Eins og ég hef margoft tekið fram, þá hef ég forðast að taka mjög af skarið í þeim hrunmálum sem rannsóknarnefndir og dómstólar hafa verið að fást við undanfarinn áratug, tæpan.
Ég hef ekki litið á það sem mitt hlutverk, og heldur ekki viljað hrapa að ályktunum í flóknum málum sem sum hafa ekki reynst öll þar sem þau eru séð.
En stundum blöskrar manni.
Fréttablaðið birtir upplýsingar um væntanlegar niðurstöður í rannsókn á einkavæðingu Búnaðarbankans fyrir margt löngu, og þó í rauninni aðeins á svokallaðri aðkomu þýska bankans Hauck & Aufhäuser þarað.
Ef marka má upplýsingar Fréttablaðsins - og engin ástæða virðist til annars - þá var sú aðkoma eintóm blekking. Bankanum virðist einfaldlega hafa verið borgað fyrir að lána nafnið sitt á „kaup“ S-hópsins á hlut ríkisins í Búnaðarbankanum.
Og allt fór gegnum aflandsfélagið Welling & Partners Ltd á Bresku jómfrúreyjum.
Nú er það svo að þessi niðurstaða kemur ekki beinlínis á óvart. Um þetta hafa verið á kreiki grunsemdir ansi lengi, og er þá vægt til orða tekið.
En það verður fínt að fá þetta á hreint.
En nema hvað - Sigurður Einarsson einn forkólfur S-hópsins og síðan bankastjóri Kaupþings, hann virðist í svari til rannsóknarnefndarinnar halda því fram að hann „reki ekki minni til“ félagsins Welling & Partners Ltd.
Og hann bendir á að síðan séu liðin 14 ár.
Þið fyrirgefið, en að einn aðalleikarinn í þeirri fléttu - að ég segi ekki beinlínis blekkingum, það kemur greinilega í ljós bráðum - en segjum í bili þeirri fléttu sem færðu S-hópnum og Kaupþingsmönnum ótrúleg auðæfi, og já, ótrúleg völd í íslensku samfélagi, að hann skuli nú bera fyrir sig MINNISLEYSI, það er einhvern veginn ótrúlegra en tárum taki.
Kaupþing átti sinn þátt í að blása upp íslensku bankablöðruna og að Sigurður Einarsson segist nú ekki MUNA hvernig þetta byrjaði allt saman, sem felst í minnisleysi hans um þetta félag Welling & Partners, ég næ því bara ekki alveg.
Er ætlast til að við trúum alveg hverju sem er?
Athugasemdir