Sviðið er kosningaskrifstofa Framsóknarflokksins. Við borð sitja Framsóknarmaður og Auglýsingamaður.
F: Jæja, Auglýsingamaður, hvernig ætlarðu að redda þessu fyrir okkur? Það eru allir að bíða eftir stóra innantóma kosningaloforðinu okkar. Það hefur oft tekist vel hjá þér: Leiðréttingin, hrægammarnir, 90 prósent lánin, fíkniefnalaust Ísland. Þú verður að fara að finna upp á einhverju núna!
A: Já, ja, sko, það er einhvern veginn ekkert mjög mikil stemmning í kringum ykkur núna, kæri Framsóknarmaður, og erfitt að finna eitthvað almennilegt.
F: Ja, þú verður að finna eitthvað. Þórólfur vill fá sína þingmenn!
A: Ókei, hvað dettur okkur í hug? „Útrýmum spillingu“? Eee, nei, kannski ekki alveg. En skattar, eigum við að prófa eitthvað í sambandi við skatta? Fólk hefur alltaf gaman af að láta ljúga einhverju að sér um skattalækkanir.
F: Jú, það hljómar ágætlega. Hvað gæti það verið?
A: Tja, hvernig væri til dæmis … „Framsókn ætlar að lækka skatta á meðaltekjur“? Pöpullinn gæti fílað það. Og nefna svo einhverja flotta tölu, til dæmis „25 prósenta skatta á meðaltekjur,“ eitthvað svoleiðis?
F: Já, þarna ertu kannski með eitthvað. En þurfum við ekki að útfæra þetta eitthvað?
A: Neinei, algjör óþarfi, Framsóknarmaður. Þetta er ágætt sándbæt í útvarpsauglýsingum og passar akkúrat á skjáauglýsingar og sona. Fólk kaupir þetta örugglega. Eða alveg nógu margir, hugsa ég.
F: Ókei, Framsókn vill lækka skatta á meðaltekjur, það er þá slagorðið.
A: Maður fær ekkert í hnén yfir því, en ég hugsa það dugi.
F: Ókei, Auglýsingamaður, ég hringi þá í Þórólf og segi honum að þetta sé komið.
Athugasemdir