Um aldamótin reyndist 2000-vandinn ekki jafn voðalegur og búist hafði verið við, en í mínu lífi markaði árið 2000 straumhvörf. Þetta ár átti sér stað atburður sem breytti lífi mínu til frambúðar og enn sér ekki fyrir endann á afleiðingum hans. Í maí var systir mín svipt lífi af manni sem hún þekkti ekki neitt. Þetta var ekki í fyrsta sinn sem ég varð fyrir missi en þetta var sárasti missirinn og hafði bein áhrif á allt mitt líf og minna nánustu.
Það er mjög erfitt að lýsa því hvernig það var fyrir mig að upplifa að mín einasta alsystir væri dáin og ég sæi hana aldrei aftur en það var ekki síður erfitt að horfa upp á missi foreldra minna. Án þess að gera lítið úr mínum missi held ég nefnilega að það sé ekkert jafn hræðilegt og að missa barnið sitt. Ég gleymi aldrei nístandi öskrum móður minnar og hvernig hún brotnaði niður og varð að engu. Þetta varð því einnig dagurinn sem ég missti mömmu mína. Mömmu mína eins og ég þekkti hana áður, því hún varð aldrei söm á ný eftir þetta áfall.
„Ég gleymi aldrei nístandi öskrum móður minnar og hvernig hún brotnaði niður og varð að engu. Þetta varð því einnig dagurinn sem ég missti mömmu mína.“
Sorg á sér margar birtingarmyndir. Hún er lamandi, skelfileg og nístandi en mig óraði aldrei fyrir því hversu mikil líkamleg áhrif geta líka orðið. Það er margt í móðu þessa fyrstu daga en annað man ég eins og það hefði gerst í gær. Einhvern fyrstu dagana varð ég brjálæðislega lasin; fékk háan hita og lá bara fyrir og gat mig hvergi hrært. Þegar ég hafði jafnað mig á þeim veikindum tók óttinn og kvíðinn við. Kvöldið eftir kistulagninguna fékk ég mitt fyrsta ofsakvíðakast. Ég var heima með son minn og hafði ekki hugmynd um hvað amaði að mér. Ég var viss um að ég væri að fá heilablóðfall og myndi deyja í svefni svo ég bað pabba að koma yfir og gista í sófanum svo sonur minn myndi nú ekki þurfa að vakna einn með látna móður í rúminu. Daginn eftir leitaði ég læknis sem sagði mér hvernig í pottinn væri búið en óttanum lauk ekki þar því við tók hræðsla við dauðann sem var svo svæsin að það má helst líkja henni við geðveiki. Í ofanálag sá ég ítrekað síðustu andartök lífs sytur minnar fyrir mér aftur og aftur og aftur. Þessar myndir birtust mér hvort sem var að nóttu eða degi en dofnuðu með tímanum.
Fráfall náinna ástvina hafa víðtæk áhrif á þá sem eftir standa. Maður veit ekki hvenær eða hvort maður á eftir að hlæja aftur og þegar það kemur að því að hláturinn snýr aftur fær maður samviskubit. Maður kann ekki lengur að halda jólin og samskipti innan fjölskyldunnar brenglast. Snemma kemst maður að því að erfiðasti hjallinn er ekki endilega sá að fá sorgarfréttirnar, halda útför eða mæta í kistulagninguna, heldur að þurfa að lifa með missinum alla ævi. Maður syrgir það sem var; manneskjuna sjálfa og liðna atburði. Við systurnar að horfa saman á arfaslöku sápuóperuna Santa Barbara eða að spila Mix Max í náttfötunum. Maður syrgir litlu stelpuna sem var svo hugrökk úti á róluvelli, skrifaði sögur í frístundum og spurði látlausra spurninga á meðan við horfðum á sjónvarpið. En svo syrgir maður líka það sem aldrei verður. Ósjálfrátt gerir maður ráð fyrir því að eyða saman tíma í framtíðinni, að börnin okkar verði náin og að líf okkar verði samtvinnuð. Maður syrgir það að hún fá ekki að upplifa allskonar. Eignast börn, lenda í ævintýrum, finna ástina eða skrifa metsölubók.
Það leita á mann áleitnar spurningar. Af hverju í ósköpunum gerðist þetta? Til hvers? Það eru alltaf einhverjir sem reyna að segja manni að það sé einhver tilgangur. En það er enginn tilgangur. Dauði 21 árs gamallar stúlku er tilgangsleysið í sinni tærustu mynd og eftir sitja aðstandendur í rjúkandi rúst. Lífið verður aldrei samt á ný. En eitt veit ég með vissu. Það lagast ekkert af sjálfu sér. Tíminn mildar vissulega sár en til að halda áfram með lífið þarf maður að fá aðstoð, hvar sem maður finnur hana. Og það er fleira sem ég hef komist að. Það er talað um að ekki sé lagt meira á fólk en það þoli. Það er bara ekki satt.
Athugasemdir