Hvað vissi eiginlega Útlendingastofnun um Ali Nasir áður en lögreglunni var sigað á hann í síðustu viku?
Líklega ósköp fátt. Stofnunin hafði nefnilega neitað að taka máls hans til efnismeðferðar á grundvelli heimildarinnar í Dyflinnarreglugerðinni sem óspart er notuð til að sparka nauðstöddu fólki úr landi.
Þegar samúð vaknaði með Ali í kjölfar fjölmiðlaumfjöllunar greip Útlendingastofnun til sinna takmörkuðu upplýsinga og notfærði sér þær til að gera hann tortryggilegan.
Fyrst birti Mbl.is frétt um að Ali væri „ekki sextán ára, líkt og haldið hefur verið fram í fréttum Stundarinnar og Ríkisútvarpsins í dag, heldur yfir lögaldri“.
Þetta „staðfesti“ starfsmaður Útlendingastofnunar í samtali við Morgunblaðið sem vísaði jafnframt í málsgögn úr hælismáli Alis.
Síðar sama dag sendi Útlendingastofnun út fréttatilkynningu:
„Í fjölmiðlum hefur því verið haldið fram að annar umsækjendanna sé 16 ára gamall og því barn að aldri. Þetta er ekki rétt. Mennirnir eru báðir eldri en átján ára.“
Vísað var til „fyrirliggjandi gagna í málinu“ og „framburðar mannanna fyrir stjórnvöldum þar sem þeir staðfestu aldur sinn“.
Daginn eftir birti svo Morgunblaðið þessa mynd, sem samræmist vel leiðaraskrifum blaðsins í gegnum tíðina og minnir helst á áróðursteikningar sem voru áberandi í Þýskalandi á fjórða áratug síðustu aldar:
Þegar gerðar voru athugasemdir við það háttalag Útlendingastofnunar að nota trúnaðarupplýsingar úr viðtölum og málsgögnum gegn hælisleitendum, að því er virðist til þess að draga úr samúð almennings gagnvart þeim (‘sjáið bara, þeir eru sko engin börn!’), sagðist stofnunin – sem sjaldnast vill „tjá sig um einstaka mál“ – telja sér „heimilt að leiðrétta rangfærslur sem hafðar eru í frammi“.
Í gær birti Stundin skjöl frá foreldrum Alis í Írak, afrit af vegabréfi og nafnskírteini sem benda til þess að hann sé fæddur þann 9. febrúar árið 2000. Séu pappírarnir ósviknir er ljóst að hvorki Ali sjálfur né vinir hans höfðu neinar rangfærslur í frammi í samskiptum við fjölmiðla.
Mál Alis virðist einfaldlega vera miklu flóknara heldur en virtist í fyrstu.
Ali segist ekki hafa þorað að tjá yfirvöldum að vegabréfið hans væri falsað af ótta við að lenda í fangelsi. Áhyggjur hans eru skiljanlegar, enda hefur íslenska ríkið um árabil fangelsað flóttafólk fyrir að koma til landsins á fölsuðum skilríkjum í trássi við 31. gr. flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna.
Með hentistefnu sinni í upplýsingagjöf senda auðvitað yfirvöld skýr skilaboð.
Árið 2013 lak innanríkisráðuneytið óljósum, og að hluta til röngum, upplýsingum um hagi nígerísks fólks sem leitað hafði skjóls á Íslandi.
Nú mega hælisleitendur líka eiga von á því að það sem þeir trúa yfirvöldum fyrir í viðtölum verði notað gegn þeim í fréttatilkynningum.
Og þar að auki vílar vararíkissaksóknari ekki fyrir sér að deila upplýsingum, sem sagðar eru hafa komið fram í yfirheyrslum lögreglu yfir mönnum sem voru handteknir, fyrir alþjóð til að koma höggi á fólk sem hjálpar flóttafólki.
Óháð því hvort Ali er 16 ára eða 19 ára hefur enn enginn andmælt því að hann hafi búið í Karada í Bagdad áður en hann flúði frá Írak. Svæðið rataði í fréttir síðustu helgi þegar hátt í 300 manns létu þar lífið í einhverri mannskæðustu hryðjuverkaárás írakskrar samtímasögu. Í gærkvöldi réðust svo hryðjuverkamenn, vopnaðir sprengjuvörpum og byssum, inn í bænahús í Bagdad og drápu tugi óbreyttra borgara. Íslamska ríkið hefur lýst ábyrgð á ódæðunum, en eins og margsinnis hefur verið bent á má að miklu leyti rekja uppgang hryðjuverkasamtakanna og það hörmungarástand sem ríkir í landinu, til Íraksstríðsins sem Ísland studdi með ráð og dáð.
Við berum ábyrgð gagnvart krökkum eins og Ali. Ekki bara vegna þess að Ísland lagði blessun sína yfir hernaðaraðgerðirnar sem breyttu Írak í helvíti, heldur vegna þess að okkur ber siðferðileg skylda til að hjálpa fólki sem er hjálparþurfi. Þetta vitum við flest innst inni. Þess vegna finnst okkur óþægilegt að sjá einkennisklædda menn draga ungling út úr byggingu og þrýsta honum grátandi inn í lögreglubíl og þess vegna vill saksóknarinn að svoleiðis atburðir séu ósýnilegir.
Á þessu árinu hefur lögregla fylgt að meðaltali fimm hælisleitendum á viku úr landi að beiðni Útlendingastofnunar. Flest málanna liggja í þagnargildi en eitt og eitt þeirra ratar í fjölmiðla og vekur hneykslan – veiku börnin sem er synjað um hæli, harðræðið gegn fórnarlambi Boko Haram á Keflavíkurflugvelli, ólétta konan frá Nígeríu og börnin hennar sem á að senda burt – og við blasir vond útlendingastefna, andstæð hvers kyns kröfum um náungakærleik og mannlega reisn.
Útlendingastofnun starfar í skjóli laga frá Alþingi og reglugerða frá ráðherra. Stjórnmálamenn bjuggu kerfið til og halda því gangandi. Íslensk stjórnvöld munu halda áfram að eyðileggja líf fólks og sparka af alefli í krakka eins og Ali Nasir þar til tekið verður í taumana.
Athugasemdir