Enn berast fréttir af því að hryðjuverkamenn hafi sent sjálfsmorðssprengjumenn í mosku, að þessu sinni í Kabúl i Afganistan.
Og tugir manna féllu.
Hryðjuverkamenn íslamista eru miklu hættulegri á sínum heimslóðum en nokkurn tíma á Vesturlöndum. Þar glíma Shíar annars vegar og Súnnítar hins vegar og hika ekki við manndrápin.
En hver var uppruni þess klofnings sem hryðjuverkamenn og öfgahópar nota sem afsökun fyrir illverkum sínum.
Sagan er í stuttu máli á þessa leið - og án þess að nokkrum efasemdum sé hreyft um hina hefðbundnu útgáfu hennar:
Múhameð spámaður lést árið 632 rétt um það bil sem hann og fylgismenn voru búnir að tryggja sér yfirráð yfir mestöllum Arabíuskaga. Hann hafði verið margkvæntur en átti nú aðeins dóttur á lífi, Fatímu.
Móðir Fatímu hét Kadía og var fyrsta eiginkona Múhameðs.
Fatíma hafði gengið að eiga Alí nokkurn. Alí og Múhameð voru bræðrasynir og Alí hafði verið einn af þeim fyrstu sem viðurkenndu Múhameð sem spámann Allah.
Þá var Alí aðeins tíu ára og helgaði hann Múhameð síðan líf sitt.
Þegar Múhameð dó taldi Alí einboðið að hann sjálfur yrði arftaki spámannsins sem veraldlegur og trúarlegur leiðtogi hins nýja trúarhóps.
Ekki voru þó allir á þeirri skoðun.
Hópur af nánustu fylgismönnum Múhameðs kom saman í flýti og tryggði Abú Bakr sess sem arftaka Múhameðs.
Abú þessi Bakr hafði lengi fylgt Múhameð. Hann var tengdafaðir Múhameð því Aísa dóttir hans var ein af seinni konum spámannsins.
Abú Bakr var þó nokkrum árum yngri en tengdasonurinn enda hafði Aísa verið vægast sagt ung að árum þegar Múhameð kvæntist henni.
Alí fór lítt í felur með að honum gramdist að hafa ekki verið valinn arftaki (kalífi) Múhameðs en lýsti þó að lokum yfir hollustu við Abú Bakr. Hann dró sig síðan að mestu í hlé meðan Abú Bakr réði ráðum.
Um þetta leyti gerðist það líka að Fatíma Múhameðsdóttir og eiginkona Alís dó.
Hann gekk þá að eiga Umamah nokkra. Hún var dóttir elstu dóttur Múhameðs, sem hafði dáið fyrir alllöngu.
Alí hafði sem sagt verið kvæntur dóttur Múhameðs en var nú kvæntur dótturdóttur hans.
Þegar Abú Bakr dó eftir aðeins tvö ár á stóli kalífa var Úmar nokkur valinn í hans stað. Hann var eins og Abú Bakr faðir einnar af eiginkonum Múhameðs og hafði stutt Abú Bakr dyggilega.
Alí hafði sig ekki mikið í frammi þegar Úmar var valinn en mun hafa stutt hann með ráðum og dáð. Nú var hafin gífurleg útþensla íslams um Miðausturlönd og hafði Úmar í nógu að snúast þótt ekki leiddi hann heri múslima sjálfur.
Áratug síðar - eða árið 644 - var Úmar myrtur. Morðinginn virðist hafa verið á snærum Persa sem vildu hefna fyrir að herir múslima höfðu lagt undir sig Persíu.
Alí kom nú fram á sjónarsviðið sem einn þeirra sem vildu fá tign kalífa.
En hann átti enn volduga fjandmenn í hópi múslima, og fyrir valinu varð Úsman nokkur.
Hann hafði lengi verið framarlega í hópi múslima. Þá hafði Úsman á sínum tíma verið kvæntur tveimur dætrum Múhameðs (ekki þó samtímis) en þær urðu báðar skammlífar og höfðu dáið á undan föður sínum.
Á tólf ára valdatíma Úsmans sem kalífa hélt útþenslustefna múslima hiklaust áfram. Úsman varð hins vegar umdeildur fyrir ýmsar sakir og brátt braust út uppreisn gegn honum.
Alí hafði ekki farið í felur með andstöðu sína við Úsman, en er þó ekki sagður hafa verið í slagtogi með uppreisnarmönnum, sem réðust að Úsman árið 656 og myrtu hann.
Uppreisnarmenn buðu Alí síðan kalífatignina en hann er sagður hafa verið tregur að taka við slíkri tign úr höndum þeirra. Hann féllst þó um síðir á að gerast kalífi eftir að íbúar Mekka báðu hann þess.
Nú var allt upp í loft í herbúðum múlima. Ættingjar Úsmans af hinni svonefndu Úmmajad-ætt sættu sig ekki við að hann hefði verið drepinn og gerðu uppreisn gegn Alí.
Sigursæll hershöfðingi Úmmajada, sem Múhavía hét, stýrði andstöðunni gegn Alí og ætlaði sjálfum sér tign kalífa.
Alí mun að lokum hafa fallist á samningaviðræður við Múhavía en kom þá upp á móti sér nýjum flokki uppreisnarmanna, sem nefndust Kharítar. Þeir vildu enga undanlátssemi við Ummajada.
Eftir fimm ára valdatíð sem kalífi var Alí myrtur af launmorðingja Kharíta.
Hann hafði gefið til kynna að sá eldri af tveimur sonum hans og Fatímu ættu nú að taka við af sér. Sá hét Hassan en sá yngri Hussein.
Úmmajadar vildu hins vegar ekki sætta sig við yfirráð Hassans, stöðugar skærur hélfu áfram og Hassan sá að lokum sitt óvænna eftir hálft ár í sæti kalífa og dró sig í hlé.
Hann gerði samning við Úmmajada um að Múhavía skyldi teljast réttur kalífi.
Hassan lifði svo í kyrrlátum helgum steini en dó 670. Talið var nokkuð víst að eitrað hefði verið fyrir honum af eiginkonu hans, og fjendur Úmmajada staðhæfðu að þar hefði Múhavía staðið á bak við.
Ekki er hægt að segja að kristilegur kærleikur hafi ráðið ríkjum í þessum hópi hinna fyrstu múslima!
Yngri bróðir Hassans var nú ákaft hvattur til að gera uppreisn gegn Úmmajödum en Hussein vísaði til þess að bróðir hans hafði verið samning við Múhavía og við þann samning skyldi staðið.
Áratug síðar, árið 680, dó Múhavía. Þáttur í samningi hans við Hassans hafði verið að hann myndi ekki reyna að tilnefna arftaka sinn sem kalífi, heldur yrði það látið múslimum almennt eftir.
Þetta ákvæði braut Múhavía hins vegar með því að gera son sinn að kalífa er hann lá banaleguna.
Sonurinn hét Jasíd og er Hussein frétti þetta neitaði hann að fallast á Jasíd sem kalífa. Sú tign bæri sér sem beinum afkomanda spámannsins.
10. október 680 réðust herflokkar Jasíds á Hussein og fylgismenn hans þar sem heitir Karbala í Mesópótamíu. Orrustuvöllurinn er um 80 kílómetra suður af þeim stað þar sem seinna reis borgin Bhagdad.
Hussein og fylgismönnum hans var slátrað.
Jasíd hélt áfram sem kalífi.
Þeir sem viðurkenna að hann hafi verið kalífi með réttu kallast nú Súnnítar. Þeir eru töluverður meirihluti múslima í flestum löndum íslams.
Þeir sem halda því hins vegar fram að ættboga Alís hafi borið kalífatignin, þeir eru kallaðir Shíar.
Núorðið er margvíslegur munur á helgisiðum, helgihaldi og hugmyndafræði Súnníta annars vegar og Shía hinsvegar.
En hið upprunalega misklíðarefni var sem sagt þetta - valdabarátta árið 680.
Athugasemdir