Þau Ragnhildur Ingibergsdóttir yfirlæknir og Björn Gestsson kennari og forstöðumaður voru ábyrg fyrir rekstri Kópavogshælis á þeim tíma sem nú er svo mjög talað um.
Þau voru hjón og í blaðagreinum og viðtölum kemur víða fram að þau höfðu gífurlegan áhuga á umönnun þroskaheftra og vildu leitast við að búa sem best að þeim vistmönnum er þeim var treyst fyrir.
Björn fór sérstaklega utan til náms í kennslu fyrir þroskahefta og Ragnhildur var aðstoðarlæknir á hæli í Sviss. Björn var auk starfa sinna á Kópavogshæli fyrsti skólastjóri Þroskaþjálfaskóla Íslands.
Óneitanlega virðist þó sem talsverður misbrestur hafi orðið á því hvernig til tókst, ef marka má lýsingar bæði starfsfólks og vistmanna.
Þau hjón mótuðu og skipulögðu Kópavogshæli og starfið þar. Þau voru þó auðvitað alls ekki ein ábyrg fyrir því sem þar fór fram.
Það sem þar var athugavert var á ábyrgð íslensks samfélags í heild, sem leyfði þessu að gerast - og starfið var í anda þess viðhorfs til þroskaheftra sem við lýði var í þjóðfélaginu.
Þau hjón eru nú bæði látin. Björn lést 1992 en Ragnhildur 2013.
Athugasemdir