Hégómlegir stjórnmálamenn og sér í lagi einræðisherrar hafa tilhneigingu til að reisa sér það sem þeir telja sjálfir stórfengleg minnismerki. En flest pólitísk líf enda með niðurlægingu og hinna hrokafullu er frekar minnst fyrir afglöp heldur en byggingarnar sem þeir þjösnuðu í gegn.
Napóleon Bonaparte og samt ekki
Einu sinni var einræðisherra sem hét Louis Napóleon.
Eftirnafnið var Bonaparte.
En þessi sigraði ekki Evrópu eða leiddi hundruðir þúsunda út í dauða veturinn 1813. Louis var bara smábarn þá, bróðursonur valdamesta manns í heimi, og fáa grunaði þegar frændi hans tapaði Waterloo að dag einn myndi þetta smápeð einnig verða einræðisherra.
Louis ólst upp í Sviss, barðist með ítölskum þjóðernissinnum um tvítugt (líkt og eldri frændi hans leit hann sennilega fyrst á sig sem Ítala og síðan Frakka) en endaði á því að blandast í franska pólitík. Til að gera langa sögu stutta urðu vinsældir eftirnafnsins til þess að hann vann forsetakosningar. Og eftir að franska þingið setti lög um að forsetar gætu bara setið eitt kjörtímabil brást Louis við með því að fremja valdarán og taka upp keisaratitilinn Napóleon III.
Og hvað?
Napóleon þriðji er sífellt í skugga frænda síns. Hann var lélegur hershöfðingi þótt hann væri sæmilega klár pólitíkus. Ævintýramennska hans með herleiðangra út á Krímskaga og Mexíkó enduðu með ósköpum, honum tókst ágætlega að styðja við sameiningu Ítalíu, en þegar honum mistókst að hindra sameiningu Þýskalands endaði pólitískur ferill hans með dauða mörg hundruð þúsund manna.
En eitt tókst einræðisherranum sæmilega. Að reisa sér minnismerki.
Með því að þurrka út fátækrahverfi fyrir miðju Parísarborgar tókst honum tvennt. Í fyrsta lagi að fá stórar og (á þess tíma mælikvarða) nútímalegar breiðgötur sem þóttu afar glæsilegar. Í öðru lagi troða niður nógu breiðum götum til að vopnað herlið kæmist hratt á milli, auðvelt yrði að njósna um borgara og erfitt fyrir fátæklinga að skapa götuvígi. (Það var frekar óþolandi fyrir konunga og keisara nítjándu aldar hversu oft fátæklingar Parísar tóku upp á því).
Niðurstaðan er borg sem mörgum þykir glæsileg, en það má reyndar alveg halda því skammlaust fram að Latínuhverfið og Montmartre sem Napóleon hafði ekki jafnmikil áhrif á, séu skemmtilegri og fallegri hverfi heldur en þau sem breiðgatan Champs Elysée sker sig í gegnum.
En þú mundir seint ná að sannfæra Nicolae Ceausescu um það.
Ólseigt gíraffakjöt og eitraðir drykkir
Þegar ég var í Rúmeníu í janúar og febrúar í fyrra heyrði ég ótrúlegar sögur sem ég átti bágt með að trúa. Ein sú fyndnasta og sorglegasta sagði mér miðaldra kona, sem ég hitti í partýi, en hún sagði að hún hefði smakkað gíraffa og alls kyns önnur exótísk dýr þegar hún var lítil.
„Nú?“ spurði ég.
„Það var nefnilega hungursneyð þá, Ceausescu hafði ákveðið að niðurgreiða allar skuldir ríkisins á einu ári og allt var flutt út, þar með talið öll matarframleiðslan … enginn átti kjöt í allri Búkarest nema fjölskyldan mín. En foreldrar mínir unnu í háskólanum í líffræðideildinni og þegar dýr dóu í dýragarðinum og voru send þangað inn til að vera krufin eða stoppuð upp ...“
„Og var það gott?“ spurði ég. Konan hristi höfuðið.
„Nei, þau voru sjálfdauð, gömul, seig, kjötið var oft byrjað að úldna þegar það kom heim til okkar.“
Svona voru fleiri sögur bæði skondnar og tragískar. Eitt sinn sátu með mér tveir rúmenskir kvikmyndafræðingar inn á bar og keðjureyktu. (Það er óþolandi að það megi reykja alls staðar nema á einu kaffihúsi í Búkarest). Ég var forvitinn um Ceausescu-tímabilið en þær höfðu lítið um það að segja enda báðar ungar konur fæddar rétt fyrir byltingu. Fólk af þeirra kynslóð hefur ekki upplifað einræðið sjálft og finnst yfirleitt það tímabil full mikið í umræðunni, og svara túristum oftast á þá leið að það nenni ekki að velta sér upp úr ömurleika fortíðarinnar. Skiljanleg viðbrögð þegar ferðamenn hafa helst áhuga á þessu tímabili.
Að lokum tókst mér að draga upp úr þeim eina sögu. Báðar áttu þær afa sem höfðu á einhverjum tímapunkti verið dregnir í yfirheyrslu hjá leynilögreglunni.
„Afi minn var bara inni í einn dag og svo slepptu þeir honum, en hann hélt því alltaf fram að hann væri með höfuðverki og nýru hans væru að gefa sig af því að leynilögreglan væri að eitra fyrir honum.“
„Minn líka,“ sagði hin stúlkan. „Það skipti engu máli þótt mamma segði honum að Ceausescu væri löngu dauður og það væri bara ofdrykkja. Þynnkan var alltaf leynilögreglunni að kenna.“
Svo hlógu þær báðar.
Rúmenski einræðisherrann
Rúmenski einræðisherrann var lágt settur meðlimur í kommúnistaflokknum þegar hann lenti af tilviljun í fangaklefa með Gheorghe Gheorghiu-Dej sem þá var leiðtogi andspyrnuhreyfingarinnar gegn konungsvaldinu og fasismanum. Eftir að hafa eytt mánuðum saman í fangaklefa var Nicolae hækkaður í tign. Maður sem hingað til hafði unnið sér helst til frægðar að vera einn af ótal verkamönnum handtekinn í götubardögum varð að hægri hönd framtíðarleiðtoga Rúmeníu. Og síðar arftaki hans.
Sem einræðisherra heillaðist Ceausescu helst af Norður-Kóreu og sendi arkítekta þangað til að læra af byggingameisturum Kim Yong Il. Gamla götumynd Búkarestar varð honum fljótt þyrnir í augum, og sér í lagi listamannahverfið Úranus, og hann greip tækifærið árið 1977 þegar jarðskjálfti upp á 7,2 á Richter reið yfir borgina. Um það bil 1500 manns létu lífið og 11 þúsund særðust í Vrancea-skjálftanum. Einræðisherrann dreif sig heim úr opinberri heimsókn í Nígeríu og kallaði til arkítektana nú þegar gamla hverfið var hrunið. Krísuna átti að nýta.
„Sem einræðisherra heillaðist Ceausescu helst af Norður-Kóreu og sendi arkítekta þangað til að læra af byggingameisturum Kim Yong Il.“
Litla París verður stóra París
Rúmenska er latneskt mál og rúmensk elíta sótti menntun sína helst til Parísar á nítjándu og byrjun tuttugustu aldar. Þar á meðal má nefna fræðimanninn Mircae Eliade og leikskáldið Ionesco, en frönsk áhrif á byggingarstíl og lífstíl Búkarestarbúa hafði þau áhrif að borgin var nefnd litla París. Kannski var það þess vegna sem Ceausescu fyrirskipaði að nýja breiðgatan Bulevardul Unirii (eða sósíalista breiðgatan) skyldi vera nákvæmlega einum metra breiðari en Champs Elysée, stærsta breiðgata og aðalverslunargata Parísar. (Og eiginlega er mesta furða að hann skyldi ekki hafa hækkað sigurbogann í Búkarest sem reistur var 1878, um nokkra metra í leiðinni).
Það var þó ekki brjálæðislegasta krafa einræðisherrans. Höllin sem Ceausescu reisti sjálfum sér til dýrðar í þessari tveggja milljóna manna borg er næststærsta bygging í heimi á eftir Pentagon. Frá árinu 1983 til 1989 fór 40% af landsframleiðslu Rúmeníu í að reisa þessa sturluðu byggingu sem þó var enn ekki komin í notkun þegar bylting steypti einræðisherranum af stóli. Ótal verkamenn dóu á meðan á framkvæmdum stóð en lögð var meiri áhersla á hraða heldur en öryggi. Að sjálfsögðu var ekta viður, kristall og marmari notaður og nærri allt byggingarefni sótt innanlands.
Rupert Murdoch og Michael Jackson
Árið 1990 bauð fjölmiðlamógúllinn Rupert Murdoch einn milljarð dollara í bygginguna en var hafnað. Hún varð þess í stað að þjóðþingi, en auk þess eru nokkrar aðrar stofnanir staðsettar í Þinghöllinni (áður Alþýðuhöllin). Meðal annars nokkuð stórt og athyglisvert nútímalistasafn sem enginn túristi ætti að láta fram hjá sér fara.
Önnur skondin en sönn saga tengd húsinu átti sér stað 1992. Þá kom Michael Jackson til landsins og var tekið fagnandi af alþýðunni á svölunum þar sem Ceausescu hélt ræður sínar. Fólkið sem áður var þvingað til að klappa fyrir einræðisherranum mætti líkast til sjálfviljugt til að berja poppgoðið augum, en margir urðu þó reiðir þegar Michael kallaði: Halló Búdapest.
Konungur poppsins slapp þó lifandi undan alþýðunni ólíkt Ceausescu, en hann og eiginkona hans voru síðasta fólkið sem tekið var af lífi í Rúmeníu.
„Skipulagsmál snerta okkur öll og í lýðræðisríki geta þær ekki verið háðar duttlungum eins aðila.“
Ljót borg en skemmtileg
París þykir á flesta mælikvarða falleg og þær byggingar sem byggingameistarinn Haussmann reisti fyrir Napóleon þriðja hafa elst vel, þótt fæstir tengi þær við einræðisherrann. Valdaseta hans endaði 1870 þegar Frakkland beið afhroð í stríði hans við Þýskaland og í kjölfarið þustu Parísarbúar út á götu, reistu götuvígi og lýstu því yfir að borgin væri sjálfstæð kommúna. Það kom sér vel fyrir herlið Napóleons að breiðgöturnar gerðu róttæklingum erfitt um vik að verjast, og uppreisnin entist stutt. Það var þó lýðræðissinnum til happs að klofningur varð á milli konungssinna og keisarasinna sem höfðu þingmeirihluta á nýja þinginu, enginn sátt var um hvort konungur af Bourbon-ættlínu, Orleans-ættlínu eða Bonaparte ætti að taka við stjórnartaumum, og heldur ekki um hvort nýji konungurinn eða keisarinn fengi að ákveða nýja fánann eða halda þeim gamla. Þannig vann uppreisnin sigur bakdyramegin.
Önnur saga og heldur sorglegri átti sér stað í nýstofnuðu lýðveldi Rúmeníu. Í byrjun árs 1990 leit allt út fyrir að umbótasinnar mundu hafa sigur, en meðlimir úr kommúnistaflokknum voru fljótir að einkavæða ríkissjónvarpsstöðina og viðhalda stöðugum áróðri gegn uppreisnarmönnum mánuðina fram að kosningum. Að lokum var niðurstaðan sú að gamla valdaklíkan hélt völdum þvert á spár manna. (En lýðræði komst þó á, og síðan 1990 hafa umbótasinnuð öfl einnig náð að mynda ríkisstjórnir).
Búkarest ætti enginn að vanmeta. Víða eru glæsilegar hallir sem spilltir pólitíkusar hafa hirt, en einnig ungir frumkvöðlar sem hafa breytt höllunum í skemmti- og veitingastaði. Fari reykurinn ekki of mikið í augun á fólki má njóta skemmtanalífsins, en Búkarest er ung borg, fæðingartíðnin er hærri en í Vestur-Evrópu og það sést glögglega á mannlífinu sem jafnvel í janúar getur verið kraftmikið. (En fari reykurinn í virkilega taugarnar á fólki má mæla með kaffi og vínbarnum M60. Besta kaffi borgarinnar).
Á sumrin er hægt að rölta um fallega almenningsgarða og njóta hallærislegs kommúnísks byggingarstíls. Þrátt fyrir tilraunir einræðisherrans stendur enn gamall miðbær sem þó er að hruni kominn. Barokk-hallirnar og yngri blokkir eru mörg hver með neti meðfram veggjunum til að grípa grjót sem molnar af áður en það skellur á gangstéttina eða vegfarendur. En ef peningar fyndust í að laga framhlið húsanna, loka helstu sprungunum og mála hverfin upp á nýtt væri litla París fjarri því að vera rangnefni. Borgirnar tvær eiga nefnilega býsna margt sameiginlegt. Bæði hvað byggingarstíl varðar og söguna.
Harpan, Perlan og viðbygging Alþingis
Íslenskir pólitíkusar hafa að sjálfsögðu reynt að reisa sér minnismerki. Harpan var líkt og alþýðuhöll Ceausescus ekki fullkláruð þegar bylting barði að dyrum og hvort sem það var gott eða slæmt þá var ákveðið að klára bygginguna. (Nærri allir Íslendingar hafa skoðun á því). Annað gott dæmi um tilraun stjórnmálafólks til að reisa sér minnismerki eru Perlan, ráðhús Reykjavíkur og Borgarleikhúsið, sem eru öll hluti af arfleifð Davíðs Oddsonar. Þessar byggingar eru í sjálfu sér ekki slæmar og oft nauðsynlegar, líkt og þær framkvæmdir sem Napóleon III gerði á Louvre. En skipulagsmál snerta okkur öll og í lýðræðisríki geta þær ekki verið háðar duttlungum eins aðila, hversu nauðsynlegar framkvæmdirnar eru eða hversu fallegt húsið þykir.
Napóleon þriðja og Ceausescu verður seint minnst sem mikilla stjórnskörunga frekar en annarra pólitíkusa sem misskilja hvar valdsvið þeirra liggur. Báðir notuðu arkítektúr og borgarskipulag til að skapa falska ásýnd af stjórnartíð sinni, og réðust í brjálæðislegar framkvæmdir á meðan hluti þjóðar þeirra svalt. En núna nærri þrjátíu árum eftir valdatíð annars þeirra og meira en hundrað árum eftir valdatíð hins, er minning þeirra fyrst og fremst lélegur brandari, sem ein þjóðin reynir að gleyma og önnur hefur að mestu gleymt.
Athugasemdir