda til mikillar ánægju með hana, einkum í opinbera geiranum.14
Nú er komið að því að við mörkum næstu skref í stefnubreytingunni. Í um fjóra áratugi fram að síðustu kjarasamningum hafði tækninni fleygt fram með tilheyrandi aukningu á framleiðni á hverri vinnustund – þótt framleiðnin sé að vísu lakari hér en í nágrannalöndunum – en vinnutíminn ekki styst til samræmis við bætta tækni og aukna framleiðni.15 (Framleiðni á vinnustund er mælikvarði á verðmætasköpun og meiri framleiðni gefur til kynna meiri verðmætasköpun.) Við höfðum þannig vanrækt að nýta framfarirnar á þann hátt sem höfundar nýrrar tækni og samfélagsrýnar sjá gjarnan fyrir sér: Til að auka frelsi fólks frá vinnu.16 Hagfræðingar sjá stundum fyrir sér þennan möguleika líka. Næstu skref sem við mörkum eiga að koma í veg fyrir að við endurtökum söguna. Við eigum að halda áfram að huga að vinnutíma í komandi kjarasamningum, en með öðrum hætti en síðast. (Þó er auðvitað rétt að huga að því sem betur má fara í skipulagi, mönnun og svo frv.)
Í síðustu kjarasamningum var einblínt á styttingu vinnutímans með breytingum á vinnuskipulagi og vaktakerfum. Þannig var aukin framleiðni sem kom til vegna breytts skipulags sett í að stytta vinnutímann, auk þess sem starfsfólki var fjölgað þar sem á þurfti að halda. Nú ættum við að huga betur að því að frítíminn sé raunverulega tryggður og að tækniþróun framtíðar hjálpi okkur við að draga úr vinnustundum til langs tíma.17 Með þessu móti getum við líka spornað gegn neikvæðum áhrifum tækniþróunarinnar sem rætt var um að framan og snúið henni okkur í hag.
Ég vil setja fram fjórar tillögur sem saman vinna að þessu marki:
-
Drögum úr yfirvinnu. Yfirvinna er enn nokkuð algeng á Íslandi þótt hafi dregið úr henni, en um 30% vinnandi fólks vann yfirvinnu í fyrra samkvæmt mælingum Hagstofu Íslands. Yfirvinna er slítandi, stuðlar að kulnun og er heilsuspillandi til lengdar, auk þess sem regluleg yfirvinna dregur úr mætti gerðra kjarasamninga og settra laga sem eiga að tryggja hóflegan vinnutíma. Til að draga úr yfirvinnu enn frekar er rétt að setja þak á yfirvinnugreiðslur og tryggja að yfirvinna um fram það sé tekin út sem frítími.18 Til samræmis verður að leiðrétta grunnlaun þar sem þarf. Og þar sem ógreidd yfirvinna þekkist orðið í ýmsum öngum samfélagsins er réttast að tekið verði fyrir slíkt fyrirkomulag í reglulegri launavinnu – engin vinna á að vera ógreidd.
-
Rétturinn til að aftengjast.19 Áður var minnst á að einn fylgifiskur stafrænnar tækni væri að skil á milli vinnu og frítíma minnka, þurrkast jafnvel út. Til að sporna við þessu eigum við að tryggja öllu vinnandi fólki „réttinn til að aftengjast“ vinnunni eftir að vinnutímanum lýkur (með undanþágum fyrir neyðartilvik). Atvinnurekendum bæri þannig að virða að starfsfólk sé utan vinnu eftir að vinnutímanum lýkur og gæti launafólk þá betur hvílt sig á önnum og verkefnum vinnustaðarins. Rannsóknir sýna að fólk sem nær að fjarlægja sig (andlega) frá vinnunni í lok vinnudags hvílíst betur, er framleiðnara og ólíklegra til að kulna í starfi.20 Slíkt er illmögulegt ef áreiti er frá vinnunni sí og æ, hvort sem er í gegnum síma eða aðrar leiðir. Vísir er kominn að þessum rétti í nokkra kjarasamninga, en þyrfti að ná um allan vinnumarkaðinn. Þessi réttur hjálpar okkur að stilla vinnutímanum í hóf í sítengdu nútímasamfélagi.
Þessar tillögur styrkja í sessi gerða kjarasamninga um vinnutíma og auðvelda vinnandi fólki að fjarlægja sig frá vinnunni þegar vinnudeginum er lokið, en hvort tveggja ýtir undir að vinnutímanum sé haldið í skefjum og að vinnudagurinn teygi sig ekki yfir allan daginn (eða hvenær sem vinnutíminn er skipulagður). Þetta tvennt svo aftur hvetur atvinnurekendur til betri skipulagningar í starfsmannahaldi, betri mönnunar þar sem er skortur, meiri sjálfvirknivæðingar og til að virða umsaminn frítíma fólks almennt. Allt hjálpar þetta til við að vel sé hugað að framleiðni á vinnutíma.
Síðari tvær tillögurnar eru af nokkuð öðrum toga en hinar fyrri, því þær snúa meira að tækniþróuninni sjálfri og hvernig við notfærum okkur hana til langs tíma litið.
-
Aukin framleiðni – styttri vinnutími. Draumur allra sem þróa og innleiða nýja tækni er að hún leiði til minni vinnubyrði fyrir fólk og samfélagið allt, og stytti þannig vinnutímann. Raunin er þó að slíkt gerist ekki sjálfkrafa, heldur aðeins fyrir tilstilli samheldni og samtakamáttar samfélagsins – þróunin á Íslandi síðustu árin og áratugi, sem fjallað var um að framan, er prýðilegt dæmi um þetta. Í ljósi þessa og að velmegunin er orðin mjög mikil á Íslandi sem og að tækninni heldur áfram að fleygja fram, er rétt að við prófum okkur áfram með að stytta vinnutímann eftir því sem þróunin gefur okkur kost á því.21 Hugsunin er að láta sjálfvirknina sjá um aukinn hluta vinnunnar, eins og hægt er – við myndum þannig sjá frítímann aukast hægt og rólega eftir því sem framleiðni hagkerfisins ykist. Útfærslan getur verið með ýmsu móti: Lögbundnir frídagar verða fleiri þegar framleiðni hefur aukist visst mikið, sem dæmi. Einnig getum við stytt vinnudaginn eða vinnuvikuna, eftir samkomulagi á vinnustöðum. Þá gætum við komið á vetrarfríi (sjá næsta lið). Ýmsar leiðir eru í boði og það þarf að velja á milli leiða til að gagnist samfélaginu sem best.
-
Vetrarfrí. Rétt eins og fólk á rétt á sumarfríi getum við komið á vetrarfríi. Hugmyndin er sú sama: Hvíld frá vinnu og möguleiki fyrir fólk að koma saman og hittast á meðan það er í fríi. Vetrarfrí sem fellur á sama tíma og vetrarfrí í skólum gæti einnig létt undir með foreldrum skólabarna. Til að byrja með gæti vetrarfríið verið þrír dagar aðfallandi að helgi, en mætti lengja það eftir því sem framleiðni eykst. Og þá gæti verið tilvalið fyrir fólk að lengja vetrarfríið sitt hafi yfirvinna verið unnin mánuðina á undan.
Allar þessar tillögur miða að því að stytta vinnutímann og tryggja að fólk geti raunverulega nýtt sér frítímann sem á að hljótast af. Áhrifin af því að setja þessar tillögur í framkvæmd yrðu margvísleg: Þak á yfirvinnu og rétturinn til að aftengjast myndu minnka streitu í samfélaginu og draga úr kulnun sömuleiðis. Hvort tveggja myndi knýja fyrirtæki og stofnanir til að skipuleggja starf sitt öðruvísi, vera hvati til að velja betur á milli verkefna sem og auka sjálfvirkni. Þótt svoleiðis lagað sé oft erfitt reynist það öllum til hagsbóta þegar því er aflokið. Vetrarfrí og að nýta aukna framleiðni til að stytta vinnutímann myndi stuðla að því að deila vinnunni á fleiri hendur – þótt störf hverfi fyrir tilstilli sjálfvirkni þarf enn að vinna verkin, en á skemmri tíma – ásamt því að stuðla að betri hvíld og þannig ýta undir aukna framleiðni í vinnunni.22 Heilt yfir myndi skapast hvati fyrir vinnandi fólk til að innleiða og styðja við aukna sjálfvirkni, vitandi að vinnutíminn geti styst á móti. Lífsgæði myndu aukast.
Útópía og raunveruleiki – efasemdum svarað
Þær hugmyndir sem ég hef útlistað hér hljóma líklega útópískar í eyrum margra. En það er bara vegna þess að daglegur veruleiki okkar er fjarlægur þessum hugmyndum. Í rauninni er ekkert útópískt við þær: Fyrir rúmlega hálfri öld voru lög og réttindi sem okkur þykja sjálfsögð í dag ekki til eða mun takmarkaðri en raunin er í dag, eins og rétturinn til launaðs sumarleyfis, fæðingarorlofs og einnig lögin um 40 stunda vinnuviku.23 Það kostaði umræður, baráttu og samtakamátt samfélagsins að gera þetta allt að veruleika. Raunin er sú að tillögurnar fjórar að framan eru byggðar á sömu hugsun og hefur tryggt okkur aukin lífsgæði í gegnum áratugina; að það besta fæst út úr hagkerfinu með því að temja það með skynsömum leikreglum í þágu vinnandi fólks. Að bregðast við tækniþróuninni með nýjum og bættum leikregum er þannig beint áframhald af því sem við höfum áður gert í hinum kalda raunveruleika og því hreint engin útópía. Tími er kominn til að við ígrundum leikreglur næstu áratuga, því eru hugmyndirnar settar fram nú.
En kannski hljóma þessar hugmyndir útópískar af allt öðrum ástæðum: Vantar ekki fólk í heilbrigðiskerfið? Á sama tíma og stefnir í að stórar kynslóðir fari á eftirlaun, kynslóðir sem munu þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda. Og áhrifin á hagvöxt – þau yrðu væntanlega neikvæð? Hvernig á allt þetta að geta farið saman við styttri vinnutíma?
Það vantar fólk í heilbrigðiskerfið. Höfuðástæðurnar, eins og er orðið skýrt, eru að vinnuaðstæður í heilbrigðiskerfinu – einkum hinu opinbera – eru óviðunandi, álag er mikið, og laun eru ekki samkeppnishæf miðað við menntun og álag. Oft er vinnutími langur, sem gerir illt verra. Höfum í huga að fólk sem starfar í heilbrigðiskerfinu vill, eins og annað fólk, lifa fjölskyldulífi og eiga frítíma. Það sem þarf er hugarfarsbreyting stjórnmálamanna og hagsmunahópa atvinnulífsins gagnvart heilbrigðiskerfinu – styttri vinnutími í heilbrigðisgeiranum gæti meira að segja hjálpað til við að ráða fólk og halda í við fólk sem og auka ánægju í starfi.
Hvað varðar að margir fari á eftirlaun á næstu árum og áratugum: Nú þegar verið brugðist við þeirri þróun með hækkuðu lífeyrisiðgjaldi og þá stefnir allt í að lífeyrisaldur verði hækkaður.24 Ef eitthvað er myndi aukin sjálfvirknivæðing hjálpa okkur að takast á við að fleiri fari á eftirlaun; færri hendur þarf til að vinna verkin og með því móti mætti kannski koma í veg fyrir að eftirlaunaaldurinn þurfi að hækka enn frekar síðar. Þá getur styttri vinnutími falið í sér málamiðlun fyrir hinar yngri kynslóðir sem þurfa að vinna lengri starfsævi en þær eldri.
Og loks hagvöxtur. Í kjölfar efnahagshrunsins 2008–2010 hefur átt sér stað mikil umræða um hagvöxt, kosti hans og galla. Umræðan hefur hverfst um tvær meginspurningar: a) Hvort endalaus hagvöxtur – endalaus útþensla hagkerfa heimsins – sé gerlegur, eins og dags-dagleg stjórnmálaumræða gerir ráð fyrir. b) Hvort hagvöxtur raunverulega bæti líf fólks í efnuðum samfélögum, eins og því íslenska, sem dæmi. Niðurstaðan er skýr: Endalaus hagvöxtur er ómögulegur, því vistkerfi jarðar ráða ekki við endalaust aukið álag né heldur loftslagið.25 Þetta hafa milliríkjanefndir Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar og vistkerfi tekið undir í sínum skýrslum undanfarin ár,26 og fjölmargir umhverfisfræðingar og umhverfishagfræðingar enn fremur. Tengslin á milli hagvaxtar – síaukinnar neyslu – og loftslagsbreytinga eru óumdeild, aukið álag á vistkerfin enn fremur. Ef eitthvað er, verður að draga úr neyslu. Svarið við síðari spurningunni er einnig skýrt: Hagvöxtur í efnuðum ríkjum hefur takmörkuð eða engin áhrif á lífsgæði og hamingju eftir að vissu marki er náð í tekjum samfélagsins27 – við náðum þessu marki hér á Íslandi fyrir mörgum árum. Önnur vandamál hafa hins vegar birst okkur, sem auðveldlega má tengja við ofuráherslu á hagvöxt, m.a. þau sem voru útlistuð hér að framan: Streita, kulnun, skortur á tíma, mengun og ofneysla.28 Ef við hér á Íslandi myndum beina aukinni framleiðni hagkerfisins í átt að auknum frítíma og frá hagvexti myndum við vinna gegn frekari loftslagsbreytingum af okkar hálfu og bæta líf okkar á þeim sömu sviðum þar sem hagvöxtur hefur neikvæð áhrif.29 Það hversu mikill hagvöxturinn yrði myndi velta á hversu stórum hluta aukinnar framleiðni við sem samfélag nýttum til aukins frítíma fremur en neyslu.
Rétt er að taka fram að hagvöxtur í fátækum ríkjum er allt annars eðlis; áhrif á lífsgæði þar geta verið afgerandi og framangreint á því ekki við um þau.
Af þessu er vonandi ljóst að hugmyndirnar sem hér hafa verið útlistaðar eru engin útópía, heldur praktískt andsvar við mörgum af vandamálum samtímans og framtíðarinnar.
Breytingar og samfélag
Kjaraviðræðurnar sem nú fara í hönd eru heppilegur vettvangur til að ræða tillögurnar sem hér hafa verið settar fram, einkum þær sem taka á yfirvinnuþaki og réttinum til að aftengjast, en það liggur beinast við að samið sé um fyrirkomulag og réttindi sem þessi. Sama gildir um vetrarfrí. Lög má skoða síðar, hvort sem samið er eða ekki.
Tillagan um breytta nýtingu framleiðni er snúnari. Þessa tillögu þarf að ræða nánar í samfélaginu almennt en líka á sviði stéttarfélaga, atvinnulífs og frjálsra félagasamtaka. Við þurfum mjög nauðsynlega að takast á við spurningar sem komið var inn á að framan sem tengjast þessu, s.s. um hagvöxt, umhverfismál, neyslu og hvernig við sem samfélag nýtum ávexti tækniþróunarinnar almennt. Við þurfum að takast á við grundvallarspurningar. Við erum þegar stigin inn í nýja og breytta tíma, með áskoranir sem mæta okkur úr mörgum áttum samtímis – loftslagsbreytingar, fleiri fara á eftirlaun, ofneysla, áframhaldandi tæknibreytingar – sem þýðir að endurskoðun leikreglnanna sem umlykja nýtingu tækniþróunarinnar og hafa þar með áhrif á þróun samfélagsins er bæði æskilegur og nauðsynlegur hluti þess að takast á við þessar áskoranir. Alda – félag um sjálfbærni og lýðræði hefur þegar hvatt ráðherra félags- og vinnumarkaðsmála sem og forsætisráðherra í skriflegu bréfi til að koma upp hópi fulltrúa stéttarfélaga, frjálsra félagasamtaka og atvinnulífsins sem yrði leiddur af erlendum fræðimanni til að skoða þessi mál ítarlega.30 Hluti innlegs stjórnvalda í komandi kjaraviðræðum gæti falist í að koma upp slíkum hópi.
Nokkur íslensk stéttarfélög hafa lagt fram kröfugerðir fyrir komandi kjaraviðræður sem kveða á um styttri vinnuviku, sumar fjalla um 32 stunda vinnuviku.31 Það er vel, og rökrétt framhald af síðustu kjarasamningum og þeim samfélagsbreytingum sem eru að eiga sér stað um hinn vestræna heim. En til að 32 stunda vinnuvika verði gerleg um samfélagið í heild verðum við þó að taka höndum saman og ræða breytingar á samfélaginu í þeim anda sem hér hafa verið teiknaðar upp.
Við sem samfélag höfum verið meðvituð í meira en áratug – frá hruninu 2008, lengur jafnvel – að við þurfum að breyta því hvernig við lifum og rekum samfélagið okkar. Frá þeim tíma hafa áskoranirnar aðeins magnast. Undanfarin misseri hefur opnast meira fyrir umræðu víða um heim sem og á Íslandi um hvernig megi breyta samfélögum. Hugmyndirnar sem hér hafa verið teiknaðar upp eru hugsaðar sem innlegg í þá umræðu. Mannleg hugsun er til alls fyrst.
Mynd: Matheus Bertelli / Pexels
Tilvísanir og heimildir
Tilvísanir
1. Sjá til dæmis: Jones (apríl 2022). ILO (2019). Stronge og Archela (2018).
2. Guðmundur D. Haraldsson (2021). Kollewe (6. júní 2022). Jolly (19. september 2022).
3. Varðandi tækniþróunina almennt, sjá Gordon (2016).
4. Varðandi styttinguna, einkum í hinum opinbera geira, sjá BSRB (e.d.). – Sjá einnig Guðmundur D. Haraldsson og Kellam (júní 2021).
5. Varðandi sveigjanleika, sjá Messenger (2018).
6. Um áhrif á vinnu almennt, sjá: PwC (2018). ILO (2019). Frey og Osborne (17. september 2013). – Um áhrif á vinnutíma og félagslega þætti, sjá Messenger (2018). – Um útópíska möguleika sem þessi þróun hefur í för með sér, sjá Srnicek og Williams (2015).
7. Huginn Freyr Þorsteinsson, Guðmundur Jónsson, Ragnheiður Hrefna Magnúsdóttir, Lilja Dögg Jónsdóttir og Kristinn R. Þórisson (febrúar 2019).
8. Acemoglu og Restrepo (júní 2021).
9. Sjá umræðu meðal annars hjá endurskoðunarfyrirtækinu Deloitte: Deloitte (2018). – Og hjá McKinsey & Company: Alexander, de Smet, Langstaff og Ravid (1. apríl 2021).
10. Varðandi kulnun grunnskólakennara, sjá Sif Einarsdóttir, Regína Bergdís Erlingsdóttir, Amalía Björnsdóttir og Ásta Snorradóttir (13. nóvember 2019). – Um kulnun heilbrigðisstétta, sjá til dæmis Laufey Sæunn Birgisdóttir (júní 2018). – Um kulnun meðal tannlækna, sjá Óskar Marinó Sigurðsson (2012).
11. Sjá vef VR (e.d.).
12. Um kulnun almennt, sjá: Maslach og Leiter (2016).
13. Varðandi styttingu eftir atvinnugreinum, sjá: Kjaratölfræðinefnd (apríl 2021).
14. Sameyki hefur gefið út efni um skoðanakannanir um styttinguna: Sameyki (13. maí 2022). Sameyki (17. maí 2022).
15. Guðmundur D. Haraldsson (3. febrúar 2013) og Guðmundur D. Haraldsson (1. mars 2013).
16. Sjá til dæmis: Srnicek og Williams (2015). Stronge og Lewis (2021).
17. Þetta er á svipuðum nótum og Messenger (2018) hefur fjallað um.
18. Gylfi Zoega (2018) hefur sett fram svipaðar hugmyndir.
19. ILO (2019) setja fram sömu tillögu. – Rétturinn til að aftengjast er á döfinni hjá BSRB, sjá BSRB (15. júní 2021). – sem og BHM, sjá Jóhann Gunnar Þórarinsson (24. apríl 2021).
20. Binnenwies, Sonnentag og Mojza (2010). Sonnentag (2012).
21. Messenger (2018) setur fram svipaðar hugmyndir.
22. Varðandi áhrif hvíldar, sjá: Messenger (2018), bls. 25–28. Binnenwies, Sonnentag og Mojza (2010). Golden (2012). – Um heildaráhrifin á hagkerfið, sjá Cette, Chang og Konte (janúar 2011).
23. Sumarliði R. Ísleifsson (2013).
24. Sjá frétt á Kjarnanum um hækkum lífeyrisiðgjalds: Kjarninn (3. júlí 2018) – Um hækkun lífeyristökualdurs, sjá: Magnús Halldórsson (11. janúar 2020).
25. Jackson (2009/2011).
26. IPCC (2022).
27. Jackson (2009/2011), einkum bls. 49–65. Wilkinson og Pickett (2009/2010), einkum bls. 3–14. Easterlin (23. maí 2003).
28. Sbr. Jackson (2009/2011) og Wilkinson og Pickett (2009/2010).
29. Sbr. Schor (2010).
30. Félagið hefur einnig gefið út efni um hið sama, sjá Alda – félag um sjálfbærni og lýðræði (2. október 2021).
31. Tryggvi Páll Tryggvason (24. ágúst 2022). Helgi Bjarnason (27. september 2022).
Heimildir
Acemoglu, D. og Restrepo, P. (júní 2021). „Tasks, automation, and the rise in US wage inequality.“ NBER Working paper 28920. https://www.nber.org/papers/w28920
Alda – félag um sjálfbærni og lýðræði (2. október 2021). „Loftslagsbreytingar, sjálfvirknivæðing og styttri vinnuvika: Tökum næstu skref“. Reykjavík: Alda. https://alda.is/2021/10/04/loftslagsbreytingar-sjalfvirknivaeding-og-styttri-vinnuvika-tokum-naestu-skref/
Alexander, A., de Smet, A., Langstaff, M., og Ravid, D. (1. apríl 2021). „What employees are saying about the future of remote work.“ https://www.mckinsey.com/capabilities/people-and-organizational-performance/our-insights/what-employees-are-saying-about-the-future-of-remote-work
Binnenwies, C., Sonnentag, S. og Mojza, E. J. (2010). „Recovery during the weekend and fluctuations in weekly job performance: A week-level study examining intra-individual relationships.“ Journal of Occupational and Organizational Psychology, 83, 419-441.
BSRB (e.d.). „Stytting vinnuvikunnar“. https://www.bsrb.is/is/stytting-vinnuvikunnar.
BSRB (15. júní 2021). „Skýr réttur starfsfólks til að aftengjast“. https://www.bsrb.is/is/frettakerfi/skyr-rettur-starfsfolks-til-ad-aftengjast
Cette, G., Chang, S. og Konte, M. (janúar 2011). „The Decreasing Returns on Working Time: An Emperical Analysis on Panel Country Data.“ Document de Travail N° 315. Banque de France.
Deloitte (2018). „Burnout Survey“. https://www2.deloitte.com/us/en/pages/about-deloitte/articles/burnout-survey.html.
Easterlin, R. A. (23. maí 2003). „Explaining Happiness.“ PNAS, 100, (19), bls. 11176-11183.
Frey, C. B og Osborne, M. A. (17. september 2013). „The Future of Employment: How susceptible are jobs to computerisation?“ https://www.oxfordmartin.ox.ac.uk/publications/the-future-of-employment/ – Um áhrif á vinnutíma og félagslega þætti, sjá: Messenger, J (2018).
Golden, L. (2012). „The Effects of Working Time on Productivity and Firm Performance: a Research Synthesis Paper.“ Geneva: International Labour Organization.
Gordon, R. J. (2016). „The Rise and Fall of American Growth. The U.S. Standard of Living Since the Civil War.“ New Jersey: Princeton University Press.
Guðmundur D. Haraldsson (3. febrúar 2013). „Ísland: Langur vinnutími, lélegt kaup.“ Stundin, blogg. https://stundin.is/blogg/gudmundurd/island-langur-vinnutimi-lelegt-kaup/
Guðmundur D. Haraldsson (1. mars 2013). „Stytting vinnutíma: Lífskjarabót fyrir almenning“ Stundin, blogg.
Guðmundur D. Haraldsson og Kellam, J. (júní 2021). „Going Public: Iceland’s Journey to a Shorter Working Week.“ Crookham Village: Autonomy. https://en.alda.is/2021/07/04/going-public-icelands-journey-to-a-shorter-working-week/
Guðmundur D. Haraldsson (2021). „Heimsfaraldurinn og fjögurra daga vinnuvika: Eru breytingar í aðsigi?“ Tímarit máls og menningar, 82 (1), 109–122.
Gylfi Zoega (2018). „Staða efnahagsmála í aðdraganda kjarasamninga“. Reykjavík: Háskóli Íslands. https://www.stjornarradid.is/efst-a-baugi/frettir/stok-frett/2018/08/24/Ny-skyrsla-um-stodu-efnahagsmala-i-addraganda-kjarasamninga/
Helgi Bjarnason (27. september 2022). „Endar með fjögurra daga viku“. Mbl.is. https://www.mbl.is/frettir/innlent/2022/09/27/endar_med_fjogurra_daga_viku/
Huginn Freyr Þorsteinsson, Guðmundur Jónsson, Ragnheiður Hrefna Magnúsdóttir, Lilja Dögg Jónsdóttir og Kristinn R. Þórisson (febrúar 2019). „Ísland og fjórða iðnbyltingin“. Reykjavík: Stjórnarráð Íslands, Forsætisráðuneytið. https://www.stjornarradid.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=03be6340-3bfc-11e9-9436-005056bc4d74f
ILO [Alþjóða vinnumálastofnunin] (2019). „Work for a Brighter Future. Global Commission on the Future of Work.“ https://www.ilo.org/global/publications/books/WCMS_662410/lang--en/index.htm – Stronge, W. og Archela, D. G. (2018). „Exploring our latent potential“. https://autonomy.work/wp-content/uploads/2018/10/Stronge_et_al-2018-IPPR_Progressive_Review.pdf
IPCC (2022). „Summary for Policymakers.“ Í P. R. Shukla, J. Skea, R. Slade, A. Al Khourdajie, R. van Diemen, D. McCollum, M. Pathak, S. Some, P. Vyas, R. Fradera, M. Belkacemi, A. Hasija, G. Lisboa, S. Luz, J. Malley, (ritstj.). Climate Change 2022: Mitigation of Climate Change. Contribution of Working Group III to the Sixth Assessment Report of the Intergovernmental Panel on Climate Change. Cambridge: Cambridge University Press.
Jackson, T. (2009/2011). „Prosperity without Growth: Economics for a Finite Planet“. London: Earthscan.
Jolly, J. (19. september 2022). „Four-day week could alleviate cost of living crisis, thinktank claims“. The Guardian. https://www.theguardian.com/business/2022/sep/19/four-day-week-could-alleviate-cost-of-living-crisis-thinktank-claims
Jones, P. (apríl 2022). „Universal Workers’ Rights“. Crookham Village: Autonomy. https://autonomy.work/portfolio/universal-workers-rights/
Jóhann Gunnar Þórarinsson (24. apríl 2021). „Ert þú aftengdur?“ https://www.bhm.is/um-bhm/greinar-og-pistlar/ert-thu-aftengdur
Kjaratölfræðinefnd (apríl 2021). „Kjaratölfræði: Vorskýrsla 2021.“ Reykjavík: Kjaratölfræðinefnd. https://www.ktn.is/copy-of-lotan-2019-2020
Kjarninn (3. júlí 2018). „Mótframlag atvinnurekenda í lífeyrissjóð hækkar“. https://kjarninn.is/frettir/2018-07-03-motframlag-atvinnurekenda-i-lifeyrissjod-haekkar/
Kollewe, J. (6. júní 2022). „Thousands of UK workers begin world’s biggest trial of four-day week“. The Guardian. https://www.theguardian.com/business/2022/jun/06/thousands-workers-worlds-biggest-trial-four-day-week
Laufey Sæunn Birgisdóttir (júní 2018). „Við eigum að kunna allt: Streita, kulnun og bjargráð hjúkrunarfræðinga í heilsugæslu.“ Meistararitgerð í heilbrigðisvísindum við Háskólann á Akureyri. https://skemman.is/handle/1946/31124
Magnús Halldórsson (3. janúar 2020). „Hækka þarf lífeyrisaldurinn um 3 til 6 ár“. https://kjarninn.is/frettir/2020-01-11-haekka-tharf-lifeyrisaldurinn-um-3-til-6-ar/
Maslach, C. og Leiter, M. P. (2016). Burnout. Í George Fink (ritstj.). Stress: Concepts, Cognition, Emotion and Behavior. Handbook of Stress Series, Volume 1 (bls. 351-357). London: Academic Press.
Messenger, J. (2018). „Working time and the future of work“. Geneva: ILO.
Óskar Marinó Sigurðsson (2012). „Kulnun meðal tannlækna.“ Tannlæknablaðið, 30, 7-16.
PwC (2018). „Will robots really steal our jobs? An international analysis of the potential long term impact of automation.“ https://www.pwc.co.uk/services/economics/insights/the-impact-of-automation-on-jobs.html
Sameyki (13. maí 2022). „Ánægja með styttingu vinnuvikunnar hjá félagsfólki Sameykis í dagvinnu.“ https://www.sameyki.is/frettir/stok-frett/2022/05/13/Anaegja-med-styttingu-vinnuvikunnar-hja-felagsfolki-Sameykis-i-dagvinnu/
Sameyki (17. maí 2022). „Mesta óánægjan hjá vaktavinnufólki þar sem innleiðingarferlinu var ekki fylgt“. https://www.sameyki.is/frettir/stok-frett/2022/05/17/Oanaegja-thar-sem-innleidingarferlinu-var-ekki-fylgt/
Schor, J. B. (2010). „Plentude: The New Economics of True Wealth“. New York: The Penguin Press.
Sif Einarsdóttir, Regína Bergdís Erlingsdóttir, Amalía Björnsdóttir og Ásta Snorradóttir (13. nóvember 2019). „Kulnun kennara og starfsaðstæður: Þróun og samanburður við aðra opinbera sérfræðinga.“ Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun. https://netla.hi.is/greinar/2019/ryn/12.pdf
Sonnentag,S. (2012). „Psychological Detachment From Work During Leisure Time: The Benefits of Mentally Disengaging From Work.“ Current Directions in Psychological Science, 21 (2), 114-118.
Srnicek, N. og Williams, A. (2015). „Inventing the Future: Postcapitalism and a World Without Work.“ London: Verso.
Stronge, W. og Archela, D. G. (2018). „Exploring our latent potential“. https://autonomy.work/wp-content/uploads/2018/10/Stronge_et_al-2018-IPPR_Progressive_Review.pdf
Stronge, W. og Lewis, K. (2021). „Overtime: Why We Need a Shorter Working week.“ London: Verso.
Sumarliði R. Ísleifsson (2013). „Saga Alþýðusambands Íslands: Til Velferðar.“ Reykjavík: Forlagið. Sjá einkum bls. 101–157.
Tryggvi Páll Tryggvason (24. ágúst 2022). „VR krefst fjögurra daga vinnuviku og aðkomu stjórnvalda“. Vísir.is. https://www.visir.is/g/20222301863d/vr-krefst-fjogurra-daga-vinnu-viku-og-ad-komu-stjorn-valda
VR (e.d.). „Brotnaði niður á tískuvikunni í Kaupmannahöfn“ https://old.vr.is/um-vr/thekktu-thin-mork/greinar-og-vidtol/ingibjorg-reynisdottir/
Wilkinson, R. og Pickett, K. (2009/2010). „The Spirit Level:Why Greater Equality Makes Societies Stronger.“ London: Bloomsbury Press.
Athugasemdir