Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherrann okkar, hefur kvartað endurtekið opinberlega undan neikvæðni og ómaklegri gagnrýni. Þetta byrjaði strax með greininni hans „Fyrsti mánuður loftárása“ þegar hann hafði varla verið forsætisráðherra í mánuð en taldi að umræða og fréttaflutningur um sig og flokk sinn væri óhóflega neikvæður, svo bera mætti það saman við sprengjuárásir. Nú síðast sagði hann í viðtali við Eyjuna að „bjartsýni og jákvæðni ætti að vera ríkjandi“, en að „rof milli raunveruleika og skynjunar“ meðal landsmanna yllu vantrausti á stjórnmálamenn eins og hann.
Karl Garðarson, samflokksmaður Sigmundar, kvartaði jafnvel yfir því að Sigmundur væri lagður í „einelti“.
Þegar Sigmundur var hins vegar ekki forsætisráðherra var hann fremstur í flokki í því sem hann lýsir oft sem mesta vanda Íslands: Neikvæðni og upphrópunum.
Úr hádegisfréttum Rúv 21. nóvember 2009, um hálfu ári eftir að vinstri stjórnin varð til: „Sigmundur Davíð segir sitjandi ríkisstjórn þá verstu í sögunni og hennar aðalsmerki séu óvissa og vonbrigði. Frá henni koma fátt annað en blekkingar og spuni.“
Þremur árum seinna var hann enn ekki orðinn forsætisráðherra og enn haldinn sömu neikvæðninni og tortryggninni, sem hann fór í krossferð gegn síðar.
„Enginn verður maður sátta og samlyndis bara þegar það hentar og bara á eigin forsendum.“
Sigmundur sagði á Rúv 28. apríl 2012: „Ef við leggjum saman tjónið þá er orðið meira tjón fyrir efnahag Íslands af þessari ríkisstjórn en af efnahagshruninu sjálfu.“
Deildar meiningar eru um hversu vel ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar stóð sig. Margir álíta að hún hafi stutt bankana of mikið, ekki barist nægilega vel í Icesave-málinu undir þrýstingi Evrópuþjóða, gengið of langt í skattlagningu og verið ósanngjörn við útgerðarmenn. En fáir gengu jafnlangt í að úthrópa hana og Sigmundur Davíð.
Staðreyndin er sú að upprisa Íslands eftir hrun hefur oft þótt vera fyrirmyndardæmi, þótt það þurfi alls ekki að vera ríkisstjórninni að þakka frekar en krónunni og fórnfýsi almennings eða öðru utan valdsviðs hennar.
Það er ósannfærandi að maðurinn sem hrópaði hæst upp yfir sig áður en hann fékk hagsmuni af þögn og brosmildi, skuli vera orðinn mesti baráttumaðurinn gegn því sem hann stundaði áður sjálfum sér til hagsbóta.
Það er líka ósannfærandi að valdamaður sem lýsir gagnrýnendum sínum sem „niðurrifsöflum“ sem skaða hagsmuni Íslands og vænir þá sem styðja hann ekki um ranghugmyndir og rofið veruleikaskyn, skuli krefjast samstöðu og jákvæðni í sinngarð.
Enginn verður maður sátta og samlyndis bara þegar það hentar og bara á eigin forsendum.
Athugasemdir