Hvaða rugl er það að undirskriftasöfnun sem 57.000 manns hafa nú þegar skrifað undir sé „misheppnuð“? Ég meina undirskriftasöfnun þá sem Kári Stefánsson hóf og gengur út á að stóraukinn kraftur sé lagður í heilbrigðiskerfið á Íslandi.
Allt í einu er farið að tala niður þann mikla fjölda undirskrifta og láta eins og það sé ekki neitt neitt, og það sé á einhvern hátt eðlilegt að þeir Sigmundur Davíð og Bjarni Benediktsson taki ekki minnsta tillit til þessa fjölda.
Það er að sjálfsögðu algjört bull, og lýsir afar lítt þroskuðum skilningi á lýðræði að ekki þurfi að taka tillit til vilja kjósenda sem nú þegar slaga hátt upp í 60 þúsund.
Nú má vera að Kári hafi gert ýmis mistök þegar hann hleypti undirskriftasöfnuninni „Endurreisn“ af stokkunum. Hún var kannski aðeins um of bundin við hans persónu. Og kannski átti hann ekki að nefna sérstakt hlutfall af vergri þjóðarframleiðslu. Tölur eru vandmeðfarnar og ýmsum reiknimeisturum hefur tekist að sýna fram á að kannski hefði ekki átt að nefna akkúrat þessa tölu, heldur einhverja aðra.
Og þá geta menn verið heilagir í framan og sagt: „Ég get ekki skrifað undir þetta. Ég er svoddan nákvæmnismanneskja. Huh!“
En mér er bara alveg sama. Við þekkjum meininguna með undirskriftasöfnuninni og við erum vonandi flestöll sammála henni. Og mér er líka alveg sama þótt Kári kunni að hafa farið illilega fram úr sér í persónulegi þrefi við Sigmund Davíð. Sigmundur Davíð fór líka fram úr sér með furðulegri grein sinni um „topparann“ sem var auðvitað á engan hátt sæmandi. Slíkar móðganir snerta ekki aðalatriði málsins.
Aðalmálið er þetta:
Það þarf að gera ærlegt átak í heilbrigðismálum á Íslandi. Undirskriftasöfnunin Endurreisn hvetur eindregið til þess, hvað sem líður einstökum prósentutölum. Og eina leiðin til að slíkt ærlegt átak verði gert er að ríkisstjórn Sigmundar og Bjarna sjái fram á enn meiri stuðning þjóðarinnar - ef 57 þúsund undirskriftir duga ekki!
Athugasemdir