Gunnar Eyjólfsson leikari er dáinn. Hann var orðinn gamall svo við þessu mátti efalaust búast en samt er strax dálítið tóm í hjartanu þar sem Gunnar hafði hreiðrað um sig til frambúðar.
Í nokkur ár hitti ég hann reglulega, það stóð til að ég skrifaði ævisögu hans og það verður mér til ævarandi skammar að hafa ekki klárað það verk. En sem betur fer fékk hann að lokum annan og betri höfund til að aðstoða sig við verkið og það var þeim báðum til mikils sóma.
En þessi ár voru mér ógleymanleg. Hann sagði mér sögur sem ég mun aldrei gleyma en mest var um vert að fá að kynnast honum sjálfum.
Gunnar var á margan hátt stórbrotinn maður, hann var leiftrandi skemmtilegur, litríkur og ástríðufullur, sagnamaður í algjörum sérflokki, en það sem þó einkenndi hann mest og best var örlætið.
Hið andlega örlæti sem hann átti nóg af fyrir alla.
Og þótt hann segði mér frá ótal persónum sem hann hafði hitt og þekkt um ævina, bæði fyrr og síðar, þá lá honum ekki illt orð til neins.
Þvert á móti reyndi hann ævinlega að sjá eitthvað fallegt og jákvætt í fari allra sem hann sagði mér frá.
Og tókst það nærri alveg undantekningarlaust.
Ég er ekki að ýkja, þetta var svona.
Honum blöskraði dónaskapur í einni kellíngu á æskuárunum suðrí Keflavík og átti greinilega örlítið erfitt með að hrósa einum kalli sem hann kynntist líka snemma á ævinni, en annað var það ekki.
Slíkur maður var Gunnar Eyjólfsson.
„Þá kemur mér hann í hug er ég heyri góðs manns getið; hann reyndi ég svo að öllum hlutum.“
Konunni hans - sem má vita að hann fékk ævinlega svo hlýjan glampa í auga þegar hann minntist á hana - dætrum hans, sem hann var svo innilega stoltur af, barnabörnum og öðrum aðstandendum votta ég mína dýpstu samúð.
En þau eru líka lukkunnar pamfílar að hafa fengið að kynnast slíkum manni.
Athugasemdir