Núna - tæpum þremur árum eftir að ríkisstjórn Sigmundar Davíðs og Bjarna Benediktssonar settist að völdum - þá hyllir undir að kannski skili hin vandræðalega stjórnarskrárnefnd hennar einhverjum niðurstöðum.
Sem virðast felast í að breytingar verði gerðar á örfáum greinum.
Að einhverju leyti virðist þar vera um útvatnaðar útgáfur af tillögum stjórnlagaráðs að ræða.
Ég sé að ýmsir þeirra, sem ella telja sig andsnúna ríkisstjórninni og/eða svikum hennar í stjórnarskrármálinu, eru nú að tala sig upp í að nauðsynlegt sé að styðja breytingar ríkisstjórnarinnar.
(„Svik“ segi ég ekki af því alltaf verði allir að samþykkja tillögur stjórnlagaráðs upp á hvern punkt og prik, heldur af því að ríkisstjórnin hefur hundsað niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég veit ekki hvað á að kalla það annað en svik.)
En sumir segja sem svo:
Það er skárra að samþykkja þessar tillögur heldur en ekki neitt.
Einhverjar breytingar í lýðræðisátt, einhver áfangi í þá átt að tryggja yfirráð þjóðarinnar yfir auðlindunum ... þetta hlýtur að vera einnar messu virði.
Þetta orðalag hef ég séð hjá fleirum en einum.
„Er það ekki einnar messu virði?“
Og í stuttu máli sagt: Nei, það er ekki einnar messu virði.
Ríkisstjórnin ætlar að böðlast fram með sínar stjórnarskrárbreytingar til að freista þess að draga tennurnar úr þeim sem vilja raunverulegar lýðræðisumbætur.
Og ekki síður til að freista þess að setja málið út í hornið í næstu kosningabaráttu.
Þetta eru einu ástæður þess að Sigmundur Davíð og Bjarni ætla (kannski) að leggja á endanum fram einhverjar tillögur.
Og af hverju ættu stjórnarandstæðingar að hjálpa þeim að skera sig niður úr snörunni?
Stjórnarskrárbreytingar Sigmundar Davíðs og Bjarna munu - ef þær verða einhverjar - fresta raunverulegum umbótum í þessu landi um jafnvel nokkra áratugi enn.
Það er ekki „einnar messu virði“ að styðja slíkt.
Hér má svo að lokum minna á að hvaðan þetta orðtak er upprunnið.
Hinrik hét maður af konungsætt Frakklands á sextándu öld. Honum stóð til boða að verða kóngur en því aðeins að hann gengi af trú sinni, en Hinrik var sannfærður mótmælandi, eða húgenotti.
Til að missa ekki af völdunum og auðæfunum sem fylgdu hásætinu kastaði Hinrik trú sinni og gerðist kaþólskur. Hann var sagður hafa látið svo um mælt: „París er einnar messu virði.“
Sá sem gerir eitthvað af því það er „einnar messu virði“ hann gengur sem sagt af sannfæringu sinni - fyrir veraldlegan ábata. Þetta orðtak snýst um græðgi og fyrirlitningu á hugsjónum.
Það er ekki „einnar messu virði“ að ganga af sannfæringu sinni um raunverulegar lýðræðis- og samfélagsumbætur á Íslandi til þess eins að leggja Sigmundi Davíð og Bjarna Benediktssyni lið við að halda völdum auðstéttanna á Íslandi.
Athugasemdir