Félagsfræðingurinn Zygmunt Bauman á stórmerkilega ævi að baki, en hann er nú níræður. Hann fæddist í Póllandi og er af Gyðingaættum. Fjölskylda hans flúði til Sovétríkjanna þegar Þjóðverjar gerðu innrás í Pólland í september 1939. Hann var svo rekinn úr kennarastöðu þar eystra árið 1967 þegar hagur Gyðinga í Sovétríkjunum versnaði. Þá flutti hann til Bretlands og hefur búið þar síðan.
Á vefsíðu spænska stórblaðsins El País birtist fyrir fáeinum dægrum viðtal við Bauman þar sem hann „fer yfir stöðuna“ í heiminum á þeim tímamótum sem níðræðisafmæli hans er. Bauman er greinilega gáfaður maður og full ástæða til að kynna sér viðhorf hans; viðtalið birtist hér.
Ég hef veitt því athygli að niðurlag viðtalsins virðist vekja mesta athygli og síðustu orðum Baumans er nú dreift í óða önn á samfélagsmiðlunum og margir virðast kinka kolli í huganum.
Bauman segir þar, í lauslegri þýðingu:
„Samfélagsmiðlarnir kenna okkur ekki samræður því þar er svo auðvelt að forðast umdeild atriði ... En flestir nota samfélagsmiðlana ekki til að sameinast, ekki til að gera sjóndeildarhring sinn víðari, heldur þvert á móti - til að búa sér til sitt griðland („comfort zone“) þar sem eina hljóðið sem fólk heyrir er bergmálið af þess eigin rödd, þar sem það sem fólk sér er spegilmyndin af andliti þess sjálfs. Samfélagsmiðlarnir eru afar gagnlegir, þeir veita ánægju, en þeir eru gildra.“
Þetta er sá kafli viðtalsins sem helst er dreift. Og ég skil eiginlega ekki af hverju, vegna þess að með fullri virðingu fyrir Bauman þá finnst mér þetta vera alrangt.
Auðvitað er það rétt hjá Bauman að fullt af fólki notar samfélagsmiðlana fyrst og fremst sem griðastað til að kjafta við vini og ættingja með sameiginleg áhugamál og dreifa myndum af kettlingum. Ég geri það sjálfur og skammast mín ekki hót.
En fólk sem notar samfélagsmiðlana EINGÖNGU til þess, það er reyndar varla fólk sem án samfélagsmiðlanna hefði staðið á götuhornum og átt í djúpum og innihaldsríkum samræðum við gerólíkt fólk um samfélagið og vandamál þess.
Í hverju samfélagi er alltaf viss prósenta sem ekki hefur tíma, áhuga eða þrek til að taka þátt í samfélagsumræðu. Það er líka allt í lagi - mönnum ber engin skylda til þess, þótt auðvitað sé æskilegt að sem flestir taki þátt og fylgist með og leggi sitt til málanna.
Og ég ætla einfaldlega að leyfa mér að fullyrða að vegna samfélagsmiðlanna sé sá hópur sem fylgist með og tekur þátt, hver á sinn hátt, hann sé miklu stærri en nokkru sinni fyrr.
Sumir búa sér til sitt griðasvæði, já, mikil ósköp, en landamerkin á samfélagsmiðlunum og netinu yfirleitt eru svo sveigjanleg og teygjanleg að aðeins með mjög einbeittum vilja kemst maður hjá því að heyra sífellt aðrar raddir en sína eigin.
Samfélagsmiðlarnir og netið eru hávaðasamt fuglabjarg, okkur líkar ekkert allt sem við sjáum þar og heyrum, og okkur á heldur ekkert að líka það allt, en að þessi fyrirbæri auki samfélagslega einsleitni og einangrun fólks sem annars væri úti að kynna sér önnur sjónarmið, það er einfaldlega alrangt, og ég skil ekki alveg hvað það er sem fólki líkar svo við í þessum orðum Baumans.
Hér má hafa það bak við eyrað að ný tækni og nýir samskiptahættir hafa alltaf og frá upphafi mætt þeirri gagnrýni að þeir geri andlegt líf fólks fátækara en fyrr.
En raunin hefur alltaf orðið þveröfug.
Athugasemdir