Samfylkingin gæfi endanlega upp öndina – já, hún gersamlega steindræpist – ef Oddný Harðardóttir, nýr formaður flokksins, stigi fram og lýsti yfir stuðningi við Hildi Þórðardóttur forsetaframbjóðanda.
Í fyrsta lagi vegna þess að það þætti ankannalegt fyrir formann stjórnmálaflokks að blanda sér og sínum flokki í forsetakosningar – sama hve varlega það yrði gert og óháð því hvaða orðalag væri notað.
Í öðru lagi vegna þess að Hildur Þórðardóttir er frambjóðandi sem talar fyrir kukli en varar við læknavísindum; hún talar gegn brjóstaskurðaðgerðum og er í ástarsorg vegna elskhuga sem hún segist hafa misst í fyrra lífi. Málflutningur hennar og boðskapur misbýður fólki, enda mælist Hildur með minna fylgi en Ástþór Magnússon.
Þann 8. maí síðastliðinn tilkynnti Davíð Oddsson um framboð sitt til forseta Íslands. Nokkrum mínútum seinna sat Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, fyrir svörum í viðtali á Bylgjunni og var inntur eftir afstöðu sinni til framboðsins. „Ég held að þessi spurning svari sér að nokkru leyti sjálf og að öllu leyti sjálf skulum við bara segja,“ sagði Bjarni og spáði því að Davíð ætti eftir að höfða til breiðs hóps fólks, langt út fyrir flokkslínur.
Með þessu veitti formaður og helsti talsmaður Sjálfstæðisflokksins forsetaframbjóða mjög afgerandi stuðningsyfirlýsingu. Þetta var snyrtilegt hjá Bjarna; hann orðaði stuðningsyfirlýsingu sína mjög varlega, en engu að síður er ekki hægt að túlka orð hans öðruvísi en sem afgerandi stuðningskveðju. Af formanni Sjálfstæðisflokksins að skilja liggur svarið við spurningunni styður formaður Sjálfstæðisflokksins forsetaframboð Davíðs Oddssonar? í augum uppi – og Bjarni eyddi öllum vafa um meiningu sína með því að segja Davíð mundu höfða til breiðs hóps landsmanna.
Frambjóðendurnir Davíð Oddsson og Hildur Þórðardóttir eiga ýmislegt sameiginlegt. Til dæmis hafa þau bæði verið mjög tortryggin gagnvart niðurstöðum vísindarannsókna. Meðan Hildur hefur beint sjónum að „orkustöðvum“, „orkulíkamanum“ og því sem hún kallar „meint brjóstakrabbamein“ hefur Davíð Oddsson getið sér orð utan landsteina sem öflugur bandamaður þeirra sem efast um eða gera lítið úr loftslagsbreytingum af manna völdum. Fyrir þetta uppskar hann lofsyrði frá bandaríska frjálshyggjumanninum Roger Bate hjá hugveitunni American Enterprise Institute árið 2005. „Davíð Oddsson hefur gert lítið úr líkunum á hættulegum loftslagsbreytingum og er ef til vill eini leiðtoginn í Evrópu sem hefur gert það. Hann studdi Bush á bak við tjöldin á fundum í Evrópu þar sem loftslagsmál voru til umræðu,“ skrifaði Bate.
Nokkrum árum áður hafði Davíð gert loftslagsbreytingar að umtalsefni í áramótaávarpi sínu sem forsætisráðherra. „Umræður um leyndardóma lofthjúpsins, vistkerfi og veðurfar, þurfa að byggjast á hógværð en ekki á hleypidómum. Við þurfum að viðurkenna að þekking okkar er brotakennd. Við höfum ekkert leyfi til að mála skrattann í sífellu á veggi. Skollinn er æði leiðingjarnt veggskraut,“ sagði Davíð árið 1997, sama ár og Kýótó-bókunin var samþykkt eftir að myndast hafði breið samstaða meðal loftslagsvísindamanna um skaðsemi loftslagsbreytinga af manna völdum. Á þessum árum sóttu einmitt ríkisstjórnir Davíðs hart að Íslendingar fengju undanþágur frá Kýótóbókuninni til að geta mengað meira.
Meðan stjórnmálamenn og þjóðarleiðtogar víða um heim, t.d. Ólafur Ragnar Grímsson forseti, töluðu um mikilvægi þess að grípa til gagnaðgerða gegn gróðurhúsaáhrifum gerði Davíð Oddsson lítið úr niðurstöðum og viðvörunarorðum vísindamanna, sagði þekkingu á loftslagsmálum „brotakennda“ og taldi að fólk hefði „ekkert leyfi“ til að hafa áhyggjur af þróun mála. Með tortryggni sinni og léttúð gagnvart niðurstöðum vísindarannsókna sver Davíð sig í ætt við Hildi Þórðardóttur.
Annað sem Hildur og Davíð eiga sameiginlegt er að í kosningabaráttunni hafa þau bæði eytt talsverðu púðri í að gagnrýna Guðna Th. Jóhannesson, þann mótframbjóðanda sem mælist með mest fylgi. Hildur Þórðardóttir hefur kallað Guðna „lítt þekktan peysufræðimann“ og fullyrt að á bak við hann séu vel smurðar kosningavélar stjórnmálaflokka“. Davíð reynir hins vegar ítrekað að klína Icesave-málinu á Guðna og er fúll út í fræðimanninn fyrir að hafa fjallað um þorskastríðin af yfirvegun en ekki blindri þjóðrækni. Hvorki gagnrýni Hildar né Davíðs hefur borið sjáanlegan árangur, heldur öllu heldur orðið þeim sjálfum til háðungar.
Frambjóðendurnir tveir eiga sitthvað sameiginlegt. Svo er annað sem skilur þau að. Ólíkt Davíð Oddssyni hefur Hildur Þórðardóttir aldrei gefið flokksgæðingum ríkisbanka. Hildur hefur aldrei lýst yfir stuðningi við Íraksstríðið og aldrei sett Seðlabanka Íslands í tæknilegt gjaldþrot. Hildur Þórðardóttir hefur aldrei lýst forystukonu í stjórnmálum sem „gluggaskrauti“ og hún hefur aldrei kallað erlendan þjóðhöfðingja múlatta.
Síðast en ekki síst hefur Hildur Þórðardóttir, ólíkt Davíð Oddssyni, enn ekki orðið þess heiðurs aðnjótandi að formaður stjórnmálaflokks lýsi yfir stuðningi við framboð hennar til forseta Íslands.
Athugasemdir