Um veröld víða er fólk agndofa yfir þeim tíðindum sem frá Bandaríkjunum berast þessi dægrin. Er Donald Trump genginn af göflunum? Honum virðist altént hafa tekist að skera svo orðstír Bandaríkjanna niður við trog að það gæti tekið áratugi að bæta úr skák. Og er það bara af tómri flónsku og ruddaskap?
Ekki eru allir sannfærðir um það. Sumir telja að á bak við flumbruganginn búi eitthvað annað og ískyggilegra en virðist við fyrstu sýn. Og þá hefur athyglin beinst að Steve Bannon nánasta ráðgjafa Trumps.
Bannon er vel hægt að kalla öfgahægrimann og hann hefur nú komið sér í þá stöðu að sumir telja að hann sé í raun og veru mestur gerandinn í Hvíta húsinu nú, það sé hann sem upphugsi aðgerðir Trumps, þótt Trump fái svo að leika aðalhlutverkið í því raunveruleikasjónvarpi sem hinn nýi forseti virðist álíta að embætti hans sé.

Meðal þeirra sem vilja vekja athygli á þætti Bannons er Heather Cox Richardson. Hún heldur því einfaldlega fram að með hamaganginum sem nú gangi yfir sé Bannon að breiða yfir eitthvað enn skelfilegra sem í vændum sé.
Og Richardson veit hvað hún syngur.
Hún er einn merkasti sagnfræðingur Bandaríkjanna um þessar mundir, sprenglærður sérfræðingur í sögu 19. aldar, bæði borgarastríðsins 1861-1865, eftirkasta þess og hlutskiptis frumbyggja. Hún hefur einnig skrifað rómaða bók um sögu Repúblikanaflokksins.
Richardson birti í gær á Facebook-síðu sinni útlistun sína á því sem er að gerast. Það er ómaksins vert að kynnast sjónarmiðum hennar og raunar er vel hægt að draga lærdóm af því í fleiri löndum en Bandaríkjunum. Úr því hún birtir pistilinn á Facebook og honum hefur verið dreift víða, þá er áreiðanlega heimilt að þýða hann og birta hér.
Dæmið sem Richardson tekur í síðari hluta pistilsins snýst um aðdraganda borgarastríðsins vestanhafs. Miklar deilur höfðu staðið í áratugi um þrælahald, flestir í Norðurríkjunum vildu leggja það af en í Suðurríkjunum gátu menn treyst á sundrungu og þrætugirni Norðurríkjanna þar sem menn voru aldrei sammála um hvernig skyldi staðið að niðurfellingu þrælahalds.
Þegar Abraham Lincoln var kosinn forseti 1860 þótti Suðurríkjamönnum sýnt að nú kynni að draga til tíðinda, og leiðtogum þrælahaldara tókst að æsa upp íbúana í Suðurríkjunum og hóta því að kljúfa sig burt úr Bandaríkjunum. Þeir treystu á að missætti í Norðurríkjunum yrði til þess að þeir þyrftu ekki að súpa seyðið af því. En Lincoln brást hart við.
Grein Heather Cox Richardson er svohljóðandi:
„Ég kann illa við að taka um pólitík á Facebook – stjórnmálasaga er náttúrlega mitt starf en þið eruð vinir mínir – en í dag er nauðsynlegt að vekja athygli á einu, sem ekki snertir flokkapólitík.

Það sem Bannon er að gera – og birtist best í banninu gegn íbúum sjö múslimalanda – er að skapa það sem kallað er „sjokk atburð“. Slíkur atburður er óvæntur og ruglandi og kemur öllu upp í loft í samfélaginu. Fólk reynir af öllum mætti að bregðast við en þá venjulega eftir einhverjum brotalínum sem þeir, sem bera ábyrgð á atburðinum, geta hagnýtt sér með því að víkka út brotalínurnar og halda því síðan fram að þeir einir geti komið aftur á röð og reglu.
Þegar fólk mótmælir geta höfundar sjokksins kallað þá óvini. Meðan þjóðfélagið er í upplausn og allir upp á háa c-i, þá hafa sjokk-höfundarnir færi á að framkvæma einhver þau bellibrögð sem voru alla tíð hið upphaflega markmið þeirra, eitthvað sem þeir vita að sé í rauninni gífurlega óvinsælt, en enginn tekur eftir af því allir eru önnum kafnir við að rífast um hinn upphaflega sjokk-atburð.
Þá er ekki lengur fyrir hendi markviss andstaða gegn því sem sjokk-höfundarnir ætluðu sér allan tímann, því samfélagið er allt niðursokkið í skotgröfum sínum vegna sjokk-atburðarins í byrjun.
Tilskipun forsetans ber öll einkenni sjokk-atburðar. Engar ríkisstofnanir eða lögmenn fóru yfir málið áður en það var kynnt, og þeir sem berjast gegn hryðjuverkum fullyrða að þeir hafi ekki beðið um neitt af þessu tagi. Fólk sem á að framfylgja þessu fékk engar leiðbeiningar um hvernig ætti að gera það. Dómstólar hafa þegar lýst hluta af tilskipuninni ólöglega og landamæralögreglan á sumum flugvöllum neitar að fara eftir þessum.
Eins og við mátti búast er niðurstaðan tómt rugl og mikill æsingur.
Það sem ég vildi sagt hafa er þetta: Nema þú sért sjálfur sjokk-höfundurinn, þá hefur enginn gagn af því að taka þátt í þessum leik. Hann er sérstaklega sniðinn til að skilja að hópa og fólk sem annars væri sammála um að standa gegn einhverju öðru sem sjokk-höfundurinn telur víst að fólkið verði eindregið á móti.
Ég veit ekki hvað Bannon er að brugga – þótt sitt af hverju hafi hvarflað að mér – en vegna þess að ég þekki hugmyndir Bannons vel, þá er ég handviss um að ekki ein manneskja sem ég tel til vina minna, hvar í flokki sem þær standa – og ég á vini býsna víða – ekki ein slík manneskja mun styðja það, hvað sem það er.
Ef sjokk-atburðurinn lukkast hins vegar, þá mun ekki líða á löngu þangað til mörg ykkar verðið farin að kenna hvert öðru um hvernig þetta endaði allt með ósköpum. En Bannon mun sleppa.
En einmitt vegna þess að sjokk-atburðir koma öllu í bál og brand, þá er líka hægt að nota þá til góðs. Við þurfum ekki að bregðast við eftir gömlu brotalínunum. Við getum eins skipulagt okkur eftir mynstri sem er yrði alvöru ógn við það fólk sem hleypti sjokkinu af stað.
Vel heppnaður sjokk-atburður verður að vera snöggur og valda mikilli ringulreið, því allt veltur á að fólk hrökkvi strax við og eftir hinum gömlu brotalínum. Þannig tókst leiðtogum Suðurríkjanna til dæmis að fá íbúa til að fallast á að segja skilið við Bandaríkin [um það bil sem borgarastríðið var að brjótast út 1861].
En ef fólk gerir sér grein fyrir því að það er verið að leika á það, þá getur það aftur á móti litið upp úr gömlu skotgröfunum og endurskipulagt sig til að mæta þeim leiðtogum sem eru að möndla með sjokk-atburðinn. Þannig brást Abraham Lincoln einmitt við þegar honum tókst að sameina [ólíka hópa og stríðandi fylkingar í Norðurríkjunum] til að standa þétt saman gegn valdi þrælahaldaranna.
Fimm árum fyrr hefði slíkt bandalag verið óhugsandi. Hóparnir voru eiginlega ekki sammála um neitt nema að þeir vildu að allir Bandaríkjamenn hefðu jöfn tækifæri á efnahagssviðinu. Strax og þessir ólíku hópar fóru að vinna saman til að koma á réttlátri skipan í efnahagsmálum, þá fundu þeir að þeir áttu margt sameiginlegt. Þeir enduðu með því að setja nýjan kúrs fyrir þjóðina, sannkallaða „ríkisstjórn fólksins, úr röðum fólksins og fyrir fólkið“.
Bæði leiðtogar Suðurríkjanna og Abraham Lincoln vissu vel um pólitíska möguleika sjokk-atburðar. Þar sem við erum nú einmitt stödd í miðjum einum slíkum, þá er ómaksins vert að benda á að Lincoln virtist kunna betur að brúka hann.“
EndFragment
Athugasemdir