Nú stendur styrr um hvort auka beri varnir íslenska ríkisins. Mikið er rætt um „forvirkar aðgerðir“ gegn hugsanlegum voðaverkum hér á landi þar sem óvinurinn var einu sinni fíkniefnadjöfullinn en tengist núna ótta við hópa sem í nafni róttækni eða trúarofstækis kunni að verða Íslandi varasamir.
Svona pælingar eru ekki glænýjar, þær hafa oft kviknað innanlands, jafnvel á þeim tíma sem umsvif „verndara Íslendinga“, herliðsins á Suðurnesjum voru enn mikil. Á tíunda áratug síðustu aldar var Guðjón Petersen, þáverandi forstjóri Almannavarna, sem dæmi nokkuð hrifinn af hugmynd um íslenskan her og ræddi þær í fjölmiðlum. Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra, hefur einnig oft talað fyrir svipaðri hugmynd. Alltaf mun einhver hluti Íslendinga trúa því að óttinn sé besta meðalið til að stýra áherslum, fjárveitingum og framtíðarsýn. Aðrir telja best að mæta samtímanum með trú, frelsi, von og umburðarlyndi.
Það kostar að eiga von á hinu versta
Saga, landlega og menning hverrar þjóðar segir að jafnaði nokkuð um hvort fólk kýs óttann og varnir gegn honum eða teflir fram alþjóðlegum hugsjónum í þágu friðar og mannúðar í örvarodda stað. Innan alþjóðastjórnmálafræði sem fræðigreinar gefa svokallaðir realistar sér að sá verði stunginn í bakið sem ekki eigi von á hinu versta og búi sig alltaf undir allt það versta. Ríki þurfi varnir í samræmi við hið „anarkíska“ alþjóðaumhverfi. Raunveruleikinn sé brútal og byggi á eigingirni mannskepnunnar og vitna hinir sömu til Thomas Hobbes. Realistar telja ríkisheri í hópi mikilvægustu stofnana. Hinn skólann í alþjóðastjórnmálum skipa frjálslyndir. Þeir kjósa alþjóðlegt samstarf, trúa að opið samfélag og samtöl þjóða á milli séu máttugri en sverðið. Costa Rica er dæmi um frjálslynda ríkishugsun innan alþjóðastjórnmála. Costa Rica ákvað fyrir nokkru að hafa engan her. Fyrir vikið hefur landið sparað miklar fjárhæðir sem geta þá runnið í að auka lífsgæði borgaranna. Costa Rica er miðsvæðis í veröldinni. Ísland er aftur á móti á jaðri jaðarins. Hingað koma flestir til þess eins að skoða landið sem ferðamenn en fara svo aftur. Að auki hefur hér aldrei verið íslenskur her, innrásir eru fátíðar og langt síðan sú síðasta var reynd. Hér er kalt og við erum afskekkt. Allt hlýtur þetta að telja þegar hugmyndir um aukin umsvif lögreglu eru ræddar.
Hernaðarleg typpakeppni
Ísland lenti Ameríkumegin í Kalda stríðinu og fagna því flestir, enda verja fáir viðurstyggðir kommúnismans í þeirri mynd sem hann var rekinn og kvaldi og kúgaði einstaklingana. Kalda stríðið var arfleifð blautra drauma um heimsyfirráð, óttahugsunar sem byggðist upp á ógnarjafnvægi, því sem mætti kalla hernaðarlega typpakeppni. Þótt Jóni Gnarr hafi sem hugsanlegum forsetaframbjóðanda verið legið á hálsi fyrir að ræða trú og typpi í sömu setningunni er fullkomlega gilt með tilliti til þess að karlar kjósa stríð fremur en konur, að ræða ógnir, typpi og fallusartákn í sömu andrá. Við sáum hvernig Bandaríkjamenn brugðust við eftir að tvö af þeirra helstu fallusartáknum hrundu til grunna. Það var djöfullegt verk. Illskan uppmáluð og kostaði fjölda saklausra borgara lífið. Færð hafa verið rök fyrir því að viðbrögð Bandaríkjamanna, fremur en verknaðurinn sem slíkur, hafi orðið Bandaríkjunum til meira tjóns en voðaverkið sjálft. Norðmenn mættu Breivik með ást og upphafningu hins góða í lífinu þegar hinn hægri sinnaði öfgamaður drap æsku landsins. Kannski lærðu Norðmenn af mistökum Bandaríkjamanna sem gengu m.a. svo langt að heimila pyntingar í þágu þjóðaröryggis.
„Journalism is dead! Long live Journalism“
Dauði frelsis – dauði blaðamennsku
Hnignun Bandaríkjanna sem stórveldis má samkvæmt sumum fræðimönnum rekja að nokkru leyti til þeirrar hugsunar að láta stjórnast af hefndarhyggju, fordómum og ótta við ýmislegt sem stimplað var „anti-american“ um langa hríð. Þegar yfirgengilegur nasjónalismi bætist ofan á og ríkjandi trúarskoðanir horfa fremur til Gamla testamentisins en hins nýja, auga fyrir auga og tönn fyrir tönn, hlýtur að hrikta í stöðumati og sjálfsskilningi þessa fyrrum fyrirmyndarríkis sem Ísland á svo margt að þakka. Það hriktir í stoðum velferðarkerfisins þar westra. Stór hluti almannafjár fer í að búast við hinu versta. Sumir segja að ameríski draumurinn sé dauður. Blaðamennskan sé líka dauð þar í landi, að eftir 11. september hafi blaðamennskan orðið undir í þeirri réttlætingu bandaríska ríkisins að frjáls hugsun og tjáning hafi verið sett fram sem ógn við hagsmuni þjóðaröryggis. „Journalism is dead! Long live Journalism,“ segir Robert McChesney, prófessor við bandarískan háskóla. Hann hefur í ræðu og riti farið hörðum orðum um hrun sjálfstæðrar blaðamennsku, enda séu blaðamenn nauðbeygðir til að taka sér stöðu með hagsmunaöflunum, annars sé þaggað niður í þeim.
Forsætisráðherra góður vegvísir?
Hvað getur þá orðið til þess að sumir forsvarsmanna íslenska ríkisins virðast horfa til BNA sem helstu fyrirmyndarinnar þegar taka á ákvörðun um hvort efla beri forvarnir gegn hryðjuverkum í því skyni að reyna að koma í veg fyrir þau hér á landi? Kannski vakir það fyrir þeim að ef talað er um óttann nógu lengi, fer fólk að láta óttann stýra sér. Þá hverfur frelsið og skynsemin eins og dögg fyrir sólu. Tengsl milli hræðslu og þjóðernishyggju eru þekkt.
Voveiflegir atburðir geta orðið á öllum tímum, á hvaða stað sem er en líkurnar á hryðjuverki hér á landi eru í samræmi við einangraða legu landsins yst úti í köldu hafi, líkurnar eru í samræmi við fámenni þjóðarinnar og nokkra einsleitni. Hryðjuverkamenn eru alls konar á litinn, þeir hafa ólíkar trúarskoðanir, sumir eru til hægri, aðrir til vinstri, allir leitast þó við að valda eins miklu tjóni, usla, sársauka og ringulreið og þeir geta, til að ná hámarks athygli og hámarks áhrifum af ódæðum sínum. Þeir vita mátt óttans. Hér á landi búa fleiri fuglar í litlu bjargi en fólk á öllu landinu. Við erum eins mörg og íbúar einnar blokkar í nágrannalandi og erfitt að komast hingað. Líkurnar á hryðjuverki eru því varla miklar hér á landi. Þess vegna verður að ræða hverju þjóðin er tilbúin að fórna í staðinn fyrir óttann við mögulega ógn. Mögulega hryðjuverkaógn. Skoða verður átyllur þess að talsmenn ríkisins sumir hverjir sjái mikla þörf á stofnun svokallaðs Þjóðaröryggisráðs Íslands. Hvað kallar á meinta þörf þess að auka heimildir lögreglu til svokallaðra forvirkra rannsóknarheimilda, sem oft eru ekki annað en skoðananjósnir?
Hver er átyllan? Einn erlendur piltur kom til landsins á dögunum. Hann bullaði eitthvað í yfirheyrslu við lögreglu um hryðjuverk og Isis. Svo nota menn það einnig sem rök að upp hafi komið mál bæði í Frakklandi og Danmörku en að hve miklu leyti er hægt að yfirfæra þær aðstæður yfir á okkar Ísland? Svífur kunnugleg einangrunarhyggja yfir vötnum í þessari umræðu? Óttinn við ESB? Óttinn við önnur trúarbrögð en „íslenska“ kristni. Ef stofnun Þjóðaröryggisráðs Íslands er eitt af brýnustu verkum samtímans má spyrja hvort næsta skref verði ekki að stofna Fæðuöryggisráð Íslands? Fæðuöryggi hefur verið nefnt sem ein rökin gegn ESB. Forsætisráðherra er smeykur við að snæða erlendan mat þegar hann fer út fyrir landsteinana. Er hann góður vegvísir?
Óttinn sem atkvæði
Við eyddum einu sinni milljarði í umsókn til að komast í Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna. Það var á tímum oflætis – þegar íslenskir útrásarvíkingar reyndu að sigra heiminn, dyggilega studdir ráðandi ríkisstjórnaröflum, dyggilega studdir forseta vorum á Bessastöðum. Nú blossar enn upp oflætið en með öðrum formerkjum. Nú erum við ekki að sigra heiminn en við ætlum að verjast honum!
„Heimurinn hefur nóg til að fullnægja þörfum mannanna en ekki græðgi þeirra,“ sagði Mahatma Gandhi.
Sama er að segja um óttann sem gjarnan er fylgikvilli einangrunar og þjóðernishyggju. Óttinn getur verið óseðjandi. Stundum nýta stjórnmálamenn sér líka óttann til að ná í atkvæði.
Athugasemdir