Í flóttamannaumræðunni hér að undanförnu hefur oftar en ekki verið drepið á trúarlega þætti. Á mörgum er svo að skilja að Íslendingum beri fyrst og fremst að standa vörð um kristin gildi og kristnar hefðir. Liður í því sé að taka við fáum, útvöldum flóttamönnum og þá einkum og sér í lagi kristnu fólki. — Er þetta sjónarmið kristilegt?
Boðskapur Merkel
Angela Merkel kanslari Þýskalands hefur sagt það sem segja þarf í því efni. Í athyglisverðri ræðu frá því um miðjan nóvember síðast liðinn kvað hún upp úr með að í Þýskalandi væri ekki of mikið af íslam heldur of lítið af kristinni trú! Að hennar mati er of lítið gert af því að ræða kristinn mannskilning og kristin gildi í tengslum við straum flóttamanna til Evrópu.
Merkel fór svo inn á svipaða þætti á flokksþingi Kristilegra demókrata um miðjan desember. Í eftirminnilegustu ræðu sinni á tíu ára valdaferli gerði hún flokksystkinum sínum grein fyrir hvað fælist í því að vera kristilegur flokkur. Um leið sló hún vopnin úr höndum þeirra sem gagnrýnt hafa flóttamannastefnu hennar hvað mest og uppskar níu mínútna lófaklapp flokkssystkina sinna! Í örfáum orðum var boðskapur hennar þessi:
Kjarninn í öllu starfi Kristilegra demókrata er náungakærleikur sem jafnframt er grunnþáttur kristins hugarfars. Í kærleika til náungans felst að sérhver manneskja, óháð upprunalandi, trúarsannfæringu, stétt eða stöðu er jafningi þinn og vinur. Guð kristinna manna fer ekki í manngreinarálit.
Boðskapur Ritningarinnar
Í 5. Mósebók segir: „Hann rekur réttar munaðarleysingjans og ekkjunnar og sýnir aðkomumanninum kærleika og gefur honum fæði og klæði. Þið skulið því sjálfir elska aðkomumanninn því þið voruð sjálfir aðkomumenn í Egyptalandi.“ Í þessum orðum er að finna grundvöll tvöfalda kærleiksboðorðsins sem kristið fólk hefur litið á sem grundvöll kristilegs siðferðis um aldir. Í 2. Mósebók segir: „Þú skalt hvorki kúga aðkomumann né þrengja að honum því að þið voruð sjálfir aðkomumenn í Egyptalandi.“ — Ísraelsmenn voru sjálfir þrælar og flóttamenn áður en þeim opnaðist fyrirheitna landið.
Kristið fólk á að líta á sérhverja manneskju sem jafningja. Náungakærleika á ekki aðeins að sýna vegna þess að Guð hefur boðið það, heldur vegna þess að við getum öll lent í þeirri stöðu að þurfa á kærleika og miskunn annarra að halda, en ekki síður vegna þess að náungi okkar hefur sama gildi og á sama rétt og við.
Sár reynsla flóttafólks á öllum öldum á að setja mark sitt á viðhorf og framkomu kristins fólks. Ef við takmörkum tölu flóttamanna sem tekið er við, merkir það að við vinnum ekki í kristnum anda. Það er einfaldlega andkristilegt að synja fólki í neyð um aðstoð.
„Við getum öll lent í þeirri stöðu að þurfa á kærleika og miskunn annarra að halda, en ekki síður vegna þess að náungi okkar hefur sama gildi og á sama rétt og við.“
Erum við kristin?
Í umræðu um flóttamannaaðstoð hér sem annars staðar er því rétt að spyrja hvort við sem búum á Íslandi séum kristin — þ.e. hvort við komum fram við flóttafólk sem til okkar leitar í kristnum anda. Mótast atferli okkar af náungakærleika eins og kristin trúarhefð skilur það hugtak í ljósi fæðingar, lífs, starfs, dauða og upprisu Jesú?
Eftirfylgd við Jesú, sem er grunnhugsjón kristninnar, má að okkar mati setja fram með hjálp tveggja hugtaka: miskunnar og samstöðu. Siðferðileg hlið þess að fylgja Jesú felst í miskunnsemi og kærleika í verki — gagnvart náunga okkar, flóttamanninum. Samstaða er aftur á móti samfélagsleg hlið eftirfylgdarinnar og felst í að ögra ranglátum valdakerfum sem viðhalda styrjöldum sem og þeirri neyð og eymd sem þeim fylgja.
Flóttamaðurinn frá Betlehem
Á komandi jólum minnumst við þess að verðandi flóttamaður fæddist í Betlehem í Júdeu. Ef við viljum standa vörð um þau gildi sem hann boðaði ber okkur að láta stjórnast af miskunnsemi og samstöðu.
Athugasemdir