Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra talar eins og það sé náttúrulögmál að skattbyrði lægri og milli tekjuhópa hækki ef laun þeirra hækka.
Hann undanskilur hins vegar hátekjufólk (hæstu tuttugu prósentin), því þar hafa tekjur hækkað mest allra – en skattbyrðin samt lækkað!
Villan í þessum málflutningi Bjarna er sú, að ef viðmið skattkerfisins (persónuafsláttur, frádrættir og mörk álagningarþrepa) fylgja meðaltali launaþróunarinnar frá ári til árs, þá væri skattbyrðin óbreytt fyrir alla tekjuhópa – þrátt fyrir launabreytingar.
Það var ákvörðun hans sem fjármálaráðherra að láta viðmiðin einungis fylgja verðþróuninni, en ekki launaþróuninni, og því verður skattbyrðin þyngri þegar laun lægri og milli hópa hækka.
Aukin skattbyrði átta af hverjum tíu skattgreiðenda er því bein afleiðing af pólitískri ákvörðun Bjarna sjálfs.
Til dæmis hafa vaxtabætur vegna húsnæðisskulda stórlækkað í stjórnartíð Bjarna og það hefur sérstaklega stuðlað að hærri skattbyrði hjá ungu og tekjulágu fjölskyldufólki, því vaxtabætur dragast frá álögðum tekjuskatti.
En mest hrópandi er þó sú mótsögn í máli Bjarna, sem fram kemur þegar hátekjuhópurinn er skoðaður (sjá gögn Indriða H. Þorlákssonar f.v. ríkisskattstjóra um þetta í Stundinni).
Tekjur hátekjufólksins hafi hækkað mest, en skattar þeirra samt lækkað!
Það segir líklega allt sem segja þarf um hlutdrægni “náttúrulögmálanna” hjá Bjarna Benediktssyni, að hann einfaldlega horfir framhjá útkomunni hjá hátekjufólkinu, sem hann ívilnaði sérstaklega umfram aðra.
Skattalækkun hátekjufólks tengist öðru fremur aflagningu auðlegðarskatts, lækkun veiðigjalda og aukningu fjármagnstekna (sem bera lægri skattbyrði en launatekjur).
Það virðist því sem “náttúrulögmálið” nái ekki til hátekjuhópanna í hugsun fjármálaráðherrans.
Hátekjufólkið er í öðrum heimi en lýðurinn – ef til vill í heimi ráðherrans sjálfs...
Athugasemdir